Í fullu samráði

Opið og víðtækt samráð við hagsmunaaðila táknar í fæstum tilfellum fulla sátt. Þrátt fyrir það virðist algengt að setja samansemmerki þar á milli. Samráð felur það í sér fyrst og fremst að lágmarka ósætti og tryggja að enginn einn beri skertari hlut frá borði en annar. Samráð við íbúa í tengslum við stórframkvæmdir getur verið sérstaklega mikil kúnst þar sem oft er um að ræða lítið en öflugt net eiginhagsmuna á móti öðrum stærri en töluvert veikari hagsmunaröddum. Sátt við þá táknar því ekki endilega bestu niðurstöðuna.

Samráð er hugtak sem hefur fengið sífellt meira vægi á undanförnum árum og áratugum. Áhersla á það fer vaxandi enda hafa hagsmunaaðilar meiri tækifæri á formi tíma og upplýsinga til þess að taka virkan þátt í þeirri stefnumótun og breytingum er samráð miðar að. Ekki síst í tengslum við stórframkvæmdir ýmis konar. Kröfurnar vaxa og þekkingin með. Hún ratar þó ekki alltaf til þeirra sem einna mest um það tala.

Það virðist nefnilega vera svo að ýmsir telji að fullt samráð við íbúa og hagsmunaaðila feli sjálfkrafa í sér fulla sátt. Ummæli margra þeirra sem fara með – og þeirra sem vilja fara með – ákvörðunarvald í sveitar- og bæjarstjórnarkosningum bendir til þess að samráð sé eilítið misskilið hugtak.

Pistlahöfundur naut þess að starfa á sviði samráðs og samráðsskipulags á tímabili og lærði ýmislegt. Þar á meðal það að samráð snýst að miklu leyti um breytingastjórnun á háu gæðastigi. Það snýst um að virkja notendur og hagsmunaaðila til að greina leiðir og markmið að leiðum bestu sátta. Sátta milli allra viðkomandi hagsmunaaðila, ekki einungis nokkurra útvalinna. Samráð snýst því að miklu leyti um að lágmarka ósætti og hindra að einhver einn hagsmunaaðili beri skertan hlut frá borði.

Samráð þýðir því ekki endilega það að allir komi fyllilega sáttir út úr slíku ferli. Í sumum tilfellum getur það jafnvel þýtt að greiða verði skaðabætur til handa þeim sem telja sig bera skertan hlut frá borði. Samráð og sérstaklega samráð við íbúa virðist hins vegar vera notað sem samnefnari fyrir sátt við íbúa. Sem er bæði rangt, villandi og jafnvel eyðileggjandi.

Að ganga út frá því þessum formerkjum getur skapað hlutdrægt samráð. Einfaldlega vegna þess að hagsmunaaðilar eru yfirleitt mjög margir og mjög ólíkir. Sum net hagsmuna eru þétt og sterk á meðan önnur eru veik og dreifð. Það skapast því mikil hætta er á að einhver einn ákveðinn hagsmunaaðili nái þeirri stöðu að geta ráðskast með það undir sínum formerkjum. Ekki síst ef stýring ferlisins er ekki mjög sterk eða skortir sjálfstæði og jafnvel eitthvað meira.

Og það virðist t.d. að mörgu leyti vera staðan sem nú er komin upp í umræðu um Sundabraut. Þar hafa myndast lítil og öflug en jafnframt sértæk samtök íbúa er gæta sérhagsmuna sinna í tengslum við þessa framkvæmd. Þau berjast fyrir því að dýrari lausnir séu valdar í því sjónarmiði að vernda verðgildi eigin eigna. Sem er mjög eðlilegt. En þau virðast hafa nú náð þeirri stöðu – a.m.k. tímabundið – að stýra ferlinu að miklu leyti sjálf. Og hafa fengið til þess leyfi vegna þess að samráðsferlið er keyrt áfram á illa skilgreindum forsendum og þar sem ekki var gengið upp frá því í upphafi að um opið samráðsferli væri að ræða. Það er ekki jákvætt. Sérþekkingu á samráði virðist því skorta öðru fremur á meðan krafan um samráð hefur aukist jöfnum fetum undanfarin misseri. Bæði að ofan og neðan. Forsendur sérhagsmuna virðast því vera komnar í ökumannssætið. Þetta þarf að leiðrétta og vonandi læra menn af mistökunum í framhaldinu.

Latest posts by Samúel T. Pétursson (see all)

Samúel T. Pétursson skrifar

Sammi hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.