NBA í vanda

Herfileg útreið bandaríska körfuboltalandsliðsins á nýafstöðnu heimsmeistaramóti kom flestum í opna skjöldu. En séu málin skoðuð ofan í kjölinn, kemur í ljós að hnignandi hugarfar bandarísku NBA-stjarnanna er að koma bandarískum körfubolta í koll.

Það blæs ekki byrlega fyrir bandarískum körfuknattleiksmönnum þessa dagana. Í fyrradag lauk heimsmeistaramótinu i körfuknattleik og báru Júgóslavar sigur úr býtum. Bandaríkjamann, sem höfðu ekki tapað landsleik síðan NBA leikmenn hófu að leika með landsliðinu, lentu í sjötta sæti og eru því samkvæmt þessu lélegri í körfubolta heldur en Íslendingar í handbolta og Suður Kóreumenn í fótbolta.

Liðið sem Bandaríkjamenn stilltu upp á HM var auðvitað langt frá því að vera skipað tólf bestu einstaklingunum – en engu að síður bjuggust flestir við því að ekkert lið ætti roð í það á heimavelli. Reyndin var önnur. Bandaríkjamenn töpuðu þremur síðustu leikjum sínum, fyrst gegn Argentínu í undanriðli, þá gegn Júgóslövum og loks töpuðu þeir 75-81 í leik um fimmta sætið gegn Spánverjum.

Margar af helstu Bandaríkjamanna nenntu ekki að taka þátt í mótinu. En leikmannalistinn var þó ekkert slor. Sjö þeirra hafa leikið í stjörnuleik og fáum dylst að Paul Pierce er einn besti leikmaðurinn NBA deildarinnar í dag. Það sem hins vegar varð bandaríska liðinu að falli í mótinu var hroki. Allt frá því að Draumaliðið kom, sá og gjörsigraði alla á Ólympíuleikunum 1992 hafa Bandaríkjamenn talið að þeir væru ósigrandi í iþróttinni og gætu mætt til leiks án undirbúnings og einfaldlega valtað yfir hvaða andstæðing sem er. En hlutirnir breyttust og bestu landslið Evrópu og S. Ameríku hafa tekið stórstígum framförum og hafa nú á að skipa heimsklassaleikmönnum sem kunna að spila saman eins og lið. Bandaríkjamenn hafa hingað til ekki þurft að spila eins og lið – yfirburðahæfileikar einstaklinganna hafa dugað til og rúmlega það.

En hrokinn sem varð Bandaríkjamönnum að falli á heimsmeistaramótinu er ekki eina vandmálið sem bandaríski körfuboltaheimurinn þarf að glíma við um þessar mundir. Margt bendir til þess að NBA deildin sjálf sé að sökkva í djúpa lægð, líkt og gerðist á áttunda áratugnum þegar eiturlyfjahneyksli og hrokafullt viðmót leikmanna gengu næstum að deildinni dauðri. Svo virðist sem margir leikmenn í dag hafi meiri áhuga á æsifengnum ævintýrum utan vallar heldur en árangri í íþróttinni.

Utanvallarævintýri nokkurra af helstu stjörnum deildarinnar eru síður en svo sakleysisleg. Chris Webber, einn besti leikmaður deildarinnar til margra ára, hefur verið kærður fyrir að bera ljúgvitni í dómsmáli fyrir áratug og á yfir höfði sér tíu ára fangelsisdóm. Jayson Williams, sem reyndar er nýlega hættur að spila, hefur verið kærður fyrir að hafa skotið limósínubílstjóra til bana í gáleysi og reynt að láta það líta út fyrir að hafa verið sjálfsmorð. Glenn Robinson, fyrrum stjarna Milwaukee Bucks – nú leikmaður Atlanta Hawks, hefur verið kærður fyrir ólöglegan vopnaburð og ofbeldi gagnvart eiginkonu sinni. Derrick Coleman, Philadelphia 76ers, var tekinn fullur undir stýri á nærri tvö hundruð kílómetra hraða. Damon Stoudamire, leikstjórnandi hjá Portland Trail Blazer, og faðir hans, voru kærðir fyrir eiturlyfjamisferli. Og Allen Iverson, besti leikmaður NBA deildarinnar 2001 og fyrirliði Philadelpia 76ers, var í sumar kærður fyrir fjödlann allan af glæpum. Hann hafði m.a. hent konunni sinn alsnakinni út úr húsi en farið svo að leita að henni og tekið með sér byssu. Til að bíta höfuðið af skömminni hélt hann svo risastór partí sem entist langt fram á nótt áður en hann gaf sig loks fram við lögreglu.

Þessi langa upptalning sýnir hvers lags hugarfar er ríkjandi í NBA deildinni í dag. Stjörnunum dugar ekki spennan og aðdáunin á vellinum heldur eru þeir í sívaxandi mæli farnir að lifa svipuðu lífi og rappstjörnur. Það eru ekki margir toppíþróttamenn sem geta leyft sér slíkan lifnað utan vallar og fyrr eða síðar munu NBA-stjörnurnar vakna upp við þann vonda draum að allur töffaraskapurinn dugi ekki á móti einbeittari og agaðri leikmönnum sem hafa meiri áhuga á leiknum sjálfum en lífsstílnum sem fylgir frægð og frama. Og víst er að leikmennirnir sem sigruðu bandaríska landsliðið í HM eru meira en tilbúnir til þess að ryðja sér rúms í bestu körfuboltadeild heims á næstu árum.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.