Hversu óháð eru Dagur og Björk?

Það virðist vera í einhverri tísku í íslenskum stjórnmálum að bjóða sig fram undir þeim formerkjum að vera „óháður“. Þannig tók Björk Vilhelmsdóttir nýverið þátt sem „óháður“ frambjóðandi í prófkjöri Samfylkingarinnar og „óháðra“ en hafði áður verið á framboðslista Reykjavíkurlistans sem fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs. Þá sigldi Dagur nokkur Eggertsson einnig undir þessu flaggi lengi vel eða allt þar til hann hálfpartinn neyddist til að koma út úr „óháða“ skápnum fyrir prófkjör Samfylkingarinnar og „óháðra“ nýverið.

Það virðist vera í einhverri tísku í íslenskum stjórnmálum að bjóða sig fram undir þeim formerkjum að vera „óháður“. Þannig tók Björk Vilhelmsdóttir nýverið þátt sem „óháður“ frambjóðandi í prófkjöri Samfylkingarinnar og „óháðra“ en hafði áður verið á framboðslista Reykjavíkurlistans sem fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs. Þá sigldi Dagur nokkur Eggertsson einnig undir þessu flaggi lengi vel eða allt þar til hann hálfpartinn neyddist til að koma út úr „óháða“ skápnum fyrir prófkjör Samfylkingarinnar og „óháðra“ nýverið.

Auðvitað er það svo að afar æskilegt er að frambjóðendur séu „óháðir“ í tiltekinni merkingu þess orðs. Þeir eiga t.d. að vera „óháðir“ þeim fyrirtækjum og einstaklingum sem styrkja þá peningalega í prófkjörum. Þeir eiga þannig að vera „óháðir“ utanaðkomandi öflum sem vilja hafa áhrif á gerðir þeirra sér til framdráttar á kostnað almannahagsmuna. Í þeim skilningi verða stjórnmálamenn að vera „óháðir“.

Þeir stjórnmálamenn sem bjóða sig fram undir merkjum „óháðra“ hérlendis eru hins vegar ekki beinlínis að gera það í framangreindri merkingu orðsins. Ætlun þeirra er að koma fram sem frambjóðendur utan flokka – „óháðir“ í þeim skilningi að þeir vilja ekki bindast einum flokki umfram aðra. Þannig telja þeir sér trú um að það sé einhver skrautfjöður að skreyta sig með óhæðinu – en eru svo þegar öllu er á botninn hvolft ekki „óháðari“, í þeirri merkingu sem þeir leggja í orðið, en hver annar. Sérstaklega er það ótrúverðugt að vera einn daginn Vinstri grænn og þann næsta orðinn „óháður“ – álíka jafnskjótt og það tekur mann að skipta um nærbuxur.

Auðvitað eru hinir „óháðu“ frambjóðendur ekkert annað en lýðskrumarar í skrípaleik. Þeir eru oftast vinstri menn sem vita ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga á vinstri vængnum – hvort þeir eigi að tilheyra Vinstri grænum eða Samfylkingu. Þeir forðast að taka afstöðu – eru haldnir einhvers konar ákvarðanafælni, eins og íslenskir vinstri menn eiga til – allt þar til þeim er stillt upp við vegg og þeir neyðast til þess. Þannig neyddist Dagur Eggertsson til þess að játa það eftir öll þessi ár sem „óháður“ að hann væri í raun ekkert annað en góður og gegn Samfylkingarmaður. Hvers vegna var þessi fæðing svona erfið?

Dagur Eggertsson og Björk Vilhelmsdóttir hafa nú fundið sína sessi – ótrúverðugu sessi. Dagur er hættur að vera óháður og orðinn Samfylkingarmaður og Björk hætt að vera Vinstri græn og orðin „óháð“ en þó í framboði undir hatti Samfylkingarinnar. Þetta eru atvinnupólitíkusar sem fara þær ótrúverðugu leiðir sem þörf er á til að komast í valdastöður. Tilgangurinn helgar meðalið. Vonandi hræra þau ekki meira í okkur kjósendum, og sjálfum sér, og hafa nú fundið sér sinn endanlega samastað.

Latest posts by Arnar Þór Stefánsson (see all)