Reykingar

Á Alþingi liggur nú fyrir nýtt frumvarp heilbrigðisráðherra þar sem lagt er til að reykingar skulu með öllu bannaðar á veitinga- og skemmtistöðum á Íslandi frá og með 1. júní 2007. Miklar deilur hafa verið um þetta frumvarp og gengur afstaða til þess þvert á pólitískar flokkslínur. Deila þingmenn meðal annars um hvort frumvarpið stangist á við eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar og eins um hvort leitað hafi verið til nægilega breiðs hóps hagsmunaaðila við frumvarps smíðina.

Á Alþingi liggur nú fyrir nýtt frumvarp heilbrigðisráðherra þar sem lagt er til að reykingar skulu með öllu bannaðar á veitinga- og skemmtistöðum á Íslandi frá og með 1. júní 2007. Miklar deilur hafa verið um þetta frumvarp og gengur afstaða til þess þvert á pólitískar flokkslínur. Deila þingmenn meðal annars um hvort frumvarpið stangist á við eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar og eins um hvort leitað hafi verið til nægilega breiðs hóps hagsmunaaðila við frumvarps smíðina. Þeir þingmenn sem hafa hvað helst tjáð sig um hið nýja frumvarp eru Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Siv hefur verið helsti talsmaður með frumvarpinu á meðan Sigurður Kári telur frumvarpið fela í sér mikla forræðishyggju, athafnafrelsi einstaklina sé skert auk þess sem hann telur frumvarpið ganga gegn einkaréttarákvæði stjórnarskrárinnar.

Sjónarmið andstæðinga reykingabannsins eru meðal annars þau að eigendur veitinga- og skemmtistaða eigi sjálfir að ráða hvort þeir hafi staðina sína reyklausa eða ekki. Þróunin hafi verið, án afskipta eða þvingunar af hálfu ríkisins, að veitingahús hafi bannað reykingar af sjálfsdáðum til að uppfylla kröfur ákveðins hóps viðskiptamanna. Í dag eru yfir 100 veitingastaðir á Íslandi reyklausir. Þessi þróun sýnir að ekki þurfi að beita afskiptum ríkisins til að koma á reykleysi á veitinga- og skemmtistöðum. Markaðurinn sjái um slíkt.

Í öðru lagi hafa þau sjónarmið verið viðruð að það reykingabann sem frumvarpið boði gangi lengra en í nágrannalöndum okkar. Sé í raun um alfarið reykingabann að ræða á veitingastöðum og í nágrenni veitingastaðanna. Í lögunum nær bannið jafnt til þjónustusvæðis utan húss með sama hætti og þjónusturými innanhúss að því er varðar bann við reykingum en er þá einkum litið til svæða í tengslum við kaffihús og aðra matsölustaði. Eigendum veitingahúsa verður þannig óheimilt að strengja upp tjöld í bakgarðinum þar sem viðskiptavinir geti reykt. Viðskiptavinir veitingastaða munu líklegast ekki geta reykt utanhúss á góðviðrisdögum heldur verður þeim gert að fara utan skilgreinds þjónustusvæðis og reykja þá t.d á gangstétt við hlið veitingastaðarins.

Boðað bann við reykingum á veitinga- og skemmtistöðum hefur verið réttlætt með hliðsjón af vinnuverndarsjónarmiðum. Starfsmenn veitinga- og skemmtistaða hafi rétt á því að vinna í heilbrigðu umhverfi og þar sem vísindalegar sannanir séu fyrir hendi fyrir því að óbeinar reykingar valdi heilsuskaða verði að banna reykingar. Slíkt markmið í sjálfu sér er gott. En spyrja má hvort ekki megi taka undir einhverjar þeirra gagnrýnisradda sem heyrst hafa í garð nýs frumvarps. Sú forræðishyggja sem boðuð er í nýju frumvarpi getur ekki verið eina rétta leiðin til að ná fram þeim markmiðum sem er að finna í frumvarpinu. Hægt er að vernda starfsfólk fyrir óbeinum reyk með því að tryggja að þeir sem það kjósi vinni á reyklausum svæðum, veitingastöðum verði heimilt að bjóða upp á loftræst reykherbergi eða að sérstök útisvæði verði útbúin fyrir þá syndaseli sem kjósi að anda að sér eitruðum reiknum.

Einnig er ljóst að þeir sem háðir eru ávinabindandi efnum sem er að finna í tóbaki munu ekki láta af þeim ávana þótt bannað verði að reykja. Ljóst er að tilgangur laganna er draga almennt úr reykingum, en viðbúið er að neysla á tóbaki muni aðeins breytast en ekki endilega minnka. Í þeim nágrannalöndum þar sem reykingar hafa verið bannaðar eru tóbaksframleiðendur farnir að auglýsa nef- og munntóbak sem valkost fyrir þá sem vilja neyta tóbaks þar sem bannað er að reykja. Neysla tóbaks hefur því færst frá sígarettum yfir í annað tóbak sem ekki gefur frá sér reyk. Er því ljóst að með banninu er í raun ekki verið að draga úr neyslu nikótíns, einungis er verið að stýra henni á aðrar brautir. Þá eru einnig ófyrirséðar afleiðingar bannsins. Hættan á að menn sniðgangi hreinlega bannið er yfirvofandi. Hvernig munu menn haga eftirliti á því að banninu sé framfylgt, og hver verða viðurlögin?

Við alla lagasmíði verður að gæta meðalhófs. Fortakslaust bann við reykingum felur ekki í sér meðalhóf, sérstaklega þar sem aðrar leiðir til að ná fram sama markmiði eru færar. Þær leiðir ber að skoða. Hægt er að ná fram vinnuverndarsjónarmiðum án þess þó að notast við einhliða og skilyrðislaus bannákvæði.

Latest posts by Helga Kristín Auðunsdóttir (see all)

Helga Kristín Auðunsdóttir skrifar

Helga Kristín hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2004.