Tilviljanakennd gæfa

Þó svo að sjávarútvegur sé ekki lengur stærsta atvinnugrein okkar Íslendinga, þá verður ekki ekki fram hjá litið að velmegun þjóðarinnar er að stórum hluta honum að þakka.

Þó svo að sjávarútvegur sé ekki lengur stærsta atvinnugrein okkar Íslendinga, þá verður ekki ekki fram hjá litið að velmegun þjóðarinnar er að stórum hluta honum að þakka.

Fiskvinnsla eftir seinni heimsstyrjöldina lagði grundvöll að núverandi hagsæld okkar og skapaði forsendur fyrir uppbyggingu annarra atvinnugreina.

Hryggjarstykkið í útgerðinni er og hefur verið veiðar og vinnsla á þorski. Því er áhugavert að velta fyrir sér hvers vegna íslenskur sjávarútvegur stendur svo framarlega og hugsa til þess hversu litlu munaði að þessi gjöfulu mið væru eyðilögð af þjóðum sem eiga sér lengri sögu við fiskveiðar á iðnaðarskala en við.

Portúgalar, Spánverjar og Bretar hafa sögulega verið stórtækir í veiðum á atlantshafsþorski bæði við sínar eigin strendur, í Norður-Atlantshafi ásamt því að stunda veiðar út af landgrunni Norður Ameríku og Barentshafi. Í þessum löndum voru stærstu markaðirnir og löng hefð fyrir stórtækum veiðum.

Lengst af voru þessar veiðar frjálsar og takmörkuðust að miklu leyti við eftirspurn eftir fiski og tæknilegri getu við að moka aflanum úr sjónum.

Þannig stórjukust veiðar með tilkomu vélvæddu skuttogaranna seint á 19. öldinni sem gátu farið lengra og veitt meira en bátar fyrri tíma. Með stöðugri framþróun og bættum veiðarfærum leið ekki á löngu áður en gengið var ansi nærri fiskimiðum við strandir Bretlands, Frakklands og Portúgal og síðan Norður Ameríku vegna hömlulausra veiða á þorski. Þetta leiddi til dæmis til þess að á 10. áratug síðustu aldar þegar talið var að einungis 1% væri eftir að upprunalegum stofnum við Nova Scotia og Nýfundnaland, hættu Kanadamenn nærri öllum veiðum á þeim slóðum.

Eftir því sem afli minnkaði á þeim miðum sem fiskveiðiþjóðirnar höfðu auðvelt aðgengi að og markaðir stækkuðu, mátti gera ráð fyrir að þeir sem hefðu lífsviðurværi sitt af útgerð myndu leita enn frekar á fjarlægari mið. Þar á meðal á landgrunnin við strendur Íslands enda áttu veiðar annarra en heimamanna þar sér langa sögu. Stórtæk togaraútgerð hér um slóðir var því á næsta leyti og líklegt að eins færi fyrir þorskstofninum hér við land eins og á öðrum stöðum þar sem ofveiði var stunduð.

Þegar þarna var komið við sögu vorum við Íslendingar ekki í aðstöðu til að stöðva veiðar annarra við landið eða sinna þeim sjálf enda bjó þjóðin við þröngan kost, stundaði frumstæðan útveg og undir stjórn Dana.

Ógæfa Evrópu varð hins vegar til þess að meðal annars breskir sjómenn höfðu ekki tækifæri til herja eins grimmt og þeir höfðu ætlað sér á íslensk mið. Ekki var öruggt að sigla yfir Atlashafið sem Þjóðverjar vöktuðu með kafbátahernaði. Seinni heimsstyrjöldin olli því jafnframt að stór hluti fiskiflota Breta fór í stríðsrekstur og lömuðust því veiðar þeirra tímabundið.

Að sama skapi myndaðist tækifæri fyrir Íslendinga til veiða og útflutnings til Evrópu sem bráðvantaði matvæli eftir stríðið.

Aðskilnaður Íslendinga frá Dönum hefur án efa haft áhrif á sjálfstraust Íslendinga gagnvart umheiminum en staða landsins vegna hugmyndafræðilegs ágreinings austurs og vesturs gaf hagsmunum okkar hins vegar almennt meira vægi í alþjóðasamskiptum. Til að tryggja að viðskiptahagsmunir okkar væru bundnir vesturveldunum veittu Bandaríkjamenn okkur Marshall-aðstoð en hún nýttist m.a. til að kaupa á togurum sem gerðu okkur kleift að hefja kröftuga útgerð.

Með sjálfstæðri útgerð sköpuðust aðstæður til útvíkkunar fiskveiðilögsögu landa eins og Íslands og Kanada í 200 mílur og gerðu heimamenn ríkari kröfu til miðanna.

Þessi breyting var eðlilega mikið áfall fyrir þá sjómenn sem höfðu fram að því gengið að miðunum vísum og eðlilega tóku þeir slíkum breytingum ekki möglunarlaust. Landfræðileg staða okkar gagnvart kaldastríðsstórveldunum og nýfengið sjálfstæði gerði okkur hins vegar kleift að taka þátt í útvíkkun landhelginnar í 200 mílur eins og aðrar þjóðir höfðu gert áður.

En það sem kannski var okkur einna helst til happs var að reynsla var komin á ofveiðar á þorski við strendur annarra ríkja og menn áttuðu sig á því að miðin jöfnuðu sig ekki svo auðveldlega þrátt fyrir töluverða hvíld. Því voru komin sterk rök fyrir því að leyfa ekki frjálsar veiðar enda þótti sýnt að slíkt fyrirkomulag væri hvorki sjálfbær né arðbær nýting á náttúruauðlindinni. Íslendingar gerðu sér grein fyrir því að forsenda nýtingar fiskistofnanna var virk vöktun miðanna og takmarkanir á veiðum.

Því hafði stríðið, staða Íslands gagnvart umheiminum m.a. vegna kalda stríðsins, tímasetning nýjunga við fiskveiðar og staða breska heimsveldisins úrslitaáhrif á það að fiskurinn í kring um Ísland var ekki þurrkaður upp eins og á miðum annars staðar í heiminum og við komumst í álnir.

Þessi þróun olli því að hagur Íslands stórbatnaði á örfáum áratugum og varð til þess að við vorum ekki lengur meðal fátækustu þjóða Evrópu heldur á meðal þeirra auðugari.

Þó svo að forsjá og skynsamlegt fyrirkomulag fiskveiða hafi átt stóran þátt í þessari þróun, m.a. með innleiðingu kvótakerfisins, er ekki hjá því komist að meta hversu stóran þátt örlagaríkir atburðir í heimssögunni áttu í hagsæld okkar.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.