Þögnin rofin

Það sem hér um ræðir er auglýsingaherferð sem kemur mörgum ef til vill í opna skjöldu. Auglýsingarnar sýna börn tjá sig um hluti sem vafalaust valda mörgum þó nokkru hugarangri.

Í pistli gærdagsins fór ég yfir í stórum dráttum efni fréttaskýringaþáttarins Kompáss og talaði um að sprengju hefði verið varpað inn í stofur landsmanna. Annarri slíkri hefur nú verið kastað en nú er um að ræða forvarnarverkefni Ungmennafélags Íslands Blátt áfram. Það sem hér um ræðir er auglýsingaherferð sem kemur mörgum ef til vill í opna skjöldu. Auglýsingarnar sýna börn tjá sig um hluti sem vafalaust valda mörgum þó nokkru hugarangri. Börnin eru sýnd tjá sig um kynferðislega hluti og hér fara nokkrar þeirra setninga: „það má enginn fikta við tippið mitt, ég vil ekki að einhver strjúki mér og verði góður við pjölluna mína, nei ekki gera þetta.“

Þessi auglýsingaherferð hófst um helgina og strax hafa heyrst óánægjuraddir. Herferðin ber yfirskriftina Þögnin rofin og í mínum huga er það sannleikurinn. Egill Helgason segir í pistli sínum á vefnum www.visir.is að góðmennskan sé komin út í öfgar. Er það rétt? Eru afleiðingar af þessum auglýsingum þær að börn verði hrædd við snertingu fullorðinna? Ég er ekki á þeirri skoðun. Staðreyndin er sú að á hverjum degi er barn misnotað og hugsanlegt er að þessi herferð hjálpi börnum að opna sig á einhvern hátt. Í mínum huga helgar tilgangurinn hér meðalið.

Kannski er ekki rétt að horfa á þetta út frá barni sem hefur verið beitt ofbeldi. Ef til vill er nauðsyn að líta þetta augum foreldra barnanna sem munu líklega sjá þetta. Foreldranir eiga eftir að þurfa að sitja fyrir svörum um þessi mál, barnið spyr „um hvað er verið að tala mamma?“ eða eitthvað í þá veru og þá verður móðirin standa fyrir svörum. Er það svo slæmt? Er þetta ekki kjörið tækifæri fyrir fjölskylduna til að tala um hætturnar sem búa í þjóðfélaginu?

Í því samfélagi sem við lifum og hrærumst í leynast margar hættur fyrir börn. Við gerum auðvitað okkar besta í uppfræðslunni en það má spyrja sig hvar mörkin liggi, það er að segja um hvað ber að fræða og hvar skal látið kyrrt liggja? Við höfum lagt mikla ábyrgð skólakerfinu á herðar en allt lítur út fyrir að það séu kannski ekki allir að standa undir þessari miklu ábyrgð og því stíga ýmsir aðilar fram og hjálpa til. Um slíka aðstoð snýst verkefnið Blátt áfram, að rjúfa þögnina er kannski einmitt það sem þarf því oft eru það foreldrarnir sem eru hjálparþurfi.

Latest posts by Stefanía Sigurðardóttir (see all)

Stefanía Sigurðardóttir skrifar

Stella hóf að skrifa á Deigluna í nóvember 2004.