Frelsarinn Pútín

Fátt bendir til annars en að Vladimír Pútín verði forseti Rússlands, hvort sem til þarf eina eða tvær umferðir. Í kringum helmingur kjósenda greiddi Pútín atkvæði sitt í kosningunum og þorri almennings kann greinilega að meta skörulega stjórnarhætti hans.

Fátt bendir til annars en að Vladimír Pútín verði forseti Rússlands, hvort sem til þarf eina eða tvær umferðir. Í kringum helmingur kjósenda greiddi Pútín atkvæði sitt í kosningunum og þorri almennings kann greinilega að meta skörulega stjórnarhætti hans. Gamli KGB-ungliðinn ber með sér svipmót gamla kerfisins og það vekur traust hjá lífsleiðri alþýðunni. Fólkið vill stríð og brauð og Pútín er sá sem veitir. Eftir áratug hnignunar og niðurlægingar virðist loksins komin á festa.

Tjsétsníu-stríðið hið síðara er mesta afrek Pútíns á valdastóli og að mati stjórnmálaskýrenda ein helsta ástæðan fyrir vinsældum hans. Eftir snarpa styrjöld, sem kostaði þúsundir ungra Rússa, miklu fleiri tsjétsjenskra skærulið og ótalinna óbreytta borgara lífið, stendur rússneski björninn sigri hrósandi á rústum landsins og slær sér á brjóst. Í fréttaskýringu sænska sjónvarpsins, sem sýnd var á RÚV í gærkvöldi, var farið um Grozný og þær mannhræður sem enn eru í borginni teknar tali. Ekki er ofsögum sagt að borgin er líkustu helvíti á jörðu.

En þá fór Pútín fyrst fyrir alvöru að minna á forvera sína á valdastóli Sovétríkjanna, er hann kvatti fólkið í þessu guðs volaða landi til að mæta á kjörstað og greiða atkvæði í rússnesku forsetakosningunum. Íbúar Tsjétsníu hafa nefnilega – rétt eins og íbúar Tékkóslóvakíu og Ungverjalands forðum – verið frelsaðir af Rauða hernum, og fyrir það eiga þeir að vera þakklátir. Íbúar Grozný eiga sumsé að drífa sig úr fylgsnum sínum, þar sem þeir máttu húka mánuðum saman undir sprengjuregni Pútíns, til að launa honum frelsunina við kjörborðið.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.