Baráttan við vigtina eða um heilsuna?

Hvernig stendur á því að þegar allir virðast vera í átaki og megrun fer þjóðin samt sem áður fitnandi? Hvernig stendur á því að unga kynslóðin í dag á möguleika á því að vera sú fyrsta sem lætur lífið á undan foreldrum sínum og það vegna sjúkdóma sem tengjast offitu og ofeldi?

Nú þegar aðeins nokkrar vikur eru liðnar af nýju ári eru líkamsræktarstöðvarnar enn á ný orðnar fullar fólki sem hyggjast afmá „syndir“ nýafstaðinna hátíða. Að sama skapi hafa flestir fjölmiðlar verið uppfullir af ýmis konar upplýsingum um megrunarkúra, líkamsrækt og fæðubótarefnum undanfarnar vikur og daga. Svokölluðum átaksbloggurum fer fjölgandi og svo virðist sem meirihluti þjóðarinnar sé í einhverskonar átaki þessa dagana, eins og kannski flesta aðra daga ársins.

Sú vísa virðist aldrei of oft kveðin að til þess að léttast og komast í gott form verði maður að borða hollan og góðan mat og hreyfa sig með. Þetta eru upplýsingar sem legið hafa fyrir í töluvert langan tíma og flestir, ef ekki allir sem hyggjast koma sér í betra líkamlegt form gera sér grein fyrir.

Hljómar mjög einfalt.

Hvernig stendur þá á því þegar allir virðast vera í átaki og megrun fer þjóðin samt sem áður fitnandi? Hvernig stendur á því að unga kynslóðin í dag á möguleika á því að vera sú fyrsta sem lætur lífið á undan foreldrum sínum og það vegna sjúkdóma sem tengjast offitu og ofeldi?

Getur verið að ástæðan fyrir því að við séum of feit sé sú að við séum sífellt í megrun?

Mikið af upplýsingum dynja á okkur á hverjum degi varðandi hvernig á að koma sér í betra form, léttast, grennast og líta betur út. Þessar upplýsingar eru sumar hverjar misvísandi en flestar lúta að því hvaða megrunarkúr sé bestur, þrátt fyrir að stundum sé orðalagið „breyttur lífsstíll“ notaður. Sú aðferð virðist nefnilega enn vera mjög algeng að þegar fólk vill létta sig eða bæta líkamlegt form sitt þá sé svarið að fara í megrun.

Fjölmargir megrunarkúrar eru til og byggjast flestir þeirra á því að fækka umtalsvert innbyrgðum hitaeiningum sem svo leiða til þyngdartaps. Gallinn við slíka megrunarkúra er sá að þeir eru yfirleitt mjög strangir og fólk á því mjög litla möguleika á að halda þá út til lengdar. Þegar kúrnum sleppir byrja flestir að borða „venjulega“ á ný, þ.e falla í sama farið er varðar mataræði. Við megrunarkúrinn hefur líkaminn vanist því að fá færri hitaeiningar en hann er vanur og hefur á megrunar tímanum aðlagast því ástandi. Líkami mannsins er nefnilega þeim frábæra hæfileika gæddur að geta vanist öllu og aðlagast öllu, meira að segja hungursneyð. Líkaminn hefur því hægt á efnastarfsemi sinni, s.k brennslu, við megrunina og safnar því öllum umfram hitaeiningum sem hann fær þegar viðkomandi fer að borða meira á ný. Þetta leiðir svo til þyngdarsöfnunar. Sem getur leitt til vonbrigða og gremju og því er farið í megrun enn á ný.

Svona getur þetta haldið áfram endalaust. En hvað er til ráða?

Undanfar ár hefur viðhorfið til megrunar og megrunarkúra að vísu breyst töluvert og telja flestir lausnina frekar vera að breyta um lífsstíl. En er einhver munur þar á milli? Munurinn á megrun og að breyta um lífsstíl á að felast í því að megrun sé tímabundin aðferð en breyttur lífstíll sé eitthvað sem varir til framtíðar. Hins vegar virðist ástand þjóðarinnar benda til þess að ekki allir geri greinarmun þarna á milli og að þegar fólk telur sig vera að breyta um lífsstíl þá breytist hann ekki til framtíðar heldur fellur fólk stuttu seinna í sama farið. Upplýsingar um hollt mataræði og gildi hóflegrar hreyfingar hafa aldrei verið meiri eða aðgengilegri en samt fer þjóðin fitnandi.

Hvað þá?

Hvernig væri að hætta einblína á kíló og þyngdartap og hugsa frekar um heilsuna í víðara samhengi? Hvernig væri að iðka líkamsrækt af því að við viljum geta leikið við börn okkar og barnabörn án þess að verða uppgefin? Hreyfa okkur til að geta átt gott ævikvöld? Hvernig væri að við borðuðum minna af óhollum mat eins og skyndibitamat, unnum mat, gosdrykkjum og sætindum og meira af ávöxtum, grænmeti, fiski, hvítu kjöti, grófum kornvörum og vatni og það til að bæta heilsuna en ekki bara til þess að létta okkur? Bætt heilsa felst nefnilega í meira en því að vera x mörgum kílóum léttari. Bætt heilsa felst t.d í því að betri svefn, bættri meltingu, betri andlegri líðan og léttari lundu.

Með því að hætta að einblína á megrun og þyngdartap og einblína frekar á bæði andlega og líkamlega vellíðan eru minni líkur á að við grípum til örvæntingrarfullra aðgerða eins og strangra megrunarkúra og þar með eru meiri líkur á vellíðan til langframa. Það eru jú ekki línurnar sem skipta öllu máli heldur það sem þessar línur afmarka. Hugsum um líkamann okkar. Hugsum um heilsuna. Alla ævi!

Latest posts by Ingunn Guðbrandsdóttir (see all)