Aldrei að kvíða

Því er gjarnan haldið á lofti að enginn efist lengur um réttmæti veru bandaríska hersins hér á landi. Deigluvinurinn Þórlindur Kjartansson beinir sjónum sínum að þessu „ekki-lengur“ viðvæma máli í pistli dagsins. Þórlindur er manna fróðastur um skáldskap herstöðvarandstæðinga sem hann segir svo skemmtilegan „að ungir hægrimenn geta ekki annað en andvarpað í vonleysi því ekki er til þess vitað að ungur hægrimaður hafi nokkru sinni haft andagift til þess að standast bestu skáldum og rithöfundum vinstri manna snúning.“

Á Íslandi þurfa menn aldrei að kvíða

því illskæða hungri sem ríkir svo víða.

Því amríski herinn svo réttsýnn og rogginn,

hann réttir oss vafalaust eitthvað í gogginn.

Ó hó – það segir Mogginn.

Þannig kemst Böðvar Guðmundsson, skáld og herstöðvarandstæðingur, að orði í einum af fjölmörgum frábærum baráttusöngvum íslenskra herstöðvarandstæðinga. Ljóðið heitir Lofsöngur, eins og þjóðsöngur Íslendinga. Sennilegast hefur Böðvar með þessu viljað leggja til, í kaldhæðni þó, að réttast væri að lofsyngja Bandaríkin í þjóðsöngi Íslands. Þetta er vissulega skemmtilegt háð. Reyndar svo skemmtilegt að ungir hægrimenn geta ekki annað en andvarpað í vonleysi því ekki er til þess vitað að ungur hægrimaður hafi nokkru sinni haft andagift til þess að standast bestu skáldum og rithöfundum vinstri manna snúning. Menningarlegt yfirbragð vinstri baráttunar hefur löngum haft þau áhrif að hægri menn hafa virst helst til snauðir andlega.

Sum lög herstöðvarandstæðinga voru meira að segja svo vel heppnuð að börn voru svæfð með þeim á heimilum sjálfstæðismanna. Ljóðið Fylgd er t.d. svo ómótstæðilega fallegt á köflum að pólitískur áróður þeirra gleymist. Ljóðið hefst þannig:

Komdu, litli ljúfur

labbi, pabbastúfur,

látum draumsins dúfur

dvelja inni um sinn.

Heiður er himininn.

Blærinn faðmar bæinn,

býður út í daginn,

komdu Kalli minn.

Maður þarf að vera helvíti harður til þess að komast ekki örlítið við við lestur þessara lína. Hins vegar bregður manni í brún þegar maður les fjórða erindið:

Ef að illar vættir

inn um myrkragættir

bjóða svikasættir

svo sem löngum ber

við í heimi hér,

þá er ei þörf að velja:

Þú mátt aldrei selja

það úr hendi þér.

Hér er ekki fegurðinni fyrir að fara heldur er hér spilað af leikni á þá sömu strengi þjóðerniskenndar og stríðsmangarar allra tíma hafa gert. Sama tónlist og lokkað hefur milljónir manna um heim allan til glórulausra sjálfsfórna og óhuggulegra voðaverka er hér spiluð undir yfirskyni friðarþrár. Reyndar gæti maður ímyndað sér að þetta textabrot úr ljóðinu Fylgd sé mjög svipað að uppbyggingu og inntaki og vögguvísur í þeim löndum þar sem fólk býr við harðstjórn og einræði. „Dyggðirnar“ sem ljóðinu er ætlað að innræta börnum eru þær hinar sömu og reynast herforingjum notadrjúgar þegar fólki þarf að fórna í pólitískum tilgangi. Þegar heiður landsins er í húfi þá er ei þörf að velja. Öllum ber að fórna sér fyrir málstaðinn – og um réttmæti hans þarf ekki að ræða.

Baráttan gegn veru bandarísks herliðs á Íslandi í dag er ekki háð undir sömu formerkjum. Þótt hinir fáu hugsjónamenn sem ekki eru orðnir gönguþreyttir séu kannski ekki bestu vinir Bandaríkjanna þá hefur maður það á tilfinningunni að þeirra afstaða sé sannarlega byggð á friðarþrá en ekki að þeir séu ekki peð í pólitísku áróðursstríði. Staðan í heiminum er vissulega breytt – og staða Íslands er það ekki síður. Líklegt er að fáir misstu svefn yfir því ef her Bandaríkjanna tæki þá ákvörðun halda á brott. Öryggi okkar er tryggt með veru í Nató – og það ætti ekki að vera metnaðarmál fyrir Íslendinga að halda hernum til eilífðarnóns. Ef ekki er þörf á her á Íslandi þá á ekki að vera hér á Íslandi. Ef enginn væri herinn – værum við þá ólm í að fá einn slíkan? Sú var tíðin að við þurftum nauðsynlega á því að halda að hér væri staðsett varnarlið – en hún er liðin.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.