Framlag til góðs og ills

Þróunarsamvinna, sem áður hét þróunaraðstoð, er af hinu góða í grundvallaratriðum. Hún felst í þvi að ríkari þjóðir aðstoði eða vinni með fátækari þjóðum að því markmiði að bæta lífskjör hinna síðarnefndu. Eins og með flest annað bera þjóðir sig saman til að sjá hvort þær séu að standa sig vel eða illa í þessum efnum.

Hinn almenni mælikvarði sem stuðst er við í þessum efnum er framlag til þróunarsamvinnu sem hlutfall af landsframleiðslu. Framlög Íslands hafa verið hækka mjög mikið að raungildi síðustu árin en erfiðlega hefur gengið að ná þessari prósentutölu upp því hagvöxtur hér á landi síðustu 10 árin hefur verið langt umfram það sem víðast hvar annars staðar gerist.

Fyrir mótttakendur þessara samvinnuframlaga skiptir að því að telja verður meira máli að fá fleiri en færri dollara en það nákvæmlega hversu hátt hlutfall þeir dollarar eru af landsframleiðslu viðkomandi samvinnuríkis. Nú þegar fyrirséð er að landsframleiðsla hér á landi mun dragast saman þá er líka fyrirséð að hlutfall framlaga til þróunarsamvinnu mun hækka sem hlutfall af henni, þótt dollararnir verði jafnvel eitthvað færri sem fara til samvinnulandanna. Er Ísland þá að standa sig betur í þessum efnum?

En það er önnur hlið á þessum heilaga mælikvarða og hún er sú að hann mælir einungis framlagið. Það sem lagt er fram til góðs. Mælikvarðinn skoðar ekki það sem gert er og veldur skaða. Nú er það svo að fátækt og hungursneyð í veröldinni stafar oftar en ekki af svæðisbundnum vopnuðum átökum. Þeir sem selja stríðandi fylkingum vopn til að berjast með hafa af því miklar tekjur. Í sumum tilvikum er um að ræða sömu ríki og státa af mjög háum framlögum til þróunarsamvinnu sem hlutfalli af landsframleiðslu.

Kannski væri mælikvarðinn raunhæfari ef frá framlögum til þróunarsamvinnu yrðu dregnar þjóðartekjur af vopnasölu. Þannig sæist hversu mikið til góðs – nettó – ríki heims eru að leggja til þessara mála.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.