Ísland orkunnar



Forsætisráðherra sagði nýlega í ræðustóli á Alþingi að það sé eðlilegt að nýta endurnýjanlegar orkulindir okkar þar sem ,,[..] engar líkur [eru] á öðru en að á næstu áratugum verði skortur á orku í heiminum.”

Það er komið nýtt hljóð í umræðu um nýtingu vatnsafls. Efasemdir um kosti áframhaldandi virkjanaframkvæmda verða sífellt meira áberandi. Sjónarmið sem fleiri og fleiri landsmenn gera að sínu og áhugi á umræðu um stóriðju er að vakna aftur. Hingað til hafa umhverfissinnar verið í broddi fylkingar í gagnrýnni umræðu, en nú er það íslenskt atvinnulíf.

Forsætisráðherra sagði nýlega í ræðustóli á Alþingi að það sé eðlilegt að nýta endurnýjanlegar orkulindir okkar þar sem ,,[..] engar líkur [eru] á öðru en að á næstu áratugum verði skortur á orku í heiminum.”

Gagnrýnendur aukinnar nýtingar vatnsorku benda á að þessi stefna sé að kæfa allan útflutning á hátækni. Alls engin ástæða sé fyrir því að ríkið sé í harðri samkeppni við atvinnulífið um vinnuafl og hægt væri að nýta þessa fjárfestingar í annarskonar nýsköpun sem myndi skapa störf fyrir sífellt menntaðra vinnuafl á Íslandi.

Þó að það sé ekki mjög sannfærandi að virkjun íslenskra fallvatna sé vegna fyrirsjáanlegs skorts á orku, skulum við engu að síður gera ráð fyrir að svo sé. Að við getum gert okkar til að sjá heiminum fyrir orku og þar með haldið í lífsgæði, sem sífellt stærri hluti heimsins venst. En vandamálið er stórt og Ísland er lítið.

Síðastliðið ár hefur verð á orkumörkuðum hækkað nærri stjórnlaust og þó að oftast sé talað um að óvissa í Mið-austurlöndum og fellibylir valdi hækkuninni, er undarliggjandi ástæðan fyrst og fremst að olíulindir heimsins eru að þorna upp. Við notum sífellt meiri olíu. Vitnisburður um það er að núverandi heimsnotkun á olíu 12 milljón tunnum meiri en hún var fyrir tíu árum. Til gamans má geta að þessi aukning er um það bil heildarframleiðsla Sádí-Arabíu og Íran. Mest er aukningin í olíunotkun Kínverja og þó að þeir noti einungis 8% af allri olíu í heiminum á landið heiðurinn af 37% af aukningunni á síðustu fjórum árum.

Það er því óhætt að segja að orkumál er eitt af stóru vandamálunum sem framtíðarkynslóðir eiga eftir að kljást við og við erum nú þegar farin að finna tilfinnanlega fyrir. Þetta er meðal annars ástæðan fyrir því að þjóðir heims leita nú logandi ljósi að öðrum kostum og ástæðan fyrir því að Bandaríkjamenn eru í auknum mæli farnir að leggja áherslu á sparneytni ökutækja.

En svarið við þessu vandamáli liggur því miður ekki í að við Íslendingar framleiðum meiri raforku. Svarið við vaxandi orkuþörf og tómum olíulindum er ekki að finna á hálendi Íslands – því miður. Staðreyndin er nefnilega sú að við framleiðum ekki nema örlítið brot af heildarorkuþörf heimsins og þó að allar ár landsins væru virkjaðar, myndi það litlu breyta til að viðhalda sömu lífsgæðum og við erum vön. Svörin er að finna annarsstaðar.

Því er oft haldið fram á tyllidögum að við Íslendingar sitjum á fjarsjóði af náttúrulegri orku og við séum meðal fremstu þjóða í nýtingu hennar – nýtingu sem hefur aukið lífsgæði og skapað fjölmörg störf fyrir okkur Íslendinga.

Það getur vel verið að við séum framarlega á þessu sviði en það er ekkert sem segir að við getum ekki gert meira. Því ekki að veðja á að framtíðarkynslóðir Íslendinga verði leiðandi í rannsóknum á orkugjöfum eða tækni sem miðar að því að nýta betur þá kosti sem við nú þegar höfum. Sláum þannig tvær flugur í einu höggi. Fjárfestum í framtíðinni og sköpum störf fyrir menntað vinnuafl. Þannig væri hægt að nýta þann auð, sem hefur skapast á mjög skömmum tíma í landinu, til verka sem við getum verið stolt af. Við gætum án efa fengið aðrar þjóðir í lið með okkur með tilheyrandi erlendum fjárfestingum.

Stefna þannig að því að undirstöðuatvinnuvegir okkar verði á sviði hátækni og komandi

kynslóðir vinni við leiðandi rannsóknir.

Stóriðjustefna stjórnvalda gerir því miður ráð fyrir að Íslendingar framtíðarinnar vinni í álverum.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.