Formið, fegurðin, fúnksjónin og fótboltinn

Ég veit ekki mikið um hönnun. Þó hef ég heyrt eitthvað talað um form og fúnksjón, og skilst að það sé hægt að drekka margar rauðvínsflöskur og velta heimspekilegum vöngum yfir þessum hugtökum þar til menn komast að því að í rauðvínsflöskunni sjálfri fari þetta tvennt einmitt fullkomlega saman. Svarið er í flöskunni. Og flaskan er svarið. Reyndar er svarið skammvinnt og daginn eftir hinar dýpstu vangaveltur um arkítekta, listamenn og heimspekinga vakna vitringar gærkvöldins á sama núllpunktinum og áður—eins og kvenlegri útgáfur af ásum Valhallar. Nema æsirnir vakna vitaskuld stálslegnir daginn eftir að hafa drýgt sín líkamlegu afrek í ölvímu—tilbúnir að berjast aftur; á meðan heimspekingarnir vakna ryðgaðir og ruglaðir í ríminu—búnir að steingleyma öllum stóra sannleiknum sem þeir komust að kvöldið áður

Fegurð hönnunar felst í augum sumra í listfengi hlutanna, jafnvel skrauti. Í augum annarra getur fögur hönnun aldrei verið annað það sem þjónar beint þeim tilgangi sem hönnuninni er ætlað að uppfylla. Hvað skoðanir sem hægt er að hafa á þessum sístæðu vangaveltum þá eru líklega fáir sem mæla á móti því að formið þurfi í einhverjum skilningi að lúta vilja notagildisins. Fagur hlutur sem ekki uppfyllir grundvallarnotin sem honum er ætlað er hlægilegur; prjál og drasl.

En það getur verið fjandanum erfiðara að skilja hvort kemur raunverulega á undan; formið eða notagildið—einkum þegar horft er á það úr fjarska. Best heppnaða hönnunin sameinar þetta tvennt þannig að það verður óaðskiljanlegt; og ef maður hefur ekki reynslu eða skilning á viðfangsefninu getur verið auðvelt að ruglast. Og spurningin um formið og fúnksjónina á ekki bara við í arkitektúr og iðnhönnun; hún á sér stað alls staðar.

Sá sem sá Michael Jordan spila körfubolta gat varla annað en hrifist af listfengi hans, og margt af því sem hann gerði leit út eins og þaulæft atriði í sirkus. En hreyfingarnar vour ekki til skrauts. Tilgangurinn var ekki fegurðin, heldur var fegurðin afleiðing af þjáningarfullum æfingum og ræktarsemi við það einbeitta markmið að tortíma andstæðingum á körfuboltavellinum. Milljónir ungra íþróttamanna sáu bara yfirborðið og lögðu óhóflega orku í að æfa sig í að gera fallegar hreyfingar, fegurðarinnar vegna—af því þær voru flottar, létu tunguna hanga út um munninn, en lögðu minna á sig við að treysta allar þær traustu og „ljótu“ undirstöður sem gerðu manni eins og Jordan kleift að endurspegla ofsafenginn sigurvilja sig í því sem virtist á yfirborðinu vera fyrirhafnarlaust listfengi.

Íþróttamenn sem leggja áherslu á að gefa hlutina „flott“ frekar en að gera þá vel bjóða mjög heim hættunni á því að gera sig að athlægi. Einungis þegar aðstæður krefjast flókinnar úrlausnar er forsvaranlegt að beita henni; en sá sem náð hefur yfirburðavaldi á listrein sinni eða íþrótt—og sá sem hefur fullkominn skilning á notagildi þess sem hann hannar—getur leyft sér að brjóta þá reglu; en einungis í hófi.

Nýlega rakst ég á ljóð eftir bandarískt skáld, Aaron Poochigian, þar sem ég held að hann sé að lýsa tengdri hugsun:

Off
in a huff,
I missed,
almost,
the moral of

a dancer, the Eve
of all such, ever,
how she could hover
concentric, how a firm
but flexible expert in form
can work miracles, foil
awhile the drag and fall.
I missed, almost,
how much she must
have ached, how late,
to win her flight
through skill
and school
to mastery’s
mysteries.


Mér var hugsað til þessa þegar ég frétti af íslenskum knattspyrnumanni, fyrirliða úrvalsdeildarliðs á miðjum þrítugsaldri, sem ákvað rétt fyrir Íslandsmótið að leggja skóna á hilluna. Það er auðvitað öllum frjálsum mönnum í sjálfsvald sett hvað þeir ákveða en liðsfélagar hans og þjálfarar þurfa að ráða fram úr tímabilinu án fyrirliðans.

Hann mun nefnilega hafa ákveðið að snúa sér alfarið að þeirri köllun sinni að vera leiðtogi.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.