Skæruhernaður í skjóli sjúklinga

Lokun deildar fyrir heilabilaða á Landsspítala – háskólasjúkrahúsi hefur valdið miklu fjaðrafoki. Þetta fjaðrafok er reyndar orðið árvisst og tengist jafnan vinnu við gerð fjárlaga.

Þegar tilkynnt er um lokun deildar fyrir heilabilaða sjúklinga og ástæðan er sögð fjárskortur, láta viðbrögðin í samfélaginu ekki á sér standa. Mönnum svelgist á morgunkaffinu og síðan er fussað og sveiað. Hlaupið er upp til handa og fóta, fundar krafist í heilbrigðisnefnd Alþingis og fjölmiðlar hafa ekki við að segja hamfarafréttir. Meira að segja leiðarahöfundur Morgunblaðsins virðist enn hafa verið með vínarbrauðið í hálsinum þegar hann skrifar:

„Það er ekki hægt að halda áfram að skera niður heilbrigðisþjónustuna á Íslandi. Það má vel vera að það sé hægt að skera enn niður kostnað við rekstur Landspítala – háskólasjúkrahúss án þess að það komi niður á sjúklingum en það er komið að endamörkum þess, sem hægt er að leyfa sér gagnvart sjúklingum og aðstandendum. Frekar á að hækka skatta en að halda áfram á sömu braut.“

Já, tölum aðeins um að halda áfram á sömu braut. Á undanförnum árum og áratugum hafa útgjöld til heilbrigðismála á Íslandi sem hlutfall af vergri landsframleiðslu margfaldast. Er nú svo komið að ekkert ríki innan OECD ver meira fé úr opinberum sjóðum en einmitt Íslendingar. Það má taka undir með Morgunblaðinu að það er fráleitt að halda áfram á sömu braut, en hvernig leiðarahöfundur kemst að þeirri niðurstöðu, að skattahækkun sé nauðsynleg til að rjúfa þennan vítahring, er með öllu óskiljanlegt.

Áður en menn hlaupa upp til handa og fóta við hverja skyndilokun deilda, þá ættu þeir að skoða málið nánar. Á hverju einasta ári gerist það, mitt í fjárlagagerðinni, að viðkvæmum deildum er lokað á sjúkrahúsunum. Jafnan leggja stjórnendurnir sig fram um að tilkynna um lokunina með sem minnstum fyrirvara, gæta þess í þaula að gera engar ráðstafanir sem dregið gætu úr áhrifum lokunar og velja alltaf þær deildir sem hvað sérhæfðastar eru, þannig að tryggt sé að engin önnur úrræði standi þeim sjúklingum sem þar eru til boða.

Það er auðvitað alþekkt að alls kyns lobbýistar fara á kreik í kringum fjárlagagerðina og þá heyrist jafnan harmakvein úr hverju horni. En atferli stjórnenda spítalanna í Reykjavík er ekki hefðbundinn lobbýismi, þessu má miklu fremur líkja við kaldrifjaðan skæruhernað. Í slíkum hernaði er óbreyttum borgurum ítrekað beitt, en aðeins þeir allra kaldrifjuðustu myndu setja fram fyrir skjöldu ósjálfbjarga gamalmenni og helsjúkt fólk til að ná kröfum sínum fram.

En skoðum aðeins fjárskortinn í heilbrigðiskerfinu, eða öllu heldur hinn meinta fjárskort. Árið 1970 námu útgjöld ríkissjóðs til heilbrigðismála 3,2% af vergri landsframleiðslu, árið 1980 var hlutfallið komið í 5,5% og árið 1990 í 6,8%. Samkvæmt upplýsingum sem fram koma í vefriti fjármálaráðuneytisins, fjr.is er áætlað að árið 2000 hafi þetta hlutfall verið komið upp í 7,5%. Ef við skoðum þróunina á framlögum í fjárlögum til sjúkrahúsanna í Reykjavík frá árinu 1997 til ársins í ár, þá kemur í ljós að framlögin hafa vaxið úr 12,7 milljörðum árið 1997 og upp í 21,1 milljarð árið 2002. Þetta er hækkun upp á heil 66%!

Það hlýtur að vera augljóst hverjum manni, sem ekki er gersamlega skyni skroppinn eða talar gegn betri vitund í pólitískum tilgangi, að skortur á opinberum framlögum er ekki vandamálið í íslenska heilbrigðiskerfinu. Vandamálið er auðvitað hvernig farið er með þá gríðarlegu fjármuni sem til ráðstöfunar eru. Málsmetandi menn hafa á undanförnum árum bent á leiðir til ná fram aukinni skilvirkni og hagræðingu í heilbrigðiskerfinu, fyrst og fremst til hagsbóta fyrir sjúklinga. Þessar leiðir byggja á breyttum hugsunarhætti og auknu hlutverki einkaaðila í heilbrigðiskerfinu.

En þessar lausnir eiga ekki upp á pallborðið hjá þeim sem fara með stjórn heilbrigðismála. Enginn átti svo sem von á því að nátttröll íslenskra stjórnmála, Framsóknarflokkurinn, myndi sjá ljósið. En það er helvíti hart þegar sjálft Morgunblaðið sér ekki aðra lausn á málinu en hina gömlu og sígildu lausn vinstri manna; að hækka skatta.

Ný hugsun og nýjar lausnir í heilbrigðismálum hafa aldrei verið eins aðkallandi og nú. Sífellt meiri fjáraustur inn í hið ríkisrekna heilbrigðiskerfi virðist ekki koma sjúklingum til góða. Kerfið sjálft er tifandi tímasprengja, því enn búum við Íslendingar að því að yngri aldurshóparnir eru hlutfallslega fjölmennari hér á landi en hjá flestum nágrannaþjóðum okkar, og það ætti að leiða til lægri útgjalda til heilbrigðismála. Hvað gerist þegar hlutfallsskiptingin verður óhagstæðari?

Að loknum næstu alþingiskosningum verður stjórn heilbrigðismála að færast á hendur þeirra sem eru reiðubúnir að stokka upp í kerfinu og leita nýrra lausna. Ekki er lengur hægt að halda áfram á sömu braut – að því leyti hefur leiðarahöfundur Morgunblaðsins lög að mæla.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.