Að láta frasana hugsa fyrir sig

Af hverju var það svona fyrirsjáanlegt að Samfylkingin myndi stofna þverpólitískan vinnuhóp til að móta sér sjálfstæða utanríkisstefnu í sömu andrá og tilkynnt var um brottflutning fjögurra herflugvéla frá herstöðinni í Keflavík. Fátt er jú eins óbrigðult og tækifærismennskan.

Um fátt hefur verið meira rætt síðustu daga en þá ákvörðun stjórnvalda í Bandaríkjunum að fjarlægja herþotur sínar og þyrlur frá Keflavíkurflugvelli og viðbrögð manna við þessum fregnum verið afar misjöfn. Forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa farið fram á að Bandaríkjamenn leggi spilin á borðið um það hvernig þeir ætla að standa við varnarsamning ríkjanna og bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ hafa brugðist rösklega við og horft til þeirra tækifæra sem skapast kunna við niðurskurð heraflans.

Ástþór Magnússon leggur til að á Keflavíkurflugvelli rísi þróunarstofnun lýðræðis og aðalstöðvar alþjóðlegs friðargæsluliðs og Samfylkingin hefur stofnað einn vinnuhópinn til sem ætlað er að hafa stefnumótandi hlutverk í málinu.

Auglýsingastofa Samfylkingingarinnar hefur greinilega haft hraðar hendur eftir fréttir bárust um niðurskurð í herafla Bandaríkjanna hér á landi sl. fimmtudag. Á hádegi á sunnudegi hafði verið útbúið gríðarmikið skilti með faglega útfærðri áletrun, „Sjálfstæð utanríkisstefna“. Á blaðamannafundi, þar sem skiltið var sýnt, var jafnframt tilkynnt að núverandi formaður flokksins og sá sem er fyrrverandi formaður myndu ræða við utanríkisráðherra Norðurlanda um möguleika á varnarsamstarfi, auk þess sem stofnaður hefur verið sérstakur þverpólitískur vinnuhópur, væntanlega með þátttöku óháðra, til að móta nýja utanríkisstefnu.

Það er vitaskuld upplagt hjá Samfylkingunni að nota tækifærið nú til að móta sér nýja og sjálfstæða utanríkisstefnu. Hin nýja stefna verður þá væntanlega sjálfstæð og óháð fortíð þeirra flokka sem mynda Samfylkinguna, væntanlega þverpólitísk í þeim skilningi að allir möguleikar verða skoðaðir og engin sérstök afstaða verður tekin.

„Innan EB er aftur á móti talsvert framboð af stjórnlyndu frjálslyndi, en þar ráða sósíaldemókratar miklu og eiga þar margan vellaunaðan bírókrat. Við þurfum þó ekki að fara til EB til að leita að þess konar stjórnlyndi, það lýsti langar leiðir af ræðu hæstv. utanrrh. og formanns Alþfl. á fimmtudaginn. Það þykja ekki merkileg skáld sem láta frasana hugsa fyrir sig og það eru heldur ekki merkilegir stjórnmálamenn eða stjórnmálaskríbentar sem það gera.“

Þetta sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir í umræðum á Alþingi um framvarp til laga um evrópskt efnahagssvæði þann 24. ágúst 1992. Sá ráðherra sem hún lýsir sem lítt merkilegu skáldi sem lætur frasana hugsa fyrir sig er Jón Baldvin Hannibalsson. Það er ákaflega vel við hæfi að Ingibjörg Sólrún hefur nú fengi Jón Baldvin til að móta nýja stefnu Samfylkingarinnar í utanríkismálum. Hvað er meira í anda Samfylkingar Ingibjargar Sólrúnar en að „láta frasana hugsa fyrir sig“?

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.