Jólahasar

sdfdÍ helgarnesti dagsins er fjallað um jólahasar í víðum skiliningi enda er gríðarlegt framboð af skemmtiatriðum í jólamánuðinum, en áður en lesendur gæða sér á nestinu eru þeir vinsamlega beðnir um að hafa það hugfast að jakki er ekki frakki nema síður sé.

Pólitísk ranghugsun á ekkert erindi á jólum!

Það er erfitt að finna pólitískri ranghugsun rétta hillu í jólamánuðinum, enda virðast menn leggjast á eitt um að láta geðsveiflur mætast í lægð einhvers staðar rétt norðuraustur af Grænlandi í kringum jólahátíðina. Þannig þykir það t.a.m. almenn kurteisi að mæta uppstrílaður í jólahlaðborð – með bindi og belti! – þrátt fyrir augljósan kost þess að mæta í joggíngalla til slíkrar átveislu – enda er fátt meira pirrandi en baráttan við buxnastrenginn, sem gildnar sjaldnast jafnhratt og vömbin. Að sama skapi þykir það ekki fín latína að færa mönnum pólitískt rangþenkjandi jólagjafir (sjá mynd). Þannig að flestir láta til leiðast og beygja sig og bugta fyrir pólitískri rétthugsun og færa vinum og vandamönnum kerti, spil eða bækur – t.a.m. Ninnu Nótt sem pistlahöfundur getur vart beðið eftir að lesa!

Þegar fréttir bárust af því í vikunni að Norðmenn hefðu gerst sekir um sölu á þungu vatni til Ísraels, vöknuðu upp margar áleitnar spurningar. Hér er sú sem brann einna heitast á pistlahöfundi: Eru 20 kíló af þungu vatni 30 kíló að þyngd?

Eðli máls samkvæmt kallar spurning öllu jöfnu á svar. Þannig mun miðstöð einsögurannsókna í Reykavíkurakademíunni leita svara við spurningum sem sennilega hafa minni tengsl við raunveruleikann en áleitin spurning pistlahöfundar um eðliseinkenni þungs vatns. Í gær var nefnilega haldinn fyrirlestur á vegum miðstöðvar um einsögurannsóknir sem bar heitið „Getuleysi og sigið leg á 17. öld.“

Kominn tími til, segi ég nú bara!

Og miðstöðin er ekki af baki dottinn og pistlahöfundur er þess fullviss að margir bíða spenntir ef að hlýða á erindið: „Haldið þér kjafti, frú Sigríður!“, sem fjallar um kyn í sjálfsbókmenntum í víðum skilningi þess orðs. Hafi einhver efast um gildi Reykjavíkurakademíunnar tel ég einsýnt að sá efi sé fyrir bí, enda eiga þessi tvö erindi fullt erindi við alla nútímamenn í jólamánuðinum.

Jólaboð eru mishressandi, það verður bara að játast. Um daginn heyrði ég um ansi skemmtilegan samkvæmisleik sem felst í því að gestir jólaboða eiga að leika bókatitla á meðan aðrir gestir geta sér til um titilinn. Að öllu jöfnu ætti þessi leikur að lífga upp á meðaljólaboðið og býður upp á skemmtilegt tilbrigði við hláturskast, eins og stúlkugreyið sem þurfti að leika bóktitilinn Einkalíf hunda, fékk að reyna fyrir framan nýja tengdafjölskyldu um síðustu jól.

Nóg um það. Eitt hef ég samt aldrei skilið! Hvers vegna eru jólin tími Bjarna?

Góða helgi, börnin góð – og farið varlega í glöggina.

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)