Þessir feitu Bandaríkjamenn

Og við heyrum kallið frá Bandaríkjunum að íslenskar mjólkurvörur eru taldar þær bestu: smjörið fegurst á litinn, best til baksturs og einstakt að gæðum. Og þeir eru farnir að teiga skyrdrykkinn til þess að megra sig, þessir feitu Bandaríkjamenn.

Sá ánægjulegi atburður átti sér stað nýlega að nýtt mjólkurfyrirtæki tók til starfa sem hyggst framleiða osta í minna samstarfi við landbúnaðarráðuneytið en venja hefur verið hingað til. Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherran sem sumum þykir sniðugur, lét sig ekki vanta á opnunina og flutti þar ræðu. Á einum stað í ræðunni minntist hann á (meintan) útflutning íslenskra landbúnaðarvara vestur um haf:

Og við heyrum kallið frá Bandaríkjunum að íslenskar mjólkurvörur eru taldar þær bestu: smjörið fegurst á litinn, best til baksturs og einstakt að gæðum. Og þeir eru farnir að teiga skyrdrykkinn til þess að megra sig, þessir feitu Bandaríkjamenn.

[Úr Fréttum NFS, feitletrun er höfundar.]

Svona ummæli á ráðherra ekki að láta út úr sér. En samt er þetta alveg Guðna líkt. Látum vera stöðugar lygar landbúnaðarráðherra um stöðu íslensks landbúnaðar á erlendum mörkuðum. Látum vera endalausar staðleysur um að erlendis séu menn „á einu máli“ um að íslenska lambakjötið eða mjólkin séu fremst að gæðum. Þær eru kannski ekki verri en hvert annað pólitískt hjal sem menn láta út úr sér til að stappa stáli í sitt fólk og styrkja um leið stöðu sína. En er það ráðherra virkilega sæmandi að láta út úr sér slíka fordómafroðu: „Þeir eru farnir að teiga skyrdrykkinn til þess að megra sig, þessir feitu Bandaríkjamenn?“

Nei. Vegna þess að það er fáum sæmandi. Hvorki grunnskólakennarum, verkstjórum, tannlæknum né neinum öðrum. Hvað þá mönnum í opinberum stöðum. Þeir síst af öllum ættu að dreifa staðalímyndum um feita Bandaríkjamenn, gráðuga gyðinga, þjófótta sígauna eða drykkfellda Rússa.

Ég þori að fullyrða að ef háttsettur stjórnmálamaður í öðru Evrópulandi léti slíkt út úr sér sem Guðni nú á dögunum yrði eftir því tekið. Hvort sem það yrði um Bandaríkjamenn eða aðra þjóð. Ég veit ekki hvers vegna mönnum finnst eitthvað sniðugt við Guðna, sem gerir það að verkum að hans kemst upp með þetta. Sjálfur hef ég sjaldan haft húmor fyrir honum og ekki finnst mér hann neitt sniðugri eftir þetta seinasta uppátæki hans.

Framsóknarmenn ættu að sjá sóma sinn í því að krefjast þess að Guðni annaðhvort biðjist afsökunar eða segi af sér fyrir að láta út úr sér slíka þvælu. Mín skoðun er sú að hann ætti að gera hvort tveggja. Ráðherrar eiga ekki að haga sér eins og fífl.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.