Ritskoðun?

Hún er afskaplega kjánaleg, tilkynningin sem Fréttablaðið hefur kosið að birta á síðu 2 undanfarnar vikur. Þar er sagt frá því að vegna lögbanns sem sett hefur verið á birtingar tölvupósts Jónínu Ben. geti blaðið ekki fjallað um þau mál eins vel og það hefði kosið. Þessi tilkynning er birt undir fyrirsögninni „Ritskoðun“.

Hún er afskaplega kjánaleg, tilkynningin sem Fréttablaðið hefur kosið að birta á síðu 2 undanfarnar vikur. Þar er sagt frá því að vegna lögbanns sem sett hefur verið á birtingar tölvupósts Jónínu Ben. geti blaðið ekki fjallað um þau mál eins vel og það hefði kosið. Þessi tilkynning er birt undir fyrirsögninni „Ritskoðun“.

Pistlahöfundur þekkir það vel hvernig ýmsar reglur réttarríkisins geta heft sköpunargleðina. Málfrelsi er, eftir allt saman, rétturinn til að segja það sem manni finnst og sá réttur er víða brotinn. Tökum nokkur dæmi:

Fátt er meira fullnægjandi fyrir pistlahöfund en að gera hneyksli opinbert. Til dæmis gæti ég birt frétt hér á Deiglunni um það dóp- og kynsvall væri stundað í gríð og erg á ritstjórnarskrifstofum Fréttablaðsins. Jafnvel að ritstjórn blaðsins leikstýrði þar svæsnum klámmyndum sem fréttamenn blaðsins og fastir dálkahöfundar léku í. Vandinn við þessa opinberun væri að pistlahöfundur gæti verið kærður fyrir meiðyrði og mundi líklegast tapa málinu (enda, ja, uppspuni frá upphafi til enda). Ritskoðun!

Önnur leið væri hægt að brjótast inn á heimili frægra einstaklinga og taka myndir af þeim sofandi og selja til slúðurblaðanna. Líklegast mundi þetta þó þykja brot á friðhelgi einkalífsins og almennum hegningarlögum. En á almenningur ekki rétt á að vita hverjir sofa naktir og hverjir ekki? Jú, auðvitað! Þetta eru fyrirmyndir barnanna okkar! Ritskoðun!

Oft gefst ekki langur tími til að skrifa pistil eða frétt. Ein hugmynd væri þá að fara á Múrinn, afrita grein þaðan, skipta á orðunum „fríverlsun“ og „alþýða“ og birta undir eigin nafni. Og sumar greinar á Andríki eru jafnvel þannig að gaman væri að gera þær að sínum. En það má ekki! Væri víst kallað ritstuldur! En er það pistlahöfundi að kenna að aðrir menn hafa orðið fyrri til að tjá eitthvað með nákvæmlega þeim orðum sem hann sjálfur hefði viljað nota? Nei, auðvitað ekki! Ritskoðun! Ritskoðun!

Nei, með fullri alvöru! Það hafa verið til ríki og eru enn, þar sem opinberir starfsmenn lesa yfir allt sem birtist á prenti og fangelsa menn og jafnvel drepa fyrir ummæli sem stjórnvöldum þóknast illa. En Ísland er ekki eitt þeirra ríkja. Að fólk geti kært hvort annað fyrir ummæli sem það telur meiðandi eða ólögleg hefur ekkert með ritskoðun að gera.

Það er Fréttablaðinu í sjálfu sér í sjálfvald sett hve lengi það kýs að minna lesendur sína á dómsmál sem það hefur tapað. En þrátt fyrir að það bæti hugsanlega stemninguna á Fréttablaðinu að minna starfsmenn sífellt á hve kúgaðir þeir eru, eru slíkar daglegar áminningar um „ritskoðun“ kjánalegar og þreytandi fyrir lesendur. Vissulega er þessi fyrirsögn flottari en ef þar stæði „Lögbann“ eða „Fréttablaðið kært“, en hún verður ekkert réttari fyrir vikið.

Fréttablaðið ætti einfaldlega að hætta þessu daglegu stælum sínum og snúa sér að öðru. Þeir getur notað dómskerfið til að skera út um hvort þau bréfaskrif sem blaðið komst yfir eigi erindi til almennings. En þeir eiga hlífa okkur lesendum fyrir daglegum tilkynningum um meinta allsherjarkúgun Fréttablaðsins. Sjálfsvorkun er nefnilega ekkert sérstaklega heillandi eiginleiki. Hvorki hjá fréttamönnum né öðrum.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.