Að leggjast í híði

Vissulega hefur mannkynið þróast mikið á 400 þúsund árum. Forfeður okkar gátu til dæmis ekki horft á Netflix, eða pantað pizzur—en á þessum vetri er ekki annað hægt en að gráta þá afturför í þróunarsögunni að geta ekki einfaldlega komið sér fyrir á huggulegum stað og beðið einhvern traustan um að stugga aftur við manni þegar búið er að koma á hjarðónæmi.

Allir vita að mannskepnan er ekki hönnuð til að legggjast í híði. Þannig að fólk reynir sitt besta á þessum skrýtnu tímum. Við vitum að sumir geta farið ofsalega varlega en samt smitast af covid. Og það er líka hægt að komast upp með alls konar glannaskap og smitast ekki. Flestum finnst þetta erfitt.

Sérstaklega er það sárt um jólin, að horfa upp á að geta ekki hitt vini sína og kannski ekki alla fjölskylduna heldur. Það verður líka sárara í þessu skammdegi, sem er einkar dimmt á snjólausu landi. Og það er líka óþægileg tilhugsun að þurfa að hafa samviskubit, að þurfa að réttlæta öll sín skref ef maður er svo óheppinn að smitast eða lenda í sóttkví. Þegar það rifjast upp hvernig jólin eiga að vera; svölun fyrir birtu, yl og nærveru á dimmasta tíma ársins—þá verður það einhvern veginn sárara að horfa upp á næstu daga, og hugsanlega næstu mánuði þar sem við þurfum að halda áfram að gera okkar besta.

En hin hliðin á þessu er vitaskuld sú að margt það sem maður hefur hingað til tekið sem sjálfsögðum hlutum, jafnvel farið að líta á sem hálfgerðar skyldur og kvaðir—að þurfa að mæta hingað og þangað, að komast ekki hjá því að hitta þennan eða hinn—þetta fær allt endurnýjað umboð á sínum upprunaleg tilgangi. Og allt verður þetta aftur tilhlökkunarefni eins og vera ber.

En hver veit nema maður geti svo bara lagst í híði. Það bárust að minnsta kosti af því fréttir fyrir skemmstu að vísindamenn telji að fyrir 400 þúsund árum hafi tegund forfeðra okkar þróað með sér hæfileikann til þess að hægja á allr líkamsstarfsemi og vera í aðgerðalitlu híði yfir köldustu mánuðina á sléttunum í kringum Madríd. Bein sem hafa fundist í Sima hellinum í Atapuerca fjöllunum benda til þessa. Frá þessu er sagt í Guardian í dag.

Vissulega hefur mannkynið þróast mikið á 400 þúsund árum. Forfeður okkar gátu til dæmis ekki horft á Netflix, eða pantað pizzur—en á þessum vetri er ekki annað hægt en að gráta þá afturför í þróunarsögunni að geta ekki einfaldlega komið sér fyrir á huggulegum stað og beðið einhvern traustan um að stugga aftur við manni þegar búið er að koma á hjarðónæmi.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.