Minnkandi spenna á Taívan sundi

Spenna í samskiptum Taívans og Kína hefur lengið verið ein helsta ógnin við öryggi og stöðugleika í Asíu. Með almennt bættum samskiptum kínverskra og bandarískra stjórnvalda í málefnum Taívans undanfarið, hafa þjóðirnar hins vegar náð að draga úr þeirri hættu að til hugsanlegra átaka komi á Taívan sundi.

Spenna í samskiptum Taívans og Kína hefur lengið verið ein helsta ógnin við öryggi og stöðugleika í Asíu. Allt frá því að Richard Nixon kom á samskiptum við Kína 1972 hafa allir forsetar Bandaríkjanna fylgt svokallaðri „eitt-Kína“ stefnu (e. one-China policy). Á síðari árum hefur þessi stefna Bandaríkjanna styrkst enn frekar. Bill Clinton lýsti því yfir í opinberri heimsókn sinni til Peking sumarið 1998, að Bandaríkin styddu ekki sjálfstæði Taívans, inngöngu þess í Sameinuðu þjóðirnar eða hugmyndir um tvö Kína. Bush stjórnin hefur jafnvel gengið lengra í að sannfæra stjórnvöld í Kína um að hún styðji ekki einhliða aðgerðir Taívans í átt til sjálfstæðis, með því að segjast stundum vera „á móti“ því, í stað þess að segjast „styðja það ekki.“ Þetta getur skipt máli. Í ljósi þeirra varnarskuldbindinga sem Bandaríkin hafa gagnvart Taívan, er misskilningur ráðamanna í Peking um ásetning Bandaríkjastjórnar líklegasta ástæða þess að til átaka kæmi á milli Kína og Bandaríkjanna.

Öryggisstefna Bandaríkjanna miðar að því að viðhalda stöðugleika á Taívan sundi, með því að annars vegar koma í veg fyrir að kínverskir ráðamenn sannfæri sjálfa sig um, að Kína hafi í raun og veru hernaðarlegan valkost til þess að innlima Taívan inn í Kína og hins vegar að halda aftur af sjálfstæðistilburðum Taívans. Þetta hefur Bandaríkin gert með bæði tvöfaldri fælingu (e. dual deterrence) og tvöfaldri tryggingu (e. dual reassurance). Þessi stefna felur í sér að Bandaríkin gefa stjórnvöldum í Peking til kynna, að þau muni ekki standa aðgerðalaus hjá ef Kína ræðst á Taívan og þau hafa einnig gefið Taívan merki um það, að Bandaríkin muni ekki verja það án tillits til þeirra kringumstæðna sem leiða til átaka. Og stjórnvöld í Washington fullvissa einnig Kínverja, að þau muni ekki breyta stefnu sinni um „eitt-Kína“ einhliða og um leið fullvissa þau stjórnvöld í Taívan, að Bandaríkin muni ekki svíkjast undan þeim skuldbindingum að verja hagsmuni þess.

Vegna mikilla hagsmuna, auk öryggisskuldbindinga síns við Taívan, er alveg ljóst að Bandaríkin myndu óhjákvæmilega verða þátttakendur í stríði ef til hernaðarátaka kæmi á Taívan sundi. En eins og meðal annars stjórnmálafræðingurinn Robert S. Ross hefur haldið fram í greininni „Taiwan´s Fading Independent Movement“ (Foreign Affairs mars/apríl 2006), þá hafa hernaðarátök milli Kína og Bandaríkjanna vegna Taívans, sennilega ekki verið jafn ólíkleg síðan frá krísunni á Taívan sundi 1995 til 1996. Eftir um tíu ára spennu í samskiptum Kína og Bandaríkjanna vegna Taívans, virðist sem ákveðið traust hafi skapast milli ríkjanna. Bush stjórnin hefur ítrekað lýst sig mótfallinn sjálfstæðistilburðum Chen Shui-bian, forseta Taívans, og að undanförnu hefur fjarað verulega undan sjálfstæðishreyfingu Taívans. Skoðanakannir sýna líka að á meðal almennings er lítill stuðningur við að Taívan lýsi þegar í stað yfir sjálfstæði, eða í kringum 90%. Stöðugleiki í samskiptum þess við Kína er einnig mjög mikilvægur vegna þeirra efnahagstengsla sem Taívan hefur við meginlandið; árið 2005 fór um 40% af öllum útflutningi eyjunnar til Kína og síðan 2002 hefur meira en helmingur af erlendum fjárfestingum Taívans verið í Kína.

Í ljósi þeirrar miklu hættu á afleiðingum öryggisklípunnar (e. security dilemma) sem er til staðar í samskiptum Kína og Bandaríkjanna vegna Taívans, þ.e. Kína eykur hernaðargetu sína gagnvart Taívan í hvert skipti sem það skynjar að Bandaríkin og Taívan hafi aukið öryggi eyjunnar með hernaðaruppbyggingu, er enn mikilvægara en ella að dregið hafi úr spennu á Taívan sundi. Ef stjórnvöld í Peking fara að treysta því betur að Taívan og Bandaríkin stefni ekki að sjálfstæði Taívans, ættu þau að geta dregið eitthvað úr hinum mikla árásarviðbúnaði sínum sem beint er gegn Taívan. Á meðan Kínverjar halda hins vegar að Taívan stefni að sjálfstæði gera ráðamenn í Peking ekki greinarmun á því hvort vopn eða stefna Taívans séu varnar- eða sóknarlegs eðlis og bregðast því alltaf við með gagnaðgerðum. Frá sjónarhorni Kína er litið á hefðbundin varnarvopn í höndum taívanskra stjórnvalda sem hættuleg, þar sem öflugur varnarviðbúnaður gæti gefið þeim aukið sjálfstraust til að lögfesta núverandi ástand til frambúðar – en það er andstætt stefnu Kína til lengri tíma litið. Hættan á átökum milli Kína og Bandaríkjanna minnkar því til muna, ef stjórnvöld í Washington ná að sannfæra kínverska leiðtoga um, að sá möguleiki sé í boði í náinni framtíð að Taívan sameinist meginlandinu. Skoðun kínverskra leiðtoga hvað þennan möguleika varðar, tengist þess vegna beint stefnu Bandaríkjanna gagnvart Taívan, líkt og stjórnmálafræðingurinn Michael D. Swaine bendir á í greininni „Trouble in Taiwan“ (Foreign Affairs mars/apríl 2004).

En hvernig geta bandarísk stjórnvöld komið í veg fyrir misskilning af hálfu Kínverja vegna stefnu Bandaríkjanna gagnvart málefnum Taívans? Eins og Bush hefur sjálfur bent á, þá er mikilvægast að samskipti Kína og Bandaríkjanna séu öflug og sterk og þjóðirnar geti starfað á uppbyggilegan hátt saman; með því móti væri auðveldast að koma kínverskum stjórnvöld í skilning um, að Bandaríkin stefni ekki að því að aðstoða Taívan í átt til sjálfstæðis – sem yrði algjört glapræði fyrir öryggi og áframhaldandi efnahagsframfarir í Asíu við núverandi aðstæður.

Bandaríkin hafa þess vegna lengi álitið að slíkt væri ógn við efnahags- og öryggishagsmuni sína á svæðinu og munu því alls ekki styðja kröfur taívanskra stjórnvalda um sjálfstæði – hvorki núna eða náinni framtíð. Á þessum tímapunkti bendir fátt til slíkrar atburðarásar; sjálfstæðiskröfur Taívans hafa ekki mikinn stuðning, hvorki frá almenningi í Taívan, Bandaríkjastjórn eða öðrum þjóðum í Asíu. Og á meðan svo er, verður auðveldara fyrir Bandaríkin að verja mikilvægari hagsmuni sína – og bandalagsríkja sinna – annars staðar í Asíu.