Fötin skapa manninn

Í gær birtist frétt hér á Deiglunni um að eitt af stefnumálum Björns Inga Hrafnssonar sé að taka upp skólabúninga í grunnskólum í Reykjavíkur. Björn vill að skólastjórnendur og samtök foreldra taki ákvörðun fyrir hvern skóla fyrir sig, en Reykjavíkurborg taki þátt í kostnaði við skólabúninga hjá þeim sem þess óska.

Í gær birtist frétt hér á Deiglunni um að eitt af stefnumálum Björns Inga Hrafnssonar sé að taka upp skólabúninga í grunnskólum í Reykjavíkur. Björn vill að skólastjórnendur og samtök foreldra taki ákvörðun fyrir hvern skóla fyrir sig, en Reykjavíkurborg taki þátt í kostnaði við skólabúninga hjá þeim sem þess óska. Hvergi kemur fram hver skuli borga restina né hvort búningarnir séu fullbúnir þ.e.a.s. úlpa og aðrir hlutir sem þurfa að fylgja ef skólabúningar eigi að vera á Íslandi. Rök Björns Inga fyrir þessari breytingu eru ,,einelti vegna efnamunar má ekki viðgangast og í skólanum eiga allir að vera á jafnréttisgrundvelli”.

Það verður að taka undir þau sjónarmið Björns um að einelti vegna efnamuna megi ekki viðgangast en ætti setningin ekki að hljóma á þess leið: Einelti má ekki viðgangast í skólum borgarinnar? Einelti er margþætt vandamál sem enginn losnar við með því að fjarlæga eina breytu út jöfnunni. Það eru einfaldlega engar slíkar töfralausnir fyrir hendi. Til þess að leysa vandamálið þarf að horfast í augu við það og finna hvað það er sem liggur á bak við. Ég er sannfærð um að það að setja öll börn í skólabúninga leysi ekki vandann því útlit virðist ekki skipta miklu máli þegar um einelti er að ræða.

Flest fórnarlömb eineltis eru frekar viðkvæm börn eða unglingar. Þau sýna oft meiri ótta en önnur börn við erfiðar félagslegar aðstæður og bresta auðveldlega í grát þegar þau verða fyrir mótlæti.Væri ekki betra að hjálpa þessum börnum heldur en að eyða peningum í skólabúninga? Fræðsla til barna er besta varnartæki sem hægt er að beita til að sporna við einelti en það er því miður enn af skornum skammti. Ég tel að við megum gera mun betur en hefur verið gert í þessum málum og byrja fyrr að sporna við þessu mikla vandamáli. Lausnin er svo sannarlega ekki að setja börnin í eins föt.

Í þessari umræðu má ekki gleyma að með því að setja alla í sömu fötin þá ertu að taka í burtu mikið persónueinkenni. Oft er fatnaður ein leið til að tjá sig og á sama hátt getur fatnaður verið skapandi. Þess vegna er mikilvægt að svipta börn ekki því frelsi að tjá sig á þennan hátt. Til dæmis má nefna að á kynþroskaárunum fer einstaklingurinn í gegnum erfitt og mikið ferli til að finna hver hann sé og það að láta öll börn vera eins klædd gerir ferlið enn erfiðara.

Björn Ingi hefur greinilega ekki hugsað þessa hugmynd sína í þaula því þetta er líklegra mun kostnaðarsamara en hann gerir sér grein fyrir og hver mun bera kostnaðinn? Borgin tekur eitthvern þátt en hvað svo? Þurfa foreldrarnir að borga eða skólinn? Hvernig sem á málið er litið mun þetta þýða meiri pening úr borgarsjóði.

Væri ekki betra að hjálpa þeim sem eiga um sárt að binda og eyða peningum í fræðslu til barna og reyna að útrýma einelti?

Latest posts by Stefanía Sigurðardóttir (see all)

Stefanía Sigurðardóttir skrifar

Stella hóf að skrifa á Deigluna í nóvember 2004.