Aflétting á samviskubiti

Í gær rann upp langþráð stund þegar fyrstu afléttingar á samviskubiti foreldra tóku gildi samhliða fyrstu afléttingum á samkomubanni vegna COVID-19.

Undanfarnar vikur hafa leikskólar og grunnskólar verið með skerta opnun í boði fyrir börn í samræmi við reglur samkomubanns til að draga úr líkum á smiti. Auk þess hafa íþróttaæfingar og tómstundastarf fallið niður eða verið á skertu formi.

Stundum er sagt að börn þarfnist rútínu en það er bábilja. Rútína var fundin upp fyrir foreldra til að eiga möguleika á að láta daglegt líf ganga nokkur veginn þægilega fyrir sig.

Afleiðingar samkomubannsins voru þær að foreldrar þurftu að stíga inn í mismunandi hlutverk sem eru ekki í starfslýsingunni og flestum ofviða sem ekki hafa aflað sér menntunar eða þjálfunar í viðkomandi hlutverki. Það reyndi töluvert á tæknikunnáttu að tengja börn sín inn í fjarkennslubúnað sem var að sjálfsögðu ekki samræmdur á milli skóla, jafnvel ekki á milli árganga innan sama skóla. Þá reyndi meira en allajafna á almenna kunnáttu við að styðja aukið heimanám barna. Foreldrar þurftu svo að bregða sér í hlutverk þjálfara hinna ýmsu íþrótta til að framfylgja heimaæfingum sem börnum voru sett fyrir. Þá reyndi jafnvel á kunnáttu sem aldrei hefur verið til staðar, að ekki sé minnst á þrek og þol.

Meðfram þessum aukaboltum voru foreldrar að sinna fullri vinnu í fjarvinnu með mun fleiri fundum en venjulega því að Íslendingar eru stemningsþjóð og taka trend með trukki, þar með talið Teams og Zoom fundi. Eins og vinnufundirnir væru ekki nóg þá kom krafa um að nýta þetta samskiptaform í vinahittinga eftir vinnu líka. Í ofanálag jókst álag af heimilishaldi við stóraukna viðveru heimilismanna heima fyrir með tilheyrandi matarinnkaupum, matseld, þvotti og þrifum.

Glöggir lesendur átta sig á að einhverjir af ofantöldum boltum hafa aldrei hafið sig á loft af jörðinni og fjöldi barna hefur mátt búa við vanrækslu svosem á sviði heimaæfinga í ballett eða að hafa farið með samloku með smjöri í skólann þrjár vikur í röð. Það var því tær og sönn gleði sem fylgdi því að horfa á eftir afkvæmum út um dyrnar í gærmorgun með það í huga að allir boltar verða nú hátt á lofti í velkominni rútínu hversdagsins. Megi hún lifa.

Latest posts by Sigríður Dögg Guðmundsdóttir (see all)

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir skrifar

Sigga Dögg hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.