Myndi upptaka evrunnar auka þjóðarframleiðslu um 15%?

Nýbirtar rannsóknir um áhrif myntbandalags á utanríkisviðskipti og þjóðarframleiðslu benda til þess að þjóðarframleiðsla á Íslandi muni aukast um a.m.k. 15% ef við Íslendingar tækjum upp evruna.

Í nýjasta hefti hagfræðitímaritsins Quarterly Journal of Economics birtist grein eftir Jeffrey Frankel (Harvard) og Andrew Rose (Berkeley) um áhrif sameinginlegrar myntar á utanríkisviðskipti og þjóðarframleiðslu. Helstu niðurstöður höfunda eru tvíþættar:

1. Lönd sem nota sama gjaldmiðil eiga þrefalt meiri viðskipti hvert við annað en þau myndu gera ef þau notuðu ekki sama gjaldmiðil.
2. Fyrir hvert prósentustig sem utanríkisviðskipti aukast eykst þjóðarframleiðsla um 0.3%.

Niðurstöður Frankel og Rose eru reyndar nokkuð umdeildar á meðal hagfræðinga þar sem erfitt er að einangra áhrif sameinginlegs gjaldmiðils frá öðrum þáttum sem hafa áhrif á utanríkisviðskipti. En grein þeirra er þó það vel rökstudd að hún fæst birt í einu af virtustu hagfræðitímaritum heims. Það er því vel þess virði að gefa niðurstöðunum nokkurn gaum.

Eitt af því sem Frankel og Rose gera í grein sinni er að birta spá um áhrif evruaðildar, annars vegar, og upptöku Bandaríkjadal, hins vegar, á utanríkisviðskipti og þjóðarframleiðslu fjölda ríkja. Samkvæmt Frankel og Rose myndi þjóðarframleiðsla okkar Íslendinga aukast um 15% ef við tækjum upp evruna og utanríkisviðskipti myndu aukast um 45% af þjóðarframleiðslu (úr 67% í 112%). Bandaríkjadalur er hins vegar mun verri kostur fyrir okkur Íslendinga. Notkun dalsins myndi einungis auka þjóðarframleiðslu hér á landi um 5%.

Samkvæmt Frankel og Rose myndi evruaðild auka þjóðarframleiðslu Breta, Dana og Norðmanna um 20-21% en Svía um 24%. Utanríkisviðskipti þessara ríkja myndu aukast um 60-70% af VÞF. Ef þessi ríki gengu í evruna myndi það gróft á litið tvöfalda hag okkar Íslendinga af því að ganga í evruna hvað utanríkisviðskipti varðar. Á endanum gæti evruaðild því skilað landi og þjóð um 30% aukningu á þjóðarframleiðslu.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.