49 ára maður leitar að stúlku

Í gærkvöldi varpaði Stöð 2 sprengju inn á heimili fólksins í landinu. Sprengjan var fréttaskýringarþátturinn Kompás. Þessi þáttur kallaði fram nokkur viðbrögð frá pistlahöfundi sem segja ýmist um þáttinn; mig langaði fyrst og fremst að æla, öskra og gráta allt á sama tíma.

Í gærkvöldi varpaði Stöð 2 sprengju inn á heimili fólksins í landinu. Sprengjan var fréttaskýringarþátturinn Kompás. Þessi þáttur kallaði fram nokkur viðbrögð frá pistlahöfundi sem segja ýmist um þáttinn; mig langaði fyrst og fremst að æla, öskra og gráta allt á sama tíma.

Þátturinn fjallaði um menn sem leita á netinu að ungum stúlkum til að komast í samband við. Þeirra markmið eru skýr: að koma ungu stúlkunum í rúmið. Þátturinn var þarfur fyrir umræðuna og sýnir manni margt sem enginn vill trúa.

Auglýsing var sett á netið frá 13 ára stúlku og alls voru 80 karlmenn sem leituðu til hennar. 80 menn sem hefðu einhverjir getað verið afar eða pabbar hennar, allir vildu þeir kynnast henni. Kompás einbeitti sér að þremur mönnum, sem var í raun alger tilviljun, en þeir fylgdust vel með hvað þeir gerðu og svo voru símasamtöl og stefnumót á milli stelpunnar og mannsins. Stöð 2 spurði mennina oftar en einu sinni hvort þeim fyndist í lagi að hún væri bara 13 ára og ekki fermd, þeir svöruðu að það væri í lagi þeirra vegna ef hún vildi það. Einn þeirra spurði jafnframt hvað hún kostaði.

Í þessum þætti var sýnt hvernig menn ná sambandi við svona ungar stelpur og er það víst lítið mál. Þeir fara víst inn á einhverja heimasíðu hjá ungling og þaðan getur hann þrætt í gegnum allar vinasíðurnar og þannig komast þeir í samband við unglingsstúlkur. Aðalvettvangur þeirra er MSN og þar ná þeir að tala við stúlkurnar og fá þær til að tala við sig og treysta sér og á endanum til að fá þær til að hitta sig. Þegar þeir hitta stúlkurnar er ekki aftur snúið því þá er stúlkan komin kannski á stað þar sem erfitt er að kalla á hjálp og hver veit hvað þar getur gerst.

Í þættinum í gær hitti einn maðurinn stúlku og Stöð 2 tók samtalið upp. Maðurinn var ósköp indæll við stúlkuna, spurði hvort henni væri ekki kalt og hvort hún vildi ekki koma bara inn í bílinn, hún kvaðst ekki vilja það heldur vildi bíða smá. Hann spurði hana aftur síðar og hún vildi enn bíða. Eftir smástund þegar hún var búin að spyrja hvort honum fyndist allt í lagi að hún væri bara 13 ára og hann svaraði að aldur væri afstæður. Síðan sagði hún að hún vildi bara fara heim og ákváðu að tala bara saman á MSN seinna og prófa að hittast aftur seinna.

Stúlkan hverfur á brott en í ljós kemur myndavél og fréttamaður og hann spyr manninn hvort þetta væri í fyrsta sinn sem hann gerði svona. Hann sagðist hafa verið að vinna í grein sjálfur og bað Stöð 2 vinsamlegast ekki að eyðileggja þá vinnu sem hann hafi lagt í þetta. Hann gat ekki upplýst fyrir hvaða blað greinin væri eða neitt slíkt.

Í ljósi umræðu síðustu daga um frumvarp Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra um fyrningarfrest, þyngingu refsinga kynferðisbrota og vændi vil ég hnykkja á nokkrum hlutum. Hvers vegna er 14 ára einstaklingur talinn nógu þroskaður til þess að samþykkja kynlíf þrátt fyrir að einstaklingurinn hafi ekki enn öðlast sjálfræði? Ef hugsað er til unglinsáranna eru þetta væntanlega með erfiðari árum ævinnar, mikið hormónaflæði og óvissa hver staða manns er. Maður er ekki barn en samt ekki alveg fullorðin, þú átt að taka ábyrgð en mátt ekki gera hvað sem er.

Hvað gerist þegar 49 ára gamall maður hefur samband við 14 ára stúlku og nær að láta hana treysta sér, fær hana til þess að trúa því að hann vilji henni bara vel, hann biður hana að hitta sig og svo leiðir eitt af öðru, hvar endar það? Jafnvel nær hann henni svo mikið á sitt band að hún segjast vilja ganga alla leið með honum. Þá er ekki um að ræða nauðgun og ekki er hann barnaníðingur. En ég held að við getum öll verið sammála því að það er verið að misnota hana. Hvað er hægt að gera? Ekki neitt nema ef við breytum löggjöfinni.

Ég vil þakka Stöð 2 fyrir frábæran þátt og benda að hægt er að horfa á hann á www.visir.is. Ég vona að hann hafi vakið foreldra og aðra í þjóðfélaginu til umhugsunar að ekki er allt með felldu á litla Íslandi.

Latest posts by Stefanía Sigurðardóttir (see all)

Stefanía Sigurðardóttir skrifar

Stella hóf að skrifa á Deigluna í nóvember 2004.