Einkaframtakið færði okkur bóluefnið

Hinn augljósi slagkraftur einkaframtaksins í þessu verkefni fer væntanlega ekki framhjá neinum, og allra síst þeim sem fara með ábyrgð á heilbrigðiskerfinu á Íslandi.

Það var sérstakt gleðiefni í upphafi vikunnar þegar hingað til lands bárust fyrstu skammtarnir af bóluefni gegn kórónuveirunni. Raunar hefur íslenska þjóðin sjaldan virst fámennari en þegar ráðamenn stilltu sér upp við hlið tveggja kassa á vörubretti, en í þeim var að finna það magn sem ætlað er Íslendingum í fyrstu atrennu. En það var ekki bara bóluefnið sjálft sem var fagnaðarefnið.

Drifin áfram af ævintýralegri hagnaðarvon hafa fremstu lyfjafyrirtæki heims þróað og framleitt bóluefni sem allt bendir til að kveða muni faraldurinn í kútinn. Eigenda og lykilstjórnenda þessara fyrirtækja bíður nú gróði sem varla á sér hliðstæðu, það er umbun þeirra fyrir að koma tilveru fólks í eðlilegt horf á nýjan leik og tryggja þannig ómælanlega hagsmuni.

Hinn augljósi slagkraftur einkaframtaksins í þessu verkefni fer væntanlega ekki framhjá neinum, og vonandi allra síst þeim sem fara með ábyrgð á heilbrigðiskerfinu á Íslandi. Þetta er dýrmæt lexía um að óttast ekki afleiðingar þess að nýta hagkvæmni og hagnaðarvon til þess að leysa vandasöm samfélagsleg verkefni.

Við erum jú öll í þessu saman.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.