Misráðið frumvarp um afturköllun úrskurðar Kjaradóms

Frumvarp til laga, sem lagt hefur verið fram af fjármálaráðherra á Alþingi, og afnema á úrskurð kjaradóms er misráðið sem lausn á þeim deilum sem geisað hafa í þjóðfélaginu síðan Kjaradómur ákvarðaði laun æðstu embættismanna ríkisins, alþingismanna og ráðherra á aðventunni.

Frumvarp til laga, sem lagt hefur verið fram af fjármálaráðherra á Alþingi, og afnema á úrskurð kjaradóms er misráðið sem lausn á þeim deilum sem geisað hafa í þjóðfélaginu síðan Kjaradómur ákvarðaði laun æðstu embættismanna ríkisins, alþingismanna og ráðherra á aðventunni.

Við fyrstu sýn virðist að frumvarpið brjóti í bága við stjórnarskrá á þrjá vegu.Í fyrsta lagi við það ákvæði, að kjörum forseta verði ekki breytt á kjörtímabili hans, í annan stað virðist frumvarpið vera andstætt grunnreglu stjórnskipunarinnar um þrískiptinu ríkisvalds og sjálfstæði dómsvaldsins og að lokum brýtur það gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrár þar sem þeir sem falla undir kjaradóm eru sviptir þeim launahækkunum sem áður hafa verið ákveðnar lögum samkvæmt, bótalaust.

Án þess að farið sé nánar út í lagaleg sjónarmið sem að baki ofangreindu býr, er það ófært að samþykkt verði á Alþingi-í miklum flýti-frumvarp sem mjög líklega stangast á við tvær efnisreglur stjórnarskrár, og eina meginreglu stjórnskipunar þ.e. sjálfstæði dómsvaldsins og þrískiptingu ríkisvalds. Slík er einfaldlega hvorki þinginu né löghlýðnum borgurunum samboðið.

Vissulega hafar deilur magnast varðandi efni úrskurðar Kjaradóms og sýnist mörgum að hækkun hans sé út úr takti við kjaraþróun á almennum vinnumarkaði þar á meðal forvígismönnum launþegahreyfingarinnar. Það að auki hafa margir viðrað þá skoðun á fyrirkomulag við ákvörðun kaups og kjara með Kjaradómi sé úrelt og það beri að afleggja. Til þess verður ekki tekin hér afstaða, enda er hún óskyld því sem hér er haldið fram.

En framlagning frumvarpsins virkar hins vegar sem friðarpípa fyrir þá sem harðast hafa deilt og skorað hafa hvað mest á ríkisstjórn að afnema þessar hækkanir með lögum.

En þrátt fyrir að stjórnmálamenn telji lausnina í lagafrumvarpinu góða, er hún í raun og veru ekkert annað en pólitísk lausn í sem lítur fram hjá og er beinlínis í andstöðu við stjórnarskrá. Hið rétta í málinu væri því að láta úrskurðinn standa og breyta til framtíðar hvernig launamálum sé skipað-og þá með eða án Kjaradóms.

Lausnin er ekki og getur ekki verið fólgin í því að ganga á svig við ákvæði stjórnarskrár og á lögvörðum réttindum þeirra sem undir Kjaradóm falla.

Það fordæmi sem sett er með ofangreindu frumvarpi er ekki til eftirbreytni og með því er fórnað meginreglum og hagsmunum sem margfalt eru meiri, heldur en umdeilanleg launahækkun, sem veitt er í eitt skipti, gerir.

Latest posts by Ari Karlsson (see all)

Ari Karlsson skrifar

Ari hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2005.