Dag einn gerðist kraftaverk

Ef menn vilja fá umtal eru tvær leiðir öruggar og ókeypis. Ein leiðin er fyrir jákvætt umtal og ein fyrir neikvætt umtal.

Ef menn vilja fá jákvætt umtal um eitthvað sem er verið að gera er málið að fá Forseta Íslands til að taka þátt í því. Biðja forseta um að opna viðburð, taka á móti fyrsta eintakinu af einhverju, halda ræðu, bjóða á Bessastaði. Þetta hefur verið svona lengi og ekkert slæmt við það.

Leiðin til að fá neikvætt umtal um eitthvað sem mönnum mislíkar felst hins vegar í því að kæra eitthvað eða einhvern til einhvers opinbers stjórnvalds. Slíkt ratar oftast í einhverja miðla og þykir til marks um að mönnum sé mjög alvara með eitthvað og að eitthvað hljóti að vera mjög slæmt og umdeilt, fyrst það hafi verið kært.

En þá er mikilvægt að muna að kærur sjálfar eru ekki ýkja merkilegar, því ekkert þarf til að kæra dót annað en vilja þess sem kærir. (Ef fallist er á kæruefnið gildir auðvitað öðru máli.) 

En þegar staðið er frammi fyrir augljósum PR-kærum er mikilvægt að muna að þær eru í raun ekkert merkilegri heldur en kraftaverkið í eftirfarandi pólskri þjóðvísu. Vísan hljóðar svo, í lauslegri þýðingu:

Dag einn gerðist kraftaverk
karl einn reifst við listaverk,
en verkið ansaði ekki kalli
og þannig lauk nú þeirra spjalli.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.