Ísland í býtið

Í morgunsjónvarpi Stöðvar 2 er enginn morgunfúll. En væri ekki áhugavert að fylgjast með morgunsjónvarpi þar sem þáttastjórnendurnir væru illa greiddir í æfingagalla, læsu blöðin í hljóði og drykkju kaffi – svona eins og venjulegt fólk að morgni dags?

Það er eitthvað svo þægilegt að vakna við syfjulegar raddir sem lesa fyrirsagnir upp úr blöðunum. Smakka með okkur vín á meðan að við sötrum kaffi eða borðum brauðsneið og kryfja fyrir okkur dægurmálin með misskemmtilegum viðmælendum. Ég er eiginlega aðdáandi morgunsjónvarpsins á Stöð 2 þótt það megi auðvitað aldrei fréttast opinberlega. Í morgun mátti til dæmis hlýða á skemmtilegar umræður um ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Þetta voru hinar merkilegustu umræður. Þar áttust við tveir menn sem voru algjörlega á öndverðum meiði um ágæti slíkra ráðstefna. Vissuleg má efast um tilgang þess að samþykkja yfirlýsingar sem aldrei er fylgt eftir, að minnsta kosti mætti þá spara tíma og pening og gera það á símafundum. Hins vegar virtust báðir gestirnir sammála um ágæti þess að lyfta verndartollum á landbúnaði sem grasserar víða í hinum vestræna heimi. Leidd voru rök að því að hagur þriðja heims ríkja myndi ekki batna fyrr en þau gætu flutt út sínar framleiðsluvörur. Þetta geta allir tekið undir, einnig stjórnmálamenn, en svo virðist sem enginn þori að láta efndir fylgja orðum.

Ein rök gleymdust í morgun þegar málið var rætt. Vissulega er rétt að hagur ákveðins hóps á Vesturlöndum myndi versna við þetta eins og kom fram í þættinum, en það yrði aðeins tímabundið ástand. Um leið og efnahagur fátækra ríkja batnar stækkar markaðurinn fyrir framleiðsluvörur Vesturlanda, svo sem bíla, rafmagnstæki og svo framvegis. Raskið þyrfti að lágmarka þar til jafnvægi næðist á milli hagkerfanna.

Ekki má gleyma samræðum þeirra Þórhalls og Jóhönnu við Eirík Bergman í Osló, sem oftar en ekki snúast um norsku konungsfjölskylduna. Skemmtilegast er að heyra hversu lítinn áhuga Eiríkur hefur á að ræða þessi mál enda lítill konungssinni. Pistlarnir hans Illuga er einnig besta skemmtun og reyndar skemmtilegastir þegar þeir eru hvað umdeildastir. Þá geta þeir sem eru honum sammála farið vígreifir í vinnuna með þá vitneskju að þeirra sjónarhorn hafi fengið að heyrast. Þeir sem eru ósammála geta hins vegar bölvað honum í sand og ösku sem er líklega það besta sem hægt er að gera á morgnanna. Til að fullkomna þetta mætti bjóða Kolbrúnu Halldórsdóttur að vera með vikulega pistla um siðferðismál en það er líklega langbesta leiðin til að koma blóðinu af stað.

Þótt morgunsjónvarpið sé vissulega gott þá finnst mér samt sem áður að gera mætti þátt fyrir morgunfúla. Þar væru þáttastjórnendurnir illa greiddir í æfingagalla, læsu blöðin í hljóði og drykkju kaffi. Hugsið ykkur bara að líta upp frá Morgunblaðinu á sjónvarpið og sjá venjulegt fólk í venjulegu morgunskapi. Það er víst nógur tími yfir daginn til að kryfja heimsmálin.

baldvin@deiglan.com'
Latest posts by Baldvin Þór Bergsson (see all)