Hvernig launar maður ofurhetju?

Launakjör forstjóra á Íslandi hefur verið nokkuð í umræðunni og fólk veltir því fyrir sér hvort þróun launa þeirra sé í algeru ósamræmi við nokkuð annað í samfélaginu. Það er stundum nefnt að þetta sé í samræmi við þróun í öðrum löndum (eins og Bandaríkjunum). Þar í landi er þó engin sátt um þessi mál

Viðskiptablað Morgunblaðsins fjallaði stuttri frétt í dag um hvernig eitt af helstu málum formanns fjármálaeftirlitsins þessa daganna væri eftirlit með launum forstjóra. Ástæðan fyrir áhuga í Bandaríkjunum á launakjörum þessarar stéttar er meðal annars eftirfarandi þróun:

Árið 1980 þá voru laun forstjóra 42föld laun almenns verkamanns*. Árið 2004 þá voru laun forstjóra orðin 431föld laun almenns verkamann. Bilið hefur þannig tífaldast og hélt reyndar áfram að aukast á árinu 2005*.

Þegar menn reyna að skilja hugarfar almennings í Bandaríkjunum í þessu máli þá er kannski rétt að aðgreina ákveðið atriði. Í Bandaríkjunum þykir mjög eðlilegt og rétt að fólk sem hefur tekið áhættu, t.d. stofnað fyrirtæki eða fjárfest í áhættusömum fjárfestingum geti uppskorið ríkulega. Það er í stuttu máli Ameríski draumurinn.

Það gildir hins vegar annað þegar aðilinn sem er að uppskera svona ríkulega er talinn hafa gert það án þess að hafa í raun unnið sérstaklega fyrir henni.

Þannig hafa laun forstjóra hækkað bæði þegar fyrirtæki hafa verið rekin með hagnaði og einnig þegar þau hafa verið rekin með tapi. Með öðrum orðum forstjórar lélegra, illa rekinna fyrirtækja hafa líka verið að stórhækka í launum.

Rökin með háum launum forstjóra eru fyrst þau að þetta sé einfaldlega markaðsverð. Svona starfsmaður kosti einfaldlega svona mikið. Einnig er nefnt að hér sé um að ræða stétt sem vinni mjög erfitt, flókið starf við mjög erfið starfsskilyrði og búi við lítið starfsöryggi.

Starfsöryggið eru reyndar ágætisrök í þessu samhengi en flestir hafa ágætis starfslokasamninga í ráðningarsamningum sínum og einnig útskýrir þetta ekki hver ástæða er fyrir áðurnefndri tíföldun á launabili, nema hér sé um leiðréttingu að ræða (það hefur sem sagt alltaf verið 400 sinnum erfiðara að vera forstjóri en almennur starfsmaður) sem verður þó að teljast hæpin útskýring.

Sumt (leiðinlegt) fólk myndi kannski stinga upp á því að eina leiðin til þess að laga þetta mál sé að setja hámarkslaun á forstjóra en slíkt er jafnvitlaus og flestar aðrar hugmyndir um hámarksverð á frjálsan markað.

Skuldinni ber að skella á veikar stjórnir fyrirtækja sem samþykkja nær hvað sem er þegar rætt er um kjör forstjóra.

Skoðun greinarhöfundar er sú að meginástæðan fyrir þessari þróun sé ákveðin trú á ofur-forstjóra. Það er að segja sú hugmynd að til séu forstjórar sem hafi hæfileika langt umfram aðra og geti einir síns liðs ráðið örlögum fyrirtækja sem þeir stjórna.

Þessi hugmynd er frekar nýleg. Um miðja síðustu öld þá vissu fæstir bandaríkjamenn hver stjórnaði General Motors (Alfred P. Sloan) þó þetta væri eitt stærsta og dáðasta fyrirtæki tímabilsins.

Það var í kjölfarið á uppgangi Lee Iacoca hjá Ford og síðar Chrystler um 1980 sem fólk byrjaði að líta á forstjóra sem þá aðila sem gátu staðið einir og sér fyrir geysilegum uppgangi fyrirtækja. Iacoca var stöðugt í fjölmiðlum og hlaut mikla athygli hvar sem hann fór og var mikið hvattur til þess að fara í forsetaframboð (hljómar kunnuglega).

Stjórnir fyrirtækja sitja undir mikilli pressu frá hluthöfum um að skila árangri. Í endalausri óvissu viðskiptaheimsins þá náði sú trú fótfestu að besta leiðin til að tryggja góðan árangur væri að ná sér í “ofurmenni”. Ef menn vildu landa slíku kraftaverkafólki þá þurfti að borga fyrir uppsett verð. Þetta viðmót hefur verið samþykkt í 25 ár með stjórnlausri hækkun launa forstjóra stærstu fyrirtækja Bandaríkjanna.

Þegar litið er til baka þá kom í ljós að tilvist ofurforstjóra tryggði fyrirtækjum (auðvitað) ekki framúrskarandi árangur. Menn sem fóru á forsíður viðskiptablaðanna fyrir snilld eitt árið var sagt upp tveimur árum síðan fyrir ótrúlega lélegar ákvarðanir (að mati sömu viðskiptablaða).

Staðreyndin er sú að hér er auðvitað bara um að ræða fólk sem er alveg jafn gjarnt á að gera mistök og annað. Að sjálfsögðu er nær alltaf um mjög hæfa einstaklinga að ræða. Það er hinsvegar allþekkt að forstjórar sem eru á forsíðum blaða eitt árið og taldir til hálfguða eiga það til að vera skammaðir fyrir ótrúlega vitleysu árið eftir og reknir með skömm.

Það er alveg á hreinu að forstjórastarf er erfitt, tímafrekt og krefjandi starf. Það er einnig á hreinu að til þess að hafa hæfileikafólk í slíkum störfum þá þarf að borga fyrir það sanngjörn laun. Það er hins vegar alveg fráleitt að eina fólkið sem er nægilega hæfileikaríkt til að sinna slíkum störfum muni einungis vinna fyrir fjögurhundruðföld laun almenns starfsmanns.

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.