Koma ljóssins

Í dag eru vetrarsólstöður og stysti dagur ársins. Nú þegar jólaundirbúningurinn nær hámarki getum við litið framtíðina björtum augum og fagnað því að birtustundum fjölgi.

Morgundagurinn verður örlítið lengri en dagurinn í dag. Við erum komin yfir það erfiðasta, það eru bjartari tímar framundan. Dimmasti mánuður ársins er nærri liðinn og við yljum okkur við hugsunina um fleiri birtustundir sem ná hámarki á jafndægri að sumri.

Allt frá því í júní höfum við þurft að horfa á eftir sólinni skríða fyrr niður fyrir sjóndeildarhringinn en daginn áður. Það gerði ekki mikið til framan af hausti en í desember birtir rétt fyrir hádegi og dimmir aftur rétt eftir þrjú. Myrkrið er því allt umlykjandi.

En það er ekki bara myrkrið sem nær nú hámarki því að jólaundurbúningurinn er einnig í algleymingi.  Hver fer að verða síðastur að koma heimilinu í stand, skjótast eftir síðustu gjöfinni og sjá til þess að hátíðarmaturinn standist væntingar. Mitt í þessu umróti er kannski ekki skrítið að vangaveltur um tilgang allrar þessarar fyrirhafnar skjóti upp kollinum.

Þó að þeim fækki sem hafi trúarlega þýðingu hátíðanna í forgrunni stendur boðskapur jólanna enn fyrir sínu. Fæðing Jesú markar nýtt upphaf fyrir kristna og von um betri tíma fyrir þá sem, einhverra hluta vegna, upplifa örvæntingu eða vonleysi.  Þó að sumir horfi fyrst og fremst til þeirrar eftirvæntingar sem börn upplifa þessa dagana eru flestir þó sammála um að þetta sé tími fyrir vini og ættingja til að njóta saman góðra stunda og sýna þakklæti í verki. 

Og jólin þurfa ekki að vera flókin eða þrungin djúpri trúarlegri merkingu. Þau geta einfaldlega markað þann tíma að daginn sé farinn að lengja, komu ljóssins. Að við höfum nú gengið í gegn um dimmasta skammdegið og nú ætti brúnin að lyftast með hækkandi sól. Í smá stund hættum við að velta okkur upp úr amstri og erjum líðandi stundar. Við sammælumst um að líta aðeins inn á við, semjum frið við áhyggjur hversdagsins og leggjum okkur fram við að búa okkar nánustu notalega stund. 

Jólin eru sannarlega hátíð ljóss og friðar. Því getum við öll fagnað.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.