Farsæl forysta Íslands á norðurslóðum

Ísland hefur nú með markvissum hætti tekið frumkvæðið þegar kemur að málefnum norðurslóða.

Fyrir dyrum stendur ráðherrafundur Norðurskautsráðsins í Reykjavík. Fundurinn markar lok tveggja ára formennskutíðar Íslands í ráðinu og mun Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, taka við keflinu úr hendi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkisráðherra.

Þegar Ísland tók við formennsku af Finnum í Rovaniemi í Finnlandi fyrir réttum tveimur áttu fáir von á því að heimsfaraldurinn myndi setja mark sitt á alþjóðlegt samstarf og raunar mest allt líf okkar með þaum hætti sem raunin varð. Þrátt fyrir það hefur Ísland haldið fast við þau markmið sem sett voru í upphafi formennskutíðarinnar.

Á fundinum munu ráðherrar samþykkja niðurstöður verkefna sem unnin voru í formennskutíð Íslands og starfsáætlun ráðsins undir komandi formennsku Rússlands. Fundurinn markar 25 ára afmæli Norðurskautsráðsins og væntingar eru um að á honum náist mikilvæg samstaða um félags- og efnahagslega þróun á norðurslóðum byggðri á umhverfisvernd með sérstakri áherslu á aðgerðir í loftslagsmálum.

Samkvæmt formennskuáætlun Íslands hefur áhersla verið lögð á þrjú meginsvið: málefni hafsins, loftslagsmál og endurnýjanlega orku og fólk og samfélög á norðurslóðum. Sem dæmi um verkefni á þessum sviðum má nefna sérstaka veffundaröð embættismannanefndarinnar um málefni hafsins. Verkefnum um bláa lífhagkerfið og jafnréttismál á norðurslóðum, sem Ísland hefur leitt innan vinnuhópsins um sjálfbæra þróun, lýkur með útgáfu á skýrslum sem lagðar verða fyrir ráðherrafundinn.

Aldrei áður hefur Ísland beitt sér með álíka hætti og á yfirstandandi kjörtímabili í málefnum Norðurslóða. Auk formennskunnar hefur utanríkisráðherra staðið fyrir útgáfu þriggja skýrslna um málefni norðurslóða sem hver um sig hefur að geyma fjölda gagnmerkra tillagna sem þjóna hagsmunum Íslands og svæðins í heild. Í fyrsta lagi er það skýrsla um samstarf Íslands og Grænlands á nýjum norðurslóðum, í öðru lagi skýrslu þingmannanefndar um endurskoðun stefnu Íslands í málefnum Norðurslóða en tillögur nefndarinnar hefur utanríkisráðherra þegar lagt fyrir Alþingi í formi þingsályktunartillögu, og í þriðja lagi er það skýrsla starfshóps um efnahagstækifæri á norðurslóðum sem kom út í gær.

Það er þess vegna engum blöðum um það að fletta að Ísland hefur nú með markvissum hætti tekið frumkvæðið þegar kemur að málefnum norðurslóða, svo eftir er tekið á alþjóðavettvangi.

Latest posts by Diljá Mist Einarsdóttir (see all)

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Diljá hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2006.