Stúdentagarðar – hvar, hvernig, hvenær?

Nú þegar tekur að nálgast borgarstjórnarkosningar í Reykjavík keppast flokkarnir um að lofa kjósendum hinu og þessu og reyna að ná til sem flestra hópa borgarbúa. Undirritaður er stúdent við Háskóla Íslands og því eru mál stúdenta ofarlega í huga – og hvað ný borgarstjórn getur gert fyrir reykvíska stúdenta. En eru flokkarnir í raun búnir að móta sér skýra stefnu í málefnum stúdenta? Eða fljóta þeir bara með straumnum til að veiða sem flest atkvæði?

Nú þegar tekur að nálgast borgarstjórnarkosningar í Reykjavík keppast flokkarnir um að lofa kjósendum hinu og þessu og reyna að ná til sem flestra hópa borgarbúa. Undirritaður er stúdent við Háskóla Íslands og því eru mál stúdenta ofarlega í huga – og hvað ný borgarstjórn getur gert fyrir reykvíska stúdenta. En eru flokkarnir í raun búnir að móta sér skýra stefnu í málefnum stúdenta? Eða fljóta þeir bara með straumnum til að veiða sem flest atkvæði?

Húsnæðismál hafa lengi verið í brennidepli stúdenta og ekki er vanþörf á að taka örlítið til í þeim málaflokki. Félagsstofnun stúdenta, FS, rekur nú samtals um 620 íbúðir á Stúdentagörðunum. Næsta haust verða einnig teknar í notkun 96 einstaklingsíbúðir við Lindargötu í miðborg Reykjavíkur og mun sú viðbót verða kærkomin. Þessar 720 íbúðir sem verða í notkun næsta skólaár munu rúma rétt um 8% stúdenta við Háskólann. Á hverju hausti eru um 600 manns ennþá á biðlistum og komast ekki að.

Eins og frægt er orðið hefur Háskólinn nú sett sér það markmið að komast í hóp fremstu háskóla í heiminum á næstu árum. Í kjölfarið hafa menn keppst við að bera Háskólann saman við aðra skóla á sem flestum sviðum og bent á að Háskólinn á langt í land á mörgum sviðum eins og má meðal annars lesa um hér, í pistli eftir Pawel Bartoszek sem birtist hér á Deiglunni fyrir nokkru. Í samanburði við erlenda háskóla eru húsnæðismál stúdenta heldur engin undantekning. Almennt viðmið erlendra háskóla er að bjóða að minnsta kosti 15% nemenda upp á íbúðir á stúdentagörðum og það er því ljóst að tvöfalda þarf fjölda stúdentaíbúða strax ef þetta markmið ætti að nást.

Aldrei þessu vant er nú hvorki hægt að kenna Háskólanum né ríkisvaldinu um hvernig staðan er. Núna er það borgin! Eins og áður segir er það Félagsstofnun Stúdenta sem byggir og rekur Stúdentagarða og hefur staðið sig mjög vel í þeim málum. FS hefur nægt bolmagn til að byggja hundruðir íbúða í viðbót og hefur ítrekað sóst eftir fleiri byggingarlóðum í Reykjavík. Ef lóðir fengjust á morgun, gæti FS hafist handa strax daginn þar á eftir. Því miður hefur lítið gerst í þessum málum á undanförnum árum ef undanskilið er bygging stúdentagarðanna á Lindargötu, sem þó eru langt frá því að uppfylla þörfina.

En hver er stefna flokkanna sem eru að bjóða sig fram í borgarstjórn í þessum málum? Í nýjasta tölublaði Vakanda, málgagni Vöku félags lýðræðissinnaðra stúdenta, fengu fulltrúar flokkanna tækifæri til að svara nokkrum spurningum og var meðal annars spurt hver stefna flokkanna væri í húsnæðismálum stúdenta. Nálgast má svör flokkanna hér.

Að mati undirritaðs var því miður ekki nógu mikið um skýr og greinargóð svör hjá flokkunum. Allir flokkarnir áttu það sameiginlegt í sínum svörum að tala almennt jákvætt um uppbyggingu Háskólasvæðisins, vera viljugir á að byggja nýja stúdentagarða og skapa skemmtilegt og líflegt Háskólasamfélag í borginni. En ég held að vel flestir borgarbúar geti verið sammála um þessa fallegu sýn. Spurningin er einfaldlega hvar, hvernig og hvenær? Dagur B. Eggertsson sagði fyrir hönd Samfylkingarinnar að stefnan væri að byggja upp 800 stúdentaíbúðir á næstu árum. Ef það gengur eftir væri það frábært. En nú hefur R-listinn verið í borgarstjórn síðastliðin tólf ár og það skýtur því skökku við að fátt hafi gerst á þeim tíma en nú rétt fyrir kosningar, þegar kannanir sýna að borgarstjórn muni falla, séu loforðin stór.

Undirritaður skorar á flokkana að skerpa enn betur á stefnu sinni í húsnæðismálum stúdenta og á nýja borgarstjórn að vinna að raunverulegum lausnum í þessum málefnum í stað orðanna einna sem hafa einkennt undanfarin ár.

Latest posts by Andri Heiðar Kristinsson (see all)