Ójafnréttið í tippinu

Jafnrétti er í deiglunni þessa dagana og jafnvel venju fremur vegna afmælis kosningaréttar kvenna. Helgarnestið fer ekki varhluta af því í dag og segir dæmisögu um jafnrétti sem rústar öllum fyrri staðalímyndum karla og kvenna.

To ensure a fair selection you all get the same test. You must all climb that tree.

Þann 19. júní var haldið upp á afmæli kosningaréttar kvenna hér á landi og því eðlilegt að Helgarnesti vikunnar litist af þessum mikilvæga áfanga í átt að almennum mannréttindum landsmanna. Enn er unnið að auknum rétti og nú síðast fengu samkynhneigð pör gríðarlega réttarbót, um það má m.a. lesa í aðsendri grein til Deiglunnar.

Í tilefni dagsins var mikið rætt um launamun og kynjakvóta. Virðast sumir vera á því að jöfn laun karla og kvenna séu mannréttindi, en styðja svo kynjakvóta, sem beinlínis ganga út á að mismuna fólki með tilliti til kynferðis. Þar sem Helgarnesti er í eðli sínu ómálefnalegt verður ekki farið út í umfjöllun um þessa skemmtilegu þversögn, enda skín sólin og fólk á að sitja við Austurvöll með kaldan drykk og ræða málin þar í stað þess að lesa um þau á netinu.

Í stað þess verður sögð lítil saga.

Ég starfa á vinnustað sem mætti kalla kvennavinnustað. Hér eru um 20 starfsmenn, þar af aðeins þrír karlar. Einhver kynni að spyrja hvort ekki þyrfti að beita kynjasigtinu til að rétta hlut okkar sem höfum utanáliggjandi þvagrás og til þess að karlleg gildi fái hér þrifist til jafns við hin kvenlegu.

Knattspyrnuáhugi er meðal þess sem samkvæmt staðalímyndum er karllægur. Stúlkur og ungar konur geta haft slíkan áhuga, en samkvæmt norminu ætti sá áhugi að dvína. Þessu er hins vegar ekki fyrir að fara hér. Langflestir starfsmennirnir, karlar sem konur, hreinlega elska fótbolta!

Það er sannkallað HM-æði á vinnustaðnum, úrslit rædd og spáð í spilin. Og að sjálfsögðu er svo tippað! En auðvitað eru karlarnir miklu betri í að tippa, því þeir hafa jú miklu meira vit á fótbolta – eða hvað?

Þau eru öll jafngóð að tippa

„Flýtum okkur að tippa áður en konurnar taka það frá okkur“ var sagt í auglýsingunni, en nú er ljóst að það er um seinan. Ekki er nóg með að konurnar á vinnustaðnum taki þátt í tippinu heldur eru þær miklu betri en við strákarnir.

Lengi vel vermdum við karlarnir þrjú neðstu sætin en erum nú í þremur af fjórum neðstu sætunum. Í ofanálag er sá eini okkar sem keppir í fótbolta langneðstur!

það er augljóst að með kynjakvótum fengist verri niðurstaða fyrir allan hópinn og enn ljósara að við strákarnir eigum ekki skilið sömu umbun fyrir okkar frammistöðu og konurnar.

Hvaða lærdóm megum við svo draga af sögunni?

Líklega þann helstan að konur og karlar eru ólíkir einstaklingar sem njóta sín best þegar þeim er gefið tækifæri til að spreyta sig án fordóma og regluvalds.*

Góða helgi og áfram Ghana!

*Tekið skal fram að þessir þrír karlar eru mjög færir í tippinu og einkar góð frammistaða kvennanna er alls engin vísbending um að þeir séu lélegir tipparar.

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)