Skelfingin í Súdan

Þann 30. júní 1989 steypti herinn í Súdan lýðræðislega kjörinni stjórn landins af stóli og kom stjórnmálaflokknum NIF (e. The National Islamic Front) til valda. Maður að nafni Omar El Bashir leiddi valdaránið, tók hann við völdum í landinu og hefur haldið þeim allt fram á þennan dag. Frá valdaráninu hefur saga Súdans einkennst af grimmdarverkum, hópmorðum og algjöru sinnuleysi Sameinuðu þjóðanna og alþjóðasamfélagsins.

Þann 30. júní 1989 steypti herinn í Súdan lýðræðislega kjörinni stjórn landins af stóli og kom stjórnmálaflokknum NIF (e. The National Islamic Front) til valda. Fram að valdaráninu hafði flokkurinn ekki riðið feitum hesti frá lýðræðinu en hann hafði einungis náð 18,4% atkvæða í kosningum sem haldnar voru árið 1986.

Maður að nafni Omar El Bashir leiddi valdaránið, tók við völdum í landinu og hefur hann haldið þeim allt fram á þennan dag. Var það eitt hans fyrsta verk að koma á islömskum trúarlögum (a. Sharia) í landinu.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna brást ekki við valdaráninu frekar en oft áður í svipuðum aðstæðum. Ástandið í Súdan komst ekki einu sinni á dagskrá ráðsins árið 1989 þótt verið væri að ganga milli bols og höfuðs á lýðræði í landinu og grundvallarréttindi þegnanna væru fótum troðin..

Algjört mannréttindaleysi

Frá upphafi hefur verið ljóst að stjórnin í Khartoum, sem er höfuðborg Súdan, hefur afar lítinn áhuga á mannréttindum. Stjórnmálaflokkar sem eru í andstöðu við stjórnina eru bannaðir og flestir sem sýna minnstu andstöðu eru hnepptir í fangelsi. Fjölmiðlar eru ritskoðaðir og háðir starfsleyfi stjórnvalda. Öryggislögreglan beitir þá sem sýna andóf miskunnarlaust pyntingum.

Sharialög stjórnvalda hafa jafnframt myndað greinilega stéttaskiptingu í landinu. Óhætt er að segja að konur almennt ásamt þeim einstaklingum sem ekki eru islamtrúar séu lagalegir annars flokks borgarar í landinu. Hafa konur verið neyddar inn á heimilin og verða þær að hylja sig frá hvirfli til ilja ef þær fara út úr húsi. Stjórnvöld hafa ekki látið staðar numið við lagasetningu gegn fólki af öðrum trúarbrögðum heldur hafa einnig stundað ofbeldisfullar ofsóknir á hendur flestum sem játa önnur trúarbrögð.

Allt frá valdaráninu hafa skýrslur, rannsóknir og vitnisburðir af þessum mannréttindabrotum verið að streyma út úr landinu. Mörg mannréttindasamtök settu Súdan þegar í kjölfar valdaránsins ofarlega á lista yfir lönd þar sem verið væri að fremja alvarleg mannréttindabrot. Alþjóðasamfélagið sýndi landinu hins vegar engan áhuga.

Stríðið við SPLA

Stjórnvöld í Súdan hafa staðið í stríði við uppreisnarhópinn SPLA (e. The Sudanese People´s Liberation Army) sem heldur til í Suður-Súdan. Stuttu eftir að El Bashir komst til valda var tekin upp hörð stefna gegn uppreisnarmönnum. Voru stofnaðar vígasveitir sem samanstóðu af hirðingjum af arabískum uppruna og réðust þær ásamt stjórnarhernum með áður óþekkri grimmd gegn þeim svæðum þar sem uppreisnarmenn héldu til.

Voru allir borgaralegir leiðtogar eða menntamenn á átakasvæðunum handteknir, pyntaðir eða teknir af lífi án dóms og laga. Í kjölfarið gerði stjórnin stór svæði upptæk, neyddi heilu byggðarlögin til að yfirgefa heimili sín, eyðilagði þorp ásamt því að pynta og drepa íbúana á svæðinu.

Í janúar 1992 var heilögu stríði (a. jihad) lýst yfir gegn SPLA og náði grimmd stjórnvalda nýjum hæðum í kjölfarið. Ári seinna láku út trúnaðarupplýsingar um aðgerðir stjórnvalda. Kemur þar fram að á árunum 1992-1993 hafi stjórnvöld drepið á milli 40.000 og 50.000 óbreytta borgara á svæðunum með loftárásum á þorp og önnur svæði þar sem saklausir borgarar héldu til. Lýstu háttsettir liðhlaupar því yfir að um væri að ræða skipulagða stefnu um þjóðernishreinsanir og að hermenn hafi skipanir um að drepa alla unga karlmenn á staðnum en að börn ætti að taka frá fjölskyldum sínum og nota sem þræla á samyrkjubúum stjórnvalda.

Þrátt fyrir afgerandi sönnunargögn fyrir þjóðernishreinsunum og hópmorðum í Súdan þá tók Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna mál Súdan ekki upp og engin ályktun kom frá ráðinu um landið á árunum 1989-1995. Á meðan var verið að brytja fólk niður í Suður-Súdan og níðast á mannréttindum allra í landinu.

Hryðjuverkadaður

Stjórnin í Khartoum ákvað snemma að einskorða sig ekki við hrylling heima fyrir. Stjórnin hýsti þannig Osama Bin Laden og Al-Queda á árunum 1990-1995 og leyfðu þeim að starfrækja höfðuðstöðvar og þjálfunarbúðir í landinu. Leyfði stjórnin í Khartoum hinum ýmsu hryðjuverkasamtökum að delja í landinu og tók þátt í skipulagninu á ýmsum árásum islamskra hryðjuverkahópa í Egyptalandi. Voru þau meðal annars bendluð við morðtilraun á Hosni Mubarak, forseta Egyptalands, í Adis Ababa, höfðuðborg Eþíopíu þann 26 júní 1995.

Það þurfti morðtilraun sem beindist gegn leiðtoga annars ríkis til að vekja Öryggisráðið því í kjölfar atviksins í Adis Ababa tók það loks afstöðu. Með ályktunum 1044, 1054 og 1070 var sett ferðabann og diplómatískar þvinganir á landið vegna stuðnings þess við hryðjuverk. Daður stjórnarinnar í Khartoum við hryðjuverk minnkaði verulega í kjölfarið og var Osama Bin Laden og Al-Queda m.a. vísað úr landinu.

Hins vegar voru alltaf uppi efasemdir um vilja stjórnvalda til að breyta ástandinu í landinu til hins betra. Eftir hryðjuverkaárásir Al-Queda á sendiráð Bandaríkjamanna í Kenýa og Tanzaníu þann 7. ágúst 1998 fyrirskipaði Bill Clinton, þáverandi Bandaríkjaforseti, árás á efnaverksmiðju í Súdan sem talið var að væri í eigu Osama Bin Laden og væri að framleiða efnavopn.

Dauðinn í Darfur

Í Darfurhéraði í Vestur-Súdan bjuggu fram til ársins 2003 6,5 milljónir íbúa af arabískum og afrískum uppruna. Snemma árs 2003, í kjölfar átaka sem höfðu átt sér stað á milli uppreisnarmanna af afrískum uppruna og stjórnarinnar í höfuðborginni Khartoum, tók stjórnin upp sömu stefnu og þeir höfðu notað gegn SPLA. Fólst hún í því að eyða kerfisbundið flestum ættbálkum af afrískum uppruna í héraðinu þar sem stjórnin taldi að þeir væru hliðhollir uppreisnarmönnunum.

Á sama hátt og í stríðinu gegn SPLA voru aðalverkfæri stjórnvalda vígasveitir af arabískum uppruna. Í Darfur voru það hinar svokölluðu Janjaweed-sveitir, sem voru lauslega skipulagðar 20.000 manna vígasveitir af arabískum uppruna sem sáu um skítverkin fyrir stjórnina. Fóru þær um héraðið á hestum og kameldýrum og réðust á saklausa borgara. Stjórnin í Khartoum útvegaði þeim háþróuð vopn og sá þeim fyrir vistum. Jafnframt studdi hún aðgerðir vígasveitanna með aðstoð flughers Súdan og annarra hersveita stjórnarhersins.

Hópmorð hefst

Ekki leið langur tími frá því að vígasveitirnar létu fyrst til skarar skríða í samstarfi við stjórnarher Súdans þar til ljóst var að um skipulagt hópmorð (e. genocide) væri að ræða. Í fyrsta lagi var ráðist kerfisbundið á saklausa borgara af afrískum uppruna. Voru karlmenn og ungir drengir stráfelldir hvar sem til þeirra náðist, konum nauðgað eða þær brottnumdar. Í öðru lagi var ráðist kerfisbundið gegn lífsviðurværi fólks af afrískum uppruna í héraðinu. Þorp voru brennd, vatnsból eitruð, veitukerfi eyðilögð, öll tæki til lanbúnaðarframleiðslu eyðilögð, matarbirgðir eyðilagðar og ávaxtatré höggvin niður. Einnig var flestu búfé stolið en það sem eftir var féll fljótlega vegna hungurs og vosbúðar.

Viðbrögð Öryggisráðsins

Vopnahlé milli uppreisnarmanna og stjórnarinnar í Khartoum komst á í héraðinu árið 2004. Þann 14. maí 2004 var haldinn fundur í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna um Darfur. Yfirmaður mannréttindamála hjá Sameinuðu þjóðunum (e. UN High Commissioner of Human Rights) hafði sent lið inn í Darfur til að safna upplýsingum. Lýsti hann því yfir að rannsóknin sýndi að verið væri að stunda þjóðernishreinsanir í héraðinu og fór fram á tafarlausa hernaðaríhlutun til að stöðva grimmdarverkin.

Þessi krafa vakti ekki mikla lukku hjá meðlimum Öryggisráðsins. Rússland hafði áhyggjur af því að búa til fordæmi um hernaðaríhlutun í nafni mannréttinda vegna eigin gjörða í Tjetseníu. Kína hafði mikla olíuhagsmuni í Súdan og vildi ekki heldur búa til fordæmi vegna eigin gjörða í Tíbet. Bandaríkin höfðu einnig mikla olíuhagsmuni að vernda. Frakkland og Bretland höfðu viðskiptahagsmuni að vernda í Súdan. Öll þessi ríki töldu að það væri réttast að láta Einingarsamtök Afríku sjá um málið en það eru afar veikburða samtök sem hafa enga burði til að takast á við vandamál af þessu tagi.

Pakistan og Alsír eru islömsk ríki og töldu að það ætti yfir höfuð ekkert að skipta sér af Súdan. Eina ríkið sem studdi heilshugar íhlutun til að bjarga íbúum Darfur var Þýskaland sem mátti sín hins vegar lítils á móti öllum hinum ríkjunum. Í kjölfarið samþykkti Öryggisráðið ályktun nr. 1556 sem heimilaði Einingarsamtökum Afríku að senda hermenn inn í landið í krafti kafla VII í sáttmála SÞ. Var fámennt friðargæslulið sent á vettvang frá Einingarsamtökum Afríku (e. African Union) til að fylgja friðarsamkomulaginu eftir. Friðargæsluliðið er afskaplega illa búið enda fjármagnað með frjálsum framlögum. Neitaði stjórnin í Khartoum alfarið að gefa friðargæsluliðinu heimild til að gæta öryggis borgaranna og hafa þeir því ekki gert það.

Haldlitlar aðgerðir

Friðarsamkomulagið og vera friðargæsluliða á svæðinu hefur því haft lítil áhrif á Janjaweed-sveitirnar sem hafa haldið áfram að ráðast á saklausa borgara eins og ekkert hafi í skorist. Í síðustu skýrslu aðalritara Sameinuðu þjóðanna um ástandið í Súdan, sem birtist þann 29. desember síðastliðinn, kemur fram að ástandið í Darfur héraði er sífellt að versna þrátt fyrir friðarsamkomulagið og veru friðargæsluliða á svæðinu. Í skýrslunni kemur einnig fram að stórfelldar árásir á saklausa borgara hafa haldið áfram í héraðinu með morðum, limlestingum og nauðgunum. Var tekið fram að enn verið væri að brenna heilu þorpin og þúsundir einstaklinga væru þannig hraktir frá heimilum sínum.

Fyrir átökin bjuggu 4 milljónir einstaklingar af afrískum uppruna í héraðinu og er talið að nú sé búið að eyðileggja 90% þorpa í landinu. Hafa þessar árásir leitt til þess að á milli 180 og 300 þúsund manns hafa látist, yfir tvær milljónir einstaklinga hafa verið hraktar frá heimilum sínum og að minnsta kosti þrjár milljónir einstaklinga þurfa að fá matvælaaðstoð frá Sameinuðu þjóðunum og mannúðarsamtökum til að geta lifað af.

Af skýrslu aðalritara Sameinuðu þjóðanna og öðrum sem hafa verið að berast frá Darfur á síðasta ári er ljóst að þær aðgerðir sem alþjóðasamfélagið hefur gripið til frá 2003 eru algjörlega ófullnægjandi. Um er að ræða hópmorð og þjóðernishreinsanir sem flestar þjóðir heims hafa, með ýmsum alþjóðasáttmálum, skuldbundið sig til að stöðva.

Ábyrgðin liggur hjá Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna sem hefur til þessa algjörlega brugðist fólkinu í Súdan og alþjóðasamfélaginu eins og svo oft áður. Það er hins vegar ekki öll von úti enn. Nýlega var undirritað nýtt friðarsamkomulag á milli stríðandi fylkinga og á sama tíma, að frumkvæði Bandaríkjamanna, er Öryggisráðið farið að skipuleggja að senda fjölmennt alvöru friðargæslulið inn á vegum Sameinuðu þjóðanna með auknar heimildir til að nota vald til að vernda saklausa borgara. Hvort þetta séu enn önnur innatóm fölsk loforð getur tíminn einn leitt í ljós.

En kannski er alþjóðasamfélagið loksins að vakna.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.