Ábyrgð Yassers Arafats sem þjóðarleiðtoga

Þann 9. apríl sl. söfnuðust saman á Austurvelli nokkuð á annað þúsund manns til að mótmæla hernaðar-
aðgerðum Ísraela gegn Palestínumönnum, og við það tækifæri var myndin hér til hliðar tekin. Þessi mótmæli áttu fullan rétt á aér, enda framganga Ísraelsmanna síðustu vikur með öllu óásættanleg, eins og Deiglan hefur þegar fjallað um.

Þann 9. apríl sl. söfnuðust saman á Austurvelli nokkuð á annað þúsund manns til að mótmæla hernaðar-
aðgerðum Ísraela gegn Palestínumönnum, og við það tækifæri var myndin hér til hliðar tekin. Þessi mótmæli áttu fullan rétt á aér, enda framganga Ísraelsmanna síðustu vikur með öllu óásættanleg, eins og Deiglan hefur þegar fjallað um.

En þó svo að rétt og skylt sé að mótmæla slíkum yfirgangi, er ekki þar með sagt að rétt sé að taka afstöðu með öðrum deiluaðilanum, því sjaldan veldur einn er tveir deila. Vissulega ber ofstopamaðurinn Ariel Sharon mikla – hugsanlega mesta – ábyrgð á ástandinu fyrir botni Miðjarðarhafs, eins og það kemur heimsbyggðinni fyrir sjónir í dag. En atburðir síðustu vikna eiga sér forsögu sem ekki má líta framhjá.

Ekki eru margir mánuðir síðan forystumenn Ísraelsmanna og Palestínumanna virtust afar nálægt því að komast að varanlegu friðarsamkomulagi. Fundur þeirra Ehuds Baraks, þáv. forsætisráðherra Ísraels, og Yassers Arafats í Camp David, eða öllu heldur lyktir hans, markaði upphafið að þeirri ófriðaröldu sem nú hefur leitt ómældar hörmungar yfir íbúa svæðisins.

Á fundinum lagði Barak fram m.a. tilboð um afhendingu landssvæða og að Palestínumenn fengju yfirráð yfir Austur-Jerúsalem. Þegar fréttir bárust af tilboði Baraks ætlaði allt um koll að keyra í Ísrael og töldu margir þar í landi að með tillögunum væri Barak að teygja sig allt of langt. En engu síður hafnaði Arafat tillögum Baraks og það með miklum látum. Þessi handhafi friðarverðlauna Nóbels strunsaði heim og boðaði heilagt stríð gegn Ísrael. Barak var síðan kollfelldur í þingkosningum í Ísrael vegna undanlátssemi sinnar við Arafat og um eftirleikinn þarf ekki að fjölyrða.

Því má vissulega halda fram að tillögur Baraks hafi ekki gengið eins langt og Palestínumenn vonuðust eftir – og höfðu réttmæta kröfu til. En Arafat hefði mátt vera ljóst að með því að hafna tillögunum algjörlega væri hann kveða upp pólitískan dauðadóm yfir þeim Ísraelum sem tilbúnir voru til að friðmælast. Fór það enda svo að framganga Arafats vakti hörð viðbrögð meðal almennings í Ísrael og lagði grunninn að sigri Sharons. Hófsamari öfl í ísraelskum stjórnmálum máttu sín lítils og í fjöldinn hallaði sér að harðlínumönnunum.

Svo virðist sem Arafat hafi farið í samningaviðræðurnar í Camp David með hugarfarið „allt eða ekkert“. Aldrei í sögunni hefur verið samið um frið þar sem annar aðilinn fær allar sínar kröfur uppfylltar. Slíkir samningar kallast uppgjafarsamningar en ekki friðarsamningar. Arafat hefur kannski verið að hugsa um að síðara kjörtímabil Clintons var að renna út og fráfarandi forseta var mikið í mun að bæta friðarsamkomulagi í Mið-Austurlöndum við „afrekaskrá“ sína. En Clinton kom Arafat ekki til hjálpar.

Hér hefur einungis verið fjallað um ábyrgð Arafats sem samningamanns og leiðtoga þjóðar sinnar. Ekki verður fjölyrt um ábyrgð hans á þeim hryðjuverkum sem kostað hafa hundruð ísraelskra borgara lífið á síðustu vikum og mánuðum. Ekki er hér heldur minnst á ábyrgð Arafats á því að senda börn og ungmenni út á ófriðarsvæðið með skipulegum hætti. Ekki er heldur minnst á samstarf Arafats við hryðjuverkasamtök á borð við Al Aksa, Hizbollah og fleiri.

Mikil ábyrgð fylgir því að vera leiðtogi. Ariel Sharon er ekki leiðtogi heldur ofstopamaður sem hefur þegar valdið meiri skaða en orð fá lýst. En gamli hryðjuverkamaðurinn og friðarverðlaunahafinn Yasser Arafat ber að sama skapi mikla ábyrgð á ástandinu fyrir botni Miðjarðarhafs. Menn skyldu hafa það hugfast þegar þeir tala um frið á svæðinu. Allt bendir til þess að hvorki Sharon né Arafat séu þeim hæfileikum búnir að friðmælast. Friður er því óraunhæft markmið á meðan þessir tveir menn eru í forsvari þjóða sinna.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.