Ofmetinn Brown

Þegar kvikmyndin The Last Temptation of Christ kom á hvíta tjaldið varð allt brjálað. Þegar Mel Gibson sýndi þrautagöngu Jesú í myndinni Passion of the Christ varð líka allt brjálað. Það kom því eins og þruma úr heiðskíru lofti að hinir ýmsu trúarleiðtogar urðu brjálaðir þegar The Da Vinci Code var gefin út og enn pirraðari þegar hún var sett í kvikmyndaform. Það má sjá fyrir mörg ófyrirsjáanleg vandamál og hártoganir í tengslum við þess mynd. Sérstaklega ef hún verður leiðinleg.

Ef rýnt er vel í þessa mynd eftir Dan Brown má sjá Jesú vera að kyssa Maríu Magdalenu

Það væri hægt að fjalla ítarlega um hinar ýmsu kenningar um Jesú, tilgang lífsins, trúarbragðahúmor og þröngsýni heilagra manna en það væri of málefnalegt. Þess í stað er þeirri spurningu varpað fram afhverju er vert að sjá mynd þegar maður veit allt plottið, veit hver er vondi kallinn og veit hvernig sagan endar. Þessu til viðbótar þá hefur myndin fengið víðast hvar slæma dóma. Á Hanks einhvern séns í 800 kallinn?

Svarið er nei.

Nú eru vonandi margir ósammála þessari afstöðu. Einhverjir hafa ekki lesið bókina og finnst gaman í bíó. Þá væri örugglega tilvalið að slá tvær flugur í einu höggi. Aðrir hafa kannski lesið bókina en ekki náð plottinu og vilja glöggva sig betur á öllu saman á myndrænan hátt. Sumir verða hreinlega að komast að því hvort bókin hafi ekki örugglega verið betri en myndin. Passion of the Christ var betri en bókin. Það er önnur saga. Svo er líka bara gaman í bíó með popp og kók, þrjú bíó stemmning eins og í gamla daga.

Það eru því til góðar ástæður fyrir því að fara og sjá umrædda mynd. Haldlítil eru þau rök að ótækt sé að sjá bíómynd þegar endirinn er lýðnum ljós. Titanic sló aðsóknarmet þrátt fyrir að flestur gerðu sér óljóst grein fyrir endalokum siglingarinnar. Fáum hefur líka komið á óvart að Mel Gibson endaði sína mynd á því að krossfesta aðalsöguhetjuna. Það vita líka allir að Bond hefur ekki enn þá drepist við skyldustörf. En það er eitthvað í þessu sem kemur ekki heim og saman við Da Vinci spennutryllinn.

Framan af var bókin spennandi. Skemmtilegar pælingar um Jesú og dulúð þekkingarinnar áttu þó stærstan þátt í því að grípa lesandann. Það er sagan á bakvið spennusöguna sem gerði bókina vinsæla. Enda fór sagan í tóma vitleysu þegar síga fór á seinni hlutann og hulunni var svipt af leyndardómnum. Svona andris eins og þegar brandari lofar góðu en endar ekki og verður leiðinlega langur og ómerkilegur. Svona eins og þessi pistill? Þegar öllu er á botninn hvolft þá var bókin ekki góð og því verður myndin heldur ekki góð. Færeyingar vita hvað þeim er fyrir bestu og bönnuðu bara myndina, ekkert vesen. Kannski af því þeir vildu ekki verða fyrir vonbrigðum, pæling.

Niðurstaðan af þessari málefnalegri kvikmyndagagnrýni er því sú að horft verður á The Last Temptation of Christ um helgina frekar en að maður skelli sér í bíó til að þess eins að ráða í gáturnar í annað sinn. Enda var Júdas góði kallinn eftir allt saman.

Góða helgi

Latest posts by Teitur Björn Einarsson (see all)

Teitur Björn Einarsson skrifar

Teitur hóf að skrifa á Deigluna í febrúar 2006.