Bónuskrónur

London er ein dýrasta borg í heimi, og er húsnæðisverð þar margfalt hærra en í Reykjavík. Matvæli eru almennt þó ódýrari, en eins og pistill dagsins ber með sér, þá þarf að bera sig eftir björginni.

Það er nú ekki svo ýkja langt síðan Íslendingar flykktust í heilu hópunum til London, Dublin og Glasgow í verslunarferðir. Oft voru ógurleg met slegin í verslunarhraða í þessum verslunarleiðöngrum. Það var bókstalega skóflað ofan í körfurnar og svo borgað með kredit. Svo var líka ógurleg menning í því að fara á markaði og það þótti flott að ganga í notuðum gallabuxum og rússkinsjökkum. Við heyrum lítið sem ekkert af svona ferðum í dag. Reykjavík er ekki lengur sama okurborgin og hún var áður. Nú kosta föt í Reykjavík svipað og í Glosgow og nánast allt er dýrt í London. London er með dýrastu borgum í heimi og líklega töluvert dýrari en Reykjavík þegar allt er tekið með í reikninginn.

Það er fyrst og fremst húsnæðisverð eða leiga sem svíður undan. Það er náttúrulega ekki undarlegt að húsnæði skuli vera dýrt í London. Í borginni er einn af stærstu fjármálamörkuðum í heimi, þetta er miðstöð viðskiptalífsins, hér flæðir allt í peningum og hér vinna allir á háum taxta. Auk þess er endalaus eftirspurn eftir húsnæði og verðið markast af því.

Það er þó nokkur glæta í myrkrinu fyrir einstakling eins og mig sem bý í London og eyði stórum hluta af laununum mínum í leigu því matvara er á þægilega viðráðanlegu verði ef verslað er á réttum stöðum. Ég þarf samt að hafa töluvert fyrir því að versla ódýrt því verðaðgreiningaraðferðir stórmarkaðanna láta mig um að rukka inn afsláttinn ef ég kæri mig um hann. Afslátturinn sem er 1% er endurgreiddur í formi inneignanóta. Ég safna punktum á tryggðarkort og fæ svo inneignina senda í pósti á 3-4 mánaða fresti til að eyða í versluninni. Það sem af er árinu hef ég fengið á nokkur þúsund krónur endurgreiddar frá verslunarkeðjunni sem ég versla við og er það ekki bara hið besta mál? Eða hvað?

Margir myndu segja mér að í rauninni sé ég ekki að fá neinn afslátt, allar vörurnar beri álagningu til að standa straum af afslættinum og ef söfnunarpunktakerfið væri ekki í gangi gæti verðið alveg eins verið lægra. Þar sem eingöngu hluti viðskiptavinanna nenna að standa í því að rukka inn afsláttinn með því að safna punktum þá eykst hagnaður verslunarinnar til muna. Hluti af þeim hagnaði fer í að standa straum af kostnaðinum í kringum tryggðarkortakerfið eins og að prenta kortin, inneignarnóturnar og alla auglýsingabæklingana til að auglýsa „afsláttinn“. Það sem verslunarkeðjan græðir mest á þessu eru tryggir viðskiptavinir sem koma aftur og aftur með kortin sín.

Það sem oft gleymist í þessu er að verslunarkeðjurnar eiga í samkeppni við hver aðra og ótal aðrar verslanir og samkeppnin kemur í veg fyrir að verslanirnar verðleggi sig of hátt. Það má því líka líta á dæmið þannig að þeir sem ekki safna punktum eru í rauninni að greiða niður vörurnar hjá fastakúnnunum. Ég er því bara þokkalega ánægður viðskiptavinur og gleymi aldrei kortinu heima.

Latest posts by Soffía Kristín Þórðardóttir (see all)

Soffía Kristín Þórðardóttir skrifar

Soffía hóf skrif á Deigluna í apríl 2001.