Innantómt skrum

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti, ávarpaði þegna sína venju samkvæmt á nýársdag. Boðskapur forsetans var margþættur en mestan þunga lagði hann á að bæta kjör aldraðra í íslensku samfélagi.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti, ávarpaði þegna sína venju samkvæmt á nýársdag. Boðskapur forsetans var margþættur en mestan þunga lagði hann á að bæta kjör aldraðra í íslensku samfélagi.

Ljóst er að ákveðnir hópar aldraðra hafa ekki úr miklu spila og kjör þeirra mættu vera betri. Því miður hefur verið búið svo um hnútana í okkar velferðarkerfi að öldruðum er í flestum tilvikum ómögulegt að sjá sjálfum sér farborða vegna tekjuteningingar lífeyrisgreiðslna. Eftirlaunaaldur miðast við 67 ár en þá eru flestir Íslendinga enn við góða heilsu. Þeir sem hafa heilsu og vilja til að halda áfram störfum þurfa hins vegar að sæta því að tekjur þeirra skerðast og þeim er gert ómögulegt að bæta kjör sín.

Nú um áramótin varð breyting til batnaðar á kjörum stórs hóps eldri borgara með niðurfellingu eignarskatts, en þar er um verulega kjarabót að ræða við eldri borgara sem varið hafa ævinni í að eignast húsnæði og aðrar eignir og hafa heilsu til að búa í eigin húsnæði. Fleiri slík skref mætti taka til að bæta kjör og aðbúnað þeirra sem eldri eru.

Það mætti einnig auka skilvirkni og valfrelsi eldri borgara sem þurfa á umönnun að halda ef losað yrði um visna hönd ríkisins á heilbrigðiskerfinu. Með auknum einkarekstri myndu þeir miklu fjármunir sem renna í þennan málaflokk nýtast betur, aðbúnaður yrði betri og hægt að bjóða starfsfólki betri kjör og bæta þar með þjónustuna.

Það er hárrétt hjá forseta Íslands að „[a]fkoma og aðbúnaður aldraðra þarf að færast einna fremst í forgangsröð og ef einhverjum vex í augum fjárþörfin á þessu sviði þá er hollt að minnast þess að ævin líður undra hratt og fljótt kemur að okkur sjálfum.“

Það ber að fara vel með opinbert fé, fé sem innheimt er með skattheimtu af vinnandi fólki í landinu. Í fyrsta lagi ber auðvitað heimta eins lítið fé af fólkinu og kostur er og í öðru lagi ber að nýta þá fjármuni með göfugum hætti i þágu þeirra sem höllum fæti standa.

Þess vegna er það kaldhæðnislegt að sá Íslendingur sem einna fremstur allra hefur farið í því að sólunda opinberu fé, skuli nú slá sér upp á því tala um að afkoma og aðbúnaður aldraðra þurfi að færast einna fremst í forgangsröðina.

Alræmd er óstjórn Ólafs Ragnar Grímssonar á fjármálum ríkisins þegar hann gegndi embætti fjármálaráðherra árin 1988 til 1991. Gekk hann manna lengst í skattheimtu og hækkaði skatthlutfallið nær stöðugt þann tíma sem hann fór með umsjón ríkisfjármála. Ljóst er að margir þeirra sem nú njóta gæsku forsetans á Bessastöðum hefðu meira milli handanna ef þeir hefðu ekki mátt þola þessa miklu ásælni ríkisins í launaumslagið þeirra.

Þá er einnig ljóst að hægt hefði verið að bæta verulega aðbúnað á heilbrigðisstofnunum fyrir þá tugi milljarða króna sem fóru í að greiða niður erlendar skuldir sem vinstristjórn Ólafs Ragnars og félaga átti stærstan þátt í að safna.

Þá skal á það minnt, nú þegar forsetinn talar um að það vaxi einhverjum í augum fjárþörfin á þessu sviði, að víða er pottur brotinn í ríkisrekstrinum. Sums staðar er svo farið að fjármunum er sameiginlegum sjóðum er eytt, jafnvel heimildarlaust. Sum embætti eru þannig rekin að þar er peningum skattgreiðenda eytt, án þess að kjörnir fulltrúar hafi gefið viðkomandi embættismanni til þess heimild. Forsetaembættið hefur farið fram úr fjárheimildum sínum nær öll árin sem Ólafur Ragnar hefur gegnt embætti, eins og sjá má í ríkisreikningum fyrir árin 1996 til 2004. „Útgjöld embættis forseta Íslands hafa á síðustu þremur árum verið talsvert umfram fjárheimildir og er svo komið að í árslok 2004 var ráðstöfun umfram fjárheimildir 84,6 m.kr.“ segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá því í fyrra.

Höfum það í huga, nú þegar forsetinn kemur fram sem hvítþveginn engill í þjónustu lítilmagnans, að hann sjálfur fer fremstur þeirra sem fara illa með opinbert fé, fé sem nýta mætti til að bæta afkomu og aðbúnað aldraðra. Útgjöld til forsetaembættisins hafa rúmlega þrefaldast frá því að Ólafur Ragnar Grímsson tók við búi á Bessastöðum. Árið 1996 var í fjárlögum gert ráð fyrir að embættið hefði rúmar 53 milljónir króna til ráðstöfunar. Í fjárlögum ársins 2006 er gert ráð fyrir að útgjöld embættisins verði 177 milljónir króna, sem þýðir að útgjöld þess hafa í tíð Ólafs Ragnars aukist um ríflega 230%.

Það er auðvitað innantómt skrum þegar maður, sem eyðir árlega hundruðum milljóna króna af peningum skattgreiðenda í tildur og prjál í kringum sig og sína, þykist þess umkominn að vanda um fyrir öðrum um ráðstöfun sameiginlegra fjármuna landsmanna. Hefði Ólafur Ragnar fylgt fordæmi forvera sinna á forsetastóli og lagt áherslu á virðingu, hógværð og látleysi þessa tignarembættis í stað þess að sökkva því í glamúr og sýndarmennsku, þá hefðu tilvitnuð orð hans um að bæta afkomu og aðbúnað aldraðra hugsanlega haft eitthvert vægi.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.