Vinstri eða hægri

Ákveðin vinstrislagsíða einkennir hið pólitíska landslag í S-Ameríku, allt frá einhörðum sósíalistum (Venesúela og Bólivía) yfir í hófsamari öfl sem eru fylgjandi frjálsum markaði (Chile og Brasilía).

Á þessu ári verða kosningar í níu ríkjum í S-Ameríku en kosningar hafa nýlega farið fram í þremur ríkjum. Kosningar munu eða hafa nýlega verið haldnar í sjö af átta fjölmennustu ríkjum álfunnar, Brasilíu, Mexíkó, Colombíu, Perú, Venesúela, Chile og Ecuador.

Ákveðin vinstrislagsíða einkennir hið pólitíska landslag í S-Ameríku, allt frá einhörðum sósíalistum (Venesúela og Bólivía) yfir í hófsamari öfl sem eru fylgjandi frjálsum markaði (Chile og Brasilía).

Það þarf kannski engan að furða að S-Ameríkubúar hafi snúið sér til vinstri eftir að hægrisveifla á níunda áratugnum olli miklum vonbrigðum. Einkavæðing og frjálshyggja var kjörorð níunda áratugarins en enn í dag eru um 220 milljónir íbúa álfunnar fátækar af 550 milljónum. Þar af 100 milljónir sem eru mjög fátækar og lifa á innan við einum dollara á dag. Þjóðarframleiðsla á mann hefur staðið í stað eða vaxið mjög hægt í 20 ár. Vandamál álfunnar eru fjölmörg svo sem gríðarleg misskipting auðs, spilling, ábyrgðarleysi stjórnvalda og félagsleg vandamál sem tengjast fátækt. Í Brasilíu deyja, svo dæmi sé tekið, um 100 manns á dag fyrir skotvopni, sem er meira en á mörgum átakasvæðum. Í Sao Paulo er ein hæsta þyrlueign í heimi miðað við höfðatölu þar sem hinir ríku ferðast gjarnan í lofti til að forðast fátæktrarhverfin.

Vinstrislagsíðan takmarkast því miður ekki við hófsama vinstrimenn heldur stendur einn áhrifamesti maður álfunnar, Hugo Chavez forseti Venesúela, fyrir sósíalískri byltingu eins og hann orðar það sjálfur. Chavez nýtur stuðnings fjölmargra landa sinna en hvort hann nýtur stuðnings meirihluta landsmanna er umdeilt. En áhrif hans teygja sig út fyrir landssteinana. Í nýafstöðnum kosningum í Bólívíu beitti hans sér kröftuglega fyrir kosningu Evo Morales, fyrrum forsprakka kókaínbænda. Evo Morales þakkaði Chavez og Castro fyrir stuðninginn eftir kosningasigur í Bólivíu. Þá hefur Chavez nýlega hafið afskipti af kosningum í Perú þar sem hann hefur lýst yfir eindregnum stuðningi við Ollanta Humala þjóðernissinna og fyrrum herforingja og gert lítið úr öðrum frambjóðendum. Humala virðist nú einna fremstur í slagnum í Perú en kosningar fara þar fram í apríl. Sennilegt þykir að Chavez muni reyna að hafa áhrif á kosningar í Ecuador og Mexíkó næst.

Nýlegt dæmi um stjórnunarhætti Chavez er að settar hafa verið verðhömlur á kaffiframleiðendur, þannig að þeir verða að selja kaffi á ákveðnu verði, sem þeir segjast ekki geta staðið undir. Afleiðingin er að sjálfsögðu kaffiskortur. Við þessu hefur Chavez einfalt svar og hefur hann hótað því að ríkið taki yfir kaffiframleiðslu svo þegnarnir fái kaffi á „sanngjörnu verði“.

Gríðarlegar olíulindir og hátt olíuverð gera Chavez kleift að reka sósíalíska byltingu í sínu eigin landi og veita öðrum ríkjum í S-Ameríku fjárhagslegan og móralskan stuðning. En pólitísk og efnahagsleg stefna í anda Castró og Chavez er sennilega ekki það sem S-Ameríka þarf á að halda þó þörfin fyrir breytingu sé mikil.

Latest posts by Katrín Helga Hallgrímsdóttir (see all)

Katrín Helga Hallgrímsdóttir skrifar

Katrín Helga hóf að skrifa á Deigluna í október 2003.