Er Nelson Mandela skósveinn Sovétríkjanna?

Bandarískur útvarpsþáttastjórnandi upplýsti þjóðina um það í gær að Nelson Mandela væri kommúnist og studdur af Sovétríkjunum.

Rush Limbaugh er einn frægasti og umdeildasti þáttastjórnandi í bandarísku útvarpi. Hann er bæði hraðmæltur og hnyttinn og óhræddur við að segja meiningu sína á hlutunum. Milljónir manna hlusta á hann daglega og þiggja stóran hluta af visku sinni um samtímann úr útvarpsþættinum hans “The Rush Limbaugh Show”. Limbaugh er mikill aðdáandi núverandi valdhafa í Washington nema hvað hann er tæplega miðlungi hrifinn af Colin Powell.

Í gær hringdi einn dyggur hlustandi í hann með spurningu varðandi ummæli sem Nelson Mandela, fyrrum forseti S-Afríku, lét falla í viðtali við Newsweek. Þar sagðist Mandela hafa efasemdir um að Bandaríkjamenn væru á réttri braut í alþjóðamálum og tók jafnvel svo sterkt til orða að Bandaríkin ógnuðu heimsfriðinum. Mandela er, ólíkt Rush Limbaugh, ekki nema miðlungi hrifinn af núverandi valdhöfum í Washington nema hvað hann hefur mikið álit á Colin Powell.

Mandela segir í viðtalinu að menn eins og Dick Cheney og Donald Rumsfeld séu hálfgerðar risaeðlur í pólitík og minnir á að Cheney kaus gegn því á sínum tíma að refsiaðgerðum væri beitt til þess að knýja Suður Afríku til þess að láta af kynþáttaaðskilnaðarstefnu sinni. Þá litu hörðustu íhaldsmennirnir í Bandaríkjunum svo á að Mandela væri hryðjuverkamaður og að frelsisbarátta svartra í Suður Afríku væri hluti af útþenslustefnu alheimskommúnismans.

Limbaugh var ekki lengi að afgreiða þessar yfirlýsingar frá Mandela (og gera grín að talanda hans) og róa viðmælandann og milljónir hlustenda. Þetta bull í karlinum er nefnilega hluti af samsærinu. Eftir að hafa hneykslast lengi á ummælunum varð Limbaugh sífellt pirraðri og sagði eitthvað á þá leið að hann mætti nú svosem vita það að allir væru að bíða eftir að hann segði eitthvað umdeilt.

“I know you´re trying to get me over the line here – but I´m gonna say it. He´s a communist. The African National Congress is a communist organization – soviet sponsored,” sagði hann og bætti við hálfpartinn öskrandi: “Are you happy now? Nelson Mandela is a communist. If it weren´t for the Soviet Union there would be no African National Congress…So if you want to understand Nelson Mandela; understand that he´s an unreformed communist.”

Þessi ótrúlega ræða útvarpsþáttastjórnandann um Nelson Mandela væri vafalaust bara grátbrosleg ef það væri ekki fyrir það að í Bandaríkjunum virðast þessi sjónarmið hafa sívaxandi fylgi og því verður sífellt meira freistandi fyrir stjórnmálamenn að höfða til þeirra þegar þeir reyna að afla sér fylgis.

Íhaldsöfgarnar í Bandaríkjunum beinast þó ekki bara að Nelson Mandela og Sovétríkjunum. Aðdáendur Limbaugh eru miklir hatursmenn Bill Clinton og nýverið kom út bók sem útskýrir það m.a. hvernig munngælur leiddu óbeint til hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin. Önnur bók sem reyndar er gefin út af sama aðila fjallar um leyniáætlanir Kínverja. Bókin heitir: “Urestricted Warfare: China´s Master Plan to Destroy America” og fjallar væntanlega um nauðsyn þess að taka á “Kína vandamálinu”.

Rush Limbaugh hefur mikil áhrif á skoðanir milljóna manna. Hann heldur því semsagt fram að Sovétríkin séu ógn við Bandaríkin og að Nelson Mandela sé skósveinn þeirra, lauslæti Bill Clinton olli hryðjuverkaárásunum 11. sept. í fyrra og Kínverjar hafa það á stefnuskránni að gjöreyða Ameríku.

Þess má geta að Dick Cheney, varaforseti, verður sérstakur gestur þáttarins einhvern tímann í þessari viku. Þá verður væntanlega farið yfir heimsmálin af yfirvegaðri skynsemi. Furðulegt að Mandela skuli vera að hafa þessar áhyggjur.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.