Táningafælan

Hvaða verslunareiganda dreymir ekki um tæki sem fælir frá eirðarlausan krakkaskarann sem safnast iðulega fyrir framan verslunina hans en veldur ekki nokkru áreiti fyrir kúnnana?

Eitt helsta vandamál margra verslunareiganda vill reynast vera skari af eirðarlausum krökkum og unglingum sem oft vill safnast saman fyrir framan verslun hans. Blessuð ungmennin eiga það til að fæla í burtu viðskiptavini sem vill ekki eiga á hættu að verða fyrir áreiti eða hvers konar ónotum sem oft fylgir athyglissjúkum unglingum. Hvaða verslunareigandi í Kringlunni eða Smáralind óskar sér ekki tækis sem tekur af honum ómakið við að sussa í burtu krakkaskarann?

Nútímatæknin virðist ætla að koma hinum langþreyttu verslunareigendur til hjálpar í þessum sem svo mörgu öðru. Á markaðinn er að koma tæki sem miðar einungis að því að fæla frá unglinga. Það nær þessu markmiði sínu með því að gefa frá sér tón með tíðni sem er rétt nægilega há til að skapa óþægindi hjá flestum þeim sem eru yngri en 20 ára en greinist sjaldan hjá fólki sem er komið yfir þrítugt. Uppfinningamaðurinn kýs að nefna tækið sitt moskítófluguna eða The Mosquito.

Hugmyndin kviknaði hjá Howard Stapleton þegar hann heimsótti verksmiðju föður sína í árdaga og komst að því að hann heyrði ónotlalegt hátíðnihljóð í suðuherbergi einu í verksmiðjunni sem starfsmennirnir námu greinilega ekki. Hljóðið skapaði alltaf ónot hjá honum og hann þoldi einungis við í stuttan tíma.

Nú, kvartöld síðar, er tækið er rétt að slíta barnsskónum og hefur verið notað til prófunar í anddyri SPAR verslunar í heimabæ Stapleton í Wales. Með undraverðum árangri. Verslunareigandinn lýsti því hvernig krakkaskarinn – sem ósjaldan safnaðist saman fyrir framan anddyrið – dreifist og hvarf rétt eins og ef hann hefði úðað á skarann með ‘unglingaeyði’ í fyrsta skiptið þegar tækið var prófað. Hann hefur aldrei brosað jafnbreitt eins og eftir að nýja tækið var tekið í notkun.

Hinn 39 ára gamli Stapleton er orðinn landsþekktur á Bretlandi fyrir þessa uppfinningu sína og honum berast ótal fyrirspurnir og pantanir. Ýmsir hafa vantrú á tæki sem þessu, einkum þar sem tíðnisvið mannseyrans skerðist mishratt eftir einstaklingum og muni því hafa meira skaðleg áhrif á viðskiptin en hitt. En Stapleton bendir á að hljóðið frá tækinu fari ekki að vekja ónot fyrr en eftir rúma mínútu í hlustun og að það taki langflesta sem eigi virkilegt erindi í verslanirnar skemmri tíma að fara inn.

Það verður því forvitnilegt að fylgjast með því hvernig moskítóflugunni reiðir af í náinni framtíð. Hver veit nema maður fari að sjá íslenska verslunareigendur uppi í stiga hengjandi upp moskítóflugur við anddyri verslana hér á landi í þeirri von að fæla frá eirðarlaus unglingagengi. Maður vonar nú meira að þess gerist ekki þörf og að menn uppræti vandamálið öðruvísi, enda er það ekki svo að unglingengin hverfi af yfirborði jarðar með aðstoð moskítóflugunnar. Vandinn færist einfaldlega til og einhverjir en úrræðagóðir verslunareigendur þurfa að gjalda fyrir eirðarlausa æsku.

Táningafælan fæst bráðlega hjá Völundi.

Helstu heimildir:

CBSnews.com (lifandi frétt neðst til hægri í wmp)

News.com

azcentral.com

Latest posts by Samúel T. Pétursson (see all)

Samúel T. Pétursson skrifar

Sammi hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.