Krísan í Kosovo

Allt frá valdatíma Tító yfir Sambandslýðveldi Júgóslavíu hafði héraðið Kosovo töluvert sjálfstæði í eigin málum þrátt fyrir þá staðreynd að í héraðinu eru sagnfræðilega mikilvægir staðir fyrir Serba. Eftir því sem leið á 20. öldina jókst þjóðernishyggja í Serbíu og árið 1998 hófust þjóðernishreinsanir Serba í Kosovo.

Allt frá valdatíma Tító yfir Sambandslýðveldi Júgóslavíu hafði héraðið Kosovo töluvert sjálfstæði í eigin málum þrátt fyrir þá staðreynd að í héraðinu eru sagnfræðilega mikilvægir staðir fyrir Serba. Eftir því sem leið á 20. öldina jókst þjóðernishyggja í Serbíu og af þeim sökum svipti Slobodan Milosevic Kosovo öllu sjálfstæði árið 1989. Á tíunda áratugnum kom síðan upp sú krafa að Kosovo fengi sjálfstæði eða rynni inn í Albaníu. Var KLA, frelsisher Kosovo (e. Kosovo Liberation Army) stofnaður til að ná þeim markmiðum. KLA lenti fljótt í átökum við serbneskar öryggissveitir og urðu átökin sífellt alvarlegri.

Árið 1998 hófust þjóðernishreinsanir Serba í Kosovo. Umheimurinn varð þeirra fyrst var þegar fjöldamorð Serba í Drenica-dalnum hratt af stað gífurlegum flóttamannastraumi til nágrannalandanna. Í október 1998 varð stórsókn Serba inn í landið til þess að 400.000 Kosovo Albanir flúðu heimili sín. Eftir því sem leið á beittu öryggissveitir Serba sífellt meiri grimmd. Í aðgerðum þeirra var varnarlaust gamalt fólk, konur og börn drepin og er til dæmis talið að sveitirnar hafi drepið 1.800 borgara á fyrstu mánuðum ársins 1999. Þegar fréttamenn fundu, í janúar 1999, lík 45 óbreyttra borgara í þorpinu Racak sem höfðu verið brytjaðir niður af öryggissveitunum fóru margir vestrænir ráðamenn að komast á þá skoðun að eina lausnin væri að láta hart mæta hörðu.

Kornið sem fyllti mælinn var þegar upp komst um áætlanir Serba um að fæla 1.7 milljónir Kosovo Albana frá Kosovo inn í nágrannaríkin. Þann 23. mars 1999 tilkynnti NATO Sameinuðu þjóðunum að á síðustu þremur mánuðum hefði 100.000 Kosovo Albanir verið kerfisbundið hraktir frá heimilum sínum og að aðgerðirnar væru að færast í aukana. Það þurfti að bregðast við.

Getuleysi Sameinuðu þjóðanna

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafði, eins og svo oft áður við svipaðar aðstæður, ályktað ítrekað um ástandið í Kosovo. Hafði vopnasölubann verið sett á, Serbar hvattir til að endurskoða pólitískt ástand héraðsins og þess krafist að kúgun á grundvelli þjóðernis væri stöðvuð. Serbar létu þessar ályktanir eins og vind um eyru þjóta og undir lokin hótaði Öryggisráðið Serbum frekari aðgerðum ef þjóðernishreinsanirnar hættu ekki.

Serbar höfðu hins vegar fulla ástæðu til að vera rólegir. Það lá alltaf fyrir að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna myndi aldrei aðhafast í málinu. Rússar myndu beita neitunarvaldi á alla hernaðaríhlutun vegna gamalla tengsla við Serbíu og til að koma í veg fyrir að fordæmi myndaðist sem hægt væri að nota gegn þeim í málefnum Tjetseníu. Kína var í svipuðum sporum og myndi alltaf beita neitunarvaldi til að koma í veg fyrir fordæmi sem hægt væri að nota varðandi Tíbet. Sameinuðu þjóðirnar gerðu því ekkert.

Geta NATO

NATO ákvað hins vegar að láta getuleysi Sameinuðu þjóðanna ekki stöðva sig og hófust loftárásir á víghreiður Serba þann 24. mars 1999 og áttu þær eftir að vara í 78 daga.

Þótt það hafi vissulega verið afar virðingarvert hjá NATO að reyna að stöðva þjóðernishreinsanirnar þá voru menn afar varfærnir. Flugu þotur NATO ekki nema í bestu veðurskilyrðum. Eins héldu þotur NATO sig í 15.000 feta hæð til að missa alveg örugglega ekki einn einasta mann. Þetta varð til þess að loftárásirnar urðu mun óhnitmiðaðri en þær hefðu geta orðið og féllu alla vega 500 saklausir borgarar í þeim.

Í fyrstu skiluðu loftárásirnar afar litlu (aðallega vegna ónákvæmra upplýsingar) en breyting varð á þegar loftárásunum var beint að “efnahagslegum” skotmörkum innan Serbíu. Voru brýr sprengdar sem og raforkuver og sjónvarpsstöðvar. Þessi breytta tækni varð til þess að aðgerðir Serba í Kosovo misstu fljótt stuðning á meðal serbneskrar alþýðu sem fór að þrýsta á stjórnvöld að setjast að samningaborðinu. Fór svo að lokum að Serbar féllust á að semja.

Vopnin kvödd

Þann 9. júní 1999 samþykktu Serbar að yfirgefa Kosovo. Friðarsamningarnir kváðu á um að Kosovo skyldi áfram vera hluti af Júgóslavíu en hins vegar hafa algjört fullveldi. Yrði Kosovo stjórnað af Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna en NATO sjá um löggæslu. Í þeim tilgangi var UNMIK (e. United Nations Interim Administration Mission in Kosovo) 40.000 manna herlið frá 35 löndum sent inn í landið. Ekkert var minnst á stríðsglæpi í samningunum og þurftu íbúar Kosovo að horfa upp á serbnesku stríðsglæpamennina keyra áhyggjulausa aftur inn Serbíu.

Þótt samningarnir hafi tryggt tímabundinn frið í Kosovo er ljóst að íbúar héraðsins geta aldrei verði öruggir meðan þeir eru í sambandi með Serbíu. Einnig gera samningarnir það að verkum að Kosovo er hvorki fugl né fiskur. Þótt héraðið sé með forseta, forsætisráðherra og lýðræðislega kjörið þjóðþing þá eru raunveruleg völd í landinu hjá Sameinuðu þjóðunum. Hinir lýðræðislegu fulltrúar í héraðinu geta því aðeins tekið á þeim smámálum sem UNMIK leyfir þeim að sjá um.

UNMIK hefur jafnframt legið undir harðri gagnrýni fyrir stjórn sína í héraðinu. Hefur sveitunum ekki tekist að koma héraðinu í eðilegt horf, lög og reglu er verulega ábótavant og mannréttindi víða brotinn. Einnig hefur héraðið orðið miðstöð fyrir mansal með konur og hafa starfsmenn Sameinuðu þjóðanna og NATO verið bendlaðir við slíka starfsemi.

Í þessari viku hófust síðan samningaviðræður á milli Serbíu og Kosovo um framtíð héraðsins. Það verður að teljast afar hæpið að þær viðræður muni skila neinu. Kosovo veit að sjálfstæði er það eina sem getur haldið þeim öruggum en Serbar taka það ekki í mál. Það sér því varla fyrir endann á vandamálum héraðsins.

Fordæmi Kosovo

Krísan í Kosovo var fyrir margra hluta sakir athyglisverð. Loftárásir NATO eru eitt skýrasta dæmið um það að reynt hafi verið að beita lagatækni við stríðsaðgerðir. Í aðalstöðvum NATO var her lögfræðinga frá Bretlandi, Frakklandi og Bandaríkjunum sem fóru yfir hvert einasta skotmark til að úrskurða hvort árás á það kynni að brjóta í bága við Genfarsáttmálana.

Afskipti NATO til að stöðva þjóðernishreinsanirnar eru einnig skýrasta dæmið um hernaðarlega íhlutun í “innanríkismál” fullvalda ríkis af mannúðarástæðum (e. Humanitarian Intervention) en réttmæti slíkrar íhlutunar hefur alltaf verið mikið deiluefni meðal alþjóðalögfræðinga. Hratt þetta af stað miklum umræðum og vinnu innan Sameinuðu þjóðanna sem töldu sig hafa brugðist í þessu máli eins og svo mörgum öðrum.

Samþykktu Sameinuðu þjóðirnar ályktun haustið 2005 (e. The 2005 World Summit, High-level Plenary Meeting of the 60th Session of the General Assembly) þar sem flest aðildarríki þeirra viðurkenndu tilvist skyldunnar til að vernda saklausa borgara sem væri verið að ofsækja innan heimalands síns (e. Responsibility to Protect). Nær skyldan til hernaðaríhlutunar eftir að önnur úrræði þrýtur. Þessi viðurkenning flestra ríkja heims á heimild til hernaðaríhlutunar af mannúðarástæðum á vonandi eftir að hafa áhrif á hvort og hversu hratt verður í framtíðinni brugðist við mannréttindabrotum og þjóðernishreinsunum eins og áttu sér stað í Kosovo.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.