Gamli Gráni

Það vita það ekki alveg allir, en ég varð fyrir því óláni um miðjan október síðastliðinn að verða í vegi mótorhjóls í Napólí á Ítalíu. Betur fór en á horfðist og slapp ég með axlarbrot. Þetta hefur haft sínar afleiðingar en allar eru þær viðráðanlegar – ef frá er talin ein.

Það vita það ekki alveg allir, en ég varð fyrir því óláni um miðjan október síðastliðinn að verða í vegi mótorhjóls í Napólí á Ítalíu. Betur fór en á horfðist og slapp ég með axlarbrot. Þetta hefur haft sínar afleiðingar en allar eru þær viðráðanlegar – ef frá er talin ein.

Læknirinn sem fyrstur lagði mat á áverkann þegar heim var komið lét þess getið að ég myndi nú jafna mig á þessu, þó svo að þetta myndi eflaust há mér eitthvað til frambúðar. Ég spurði hvort ekki væri hægt að gera eitthvað í því, þannig að ég yrði alheill.

Þá kom skellurinn.

Jú, eflaust væri það hægt, með einhverju flóknu inngripi eða sérmeðferð, en það tæki því varla úr þessu fyrir mig, verandi kominn á þennan aldur.

Búmm. Þetta var meiri skellur en að lenda í granítinu á götunni í Napólí.

Mín fyrstu viðbrögð voru að gantast eitthvað hálf óstyrkur en steinrunnið andlit bráðamóttökulæknisins sagði mér að hann var ekki að grínast með þetta. Svona var þetta.

Næsti.

Þar sem ég gekk út af spítalanum með höndina í fatla varð mér hugsað til Gamla Grána, Mitsubishi Pajero jeppa sem ég átti forðum daga og þótti vænt um. Minntist þess þegar þetta og hitt fór að bila í honum og það var afgreitt þannig að það tæki því ekki að vera gera við þetta, það mætti vel keyra bílinn áfram.

Ég var orðinn Gamli Gráni. Kæmist væntanlega áfram í gegnum skoðun, mögulega á grænum miða, en ekki á stólandi í lengri eða erfiðari ferðir, fara varlega í krappar beygjur og láta hann hitna vel áður en farið er af stað að morgni dags. Eins og Gamli Gráni yrði ég smám saman andlag væntumþykju í stað aðdáunar. Ansi seigur sá gamli, duglegur að drífa sig í laugina, lunkinn í stutta spilinu.

Svo bráir auðvitað af manni. Þrátt fyrir afleitt líkamlegt atgervi og þessa hreyfihömlun sem skellurinn í Napólí kann að hafa valdið, er staðan ekki alslæm. Enginn má sköpum renna og það er gæfa að fá að eldast – það er ekki öllum gefið.

Það er samt skrýtin tilfinning að ganga út í seinni hálfleikinn. Maður þarf að búast við að verða skipt út af á einhverjum tímapunkti, að maður klári ekki leikinn. Best væri að fá heiðursskiptingu í uppbótartíma undir dynjandi lófaklappi. Ekki viss um að ég treysti mér í framlengingu – og vítaspyrnukeppni er eitthvað sem allir vilja forðast.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.