Handboltalandsliðið á EM

Á fimmtudaginn hefur Íslenska handboltalandsliðið leik á Evrópumótinu sem fram fer í Sviss dagana 26. janúar til 5. febrúar. Væntingar landans hafa verið að byggjast upp jafnt og þétt fyrir mótið samfara hagstæðum úrslitum í aðdraganda mótsins. Þrátt fyrir að leikir helgarinnar við Frakka hafi sjálfsagt slegið eitthvað á væntingarnar er ljóst að gaman verður að fylgjast með liðinu á mótinu.

Talsverðar breytingar hafi orðið á landliðshópnum frá því að Viggó Sigurðsson tók við liðinu. Yngri leikmenn leika stórt hlutverk í liðinu en inn á milli finnast bæði gamalreyndir refir sem og leikmenn sem eru á hátindi ferils síns – hinum svo kallaða “besta aldri”. Á HM hér á Íslandi árið 1995 vour leikmenn eins og Ólafur Stefánsson, Dagur Sigurðsson og Patrekur Jóhannesson í svipuðum hlutverkum og Arnór Atlason, Einar Hólmgeirsson og Snorri Steinn Guðjónsson eru núna.

Árangurinn á HM í Túnis í fyrra olli vonbrigðum meðal margra stuðningsmanna liðsins. Hópurinn sem nú fer á EM er svipaður hópnum sem tók þátt í HM í fyrra. Helsta breytingin er að Dagur Sigurðsson fyrrverandi fyrirliði liðsins er hættur. Hins vegar hefur liðið endurheimt Sigfús Sigurðsson á línuna en líkur á því að Jaliesky Garcia verði orðinn leikfær í tæka tíð eru því miður hverfandi.

Eftir sextán leiki í röð án ósigurs beið landsliðið lægri hlut fyrir Frökkum í tveimur leikjum um helgina. Þrátt fyrir prýðisgóða spretti inn á milli ollu nokkrir þættir í leik liðsins áhyggjum hjá meðalhandboltaspekingnum. Viggó kenndi þreytu um hin fjölmörgu mistök sem leikmönnum urðu á, sérstaklega í sóknarleik liðsins. Það er vonandi að skýringin liggi í því, en þó var ljóst að liðið átti í vandræðum með varnarleik Frakkanna og oft og tíðum kenndi vandræðagangs. Hitt ber þó að minnast á að Frakkar eru sennilega með eitt allra sterkasta handboltalið heimsins í dag og ljóst að íslenska landsliðið þarf að eiga mjög góðan leik til að leggja slíkt lið að velli.

Annað atriði sem veldur áhyggjum, og er reyndar vel þekkt hjá íslenska handboltalandsliðinu, er markvarslan. Eflandsliðið á að eiga möguleika á að komast langt í mótinu þarf stöðuga og góða markvörslu, góðir sprettir duga ekki til. Á HM 1997 þegar landsliðið náði einum sínum besta árangri í sögunni var markvarslan mjög góð. Það er ekki hægt að leyna því að maður horfir öfundaraugum til þeirra þjóða sem virðast alltaf eiga nokkra heimsklassa markmenn á lager sem alltaf verja “sinn skammt” í hverjum leik. Nærtækasta dæmið eru frændur okkar Svíar sem á tímabili léku þann leik að skipta alltaf um markmann í hálfleik óháð hvort sá sem byrjaði leikinn varði vel eða illa. Næsti tók bara við og hélt uppteknum hætti.

Þrátt fyrir úrslitin í leikjum helgarinnar er engin ástæða til annars en að vera vongóður um árangur liðsins á Evrópumótinu. Liðið virðist geta spilað hraða og skemmtilegan handbolta og þétta vörn þegar sá gállinn er á því. Liðið hefur að geyma fjöldan allan af atvinnumönnum sem margir hafa verið að taka stórstígum framförum síðustu misseri. Sextán leikir án taps bera vott um ákveðin styrkleika og stígandi í liðinu. Burtséð frá því þótt sumir þessara leikja hafi verið gegn slakari þjóðum þá eru þarna á meðal leikir gegn þjóðum eins og Svíum, Dönum og Pólverjum.

Einhvern tímann var talað um miklivægi þess að “toppa á réttum tíma”. Hálft í hvoru er maður feginn að liðið fari ekki taplaust inn í mót sem EM þá sérstaklega í ljósi þeirra væntinga sem það skapar og aukinnar pressu sem það hugsanlega setur á liðið. Á hinn bóginn má líka segja að sigur gegn jafnöflugum andstæðingi og Frökkum geti verið gott veganesti og jákvætt fyrir sjálfstraustið. Undirrituðum er hins vegar enn í fersku minni þegar Ísland lagði Sovétríkin í Laugardalshöllinni stuttu fyrir Ólympíuleikana í Seoul 1988. Þetta fyllti landann slíku sjálfstrausti að sigur gegn Sovétríkjunum þegar liðið mættust svo á Ólympíuleikunum sjálfum þótti sjálfsögð krafa. Það gekk hins vegar ekki eftir og við steinlágum með 13 mörkum. Þetta fékk svo mjög á Arnar Björnsson, sem þá starfaði á RÚV og lýsti leiknum, að hann hótaði á einum tímapunkti að hætta að lýsa leiknum ef Íslendingar myndu ekki skora í næstu sókn. Þetta er ef til vill útúr dúr, en sagan er góð.

Ef við leikum okkur að sögulegum staðreyndum þá hefur landsliðið hefur verið að ná frábærum árangri á stórmótum á fimm til sex ára fresti. Sjötta sætið á HM í Sviss 1986, fjórða sætið á Ólympíuleikunum í Barcelona 1992, fimmta sætið á HM í Japan 1997 og fjórða sætið á EM í Svíþjóð 2002. Samkvæmt því ættum við að eiga ágætis von um góðan árangur á einhverju stórmóti á næstu tveimur árum.

Íslenska liðið leikur í riðli með Dönum, Ungverjum og Serbíu/Svartfjallalandi. Möguleikarnir á að komast áfram virðast ágætir þar sem liðin í riðlinum eru talin fremur jöfn að getu. Um leið og ég leyfi mér að spá liðinu sjöunda sæti á mótinu hvet ég landsmenn til að fjölmenna fyrir framan sjónvarpstækin með mysu, slátur og harðfisk og lifa sig inn í leikinn.

Latest posts by Birgir Hrafn Hafsteinsson (see all)