Stóri bróðir

Í gær var samþykkt á Alþingi frumvarp til breytinga á lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Deiglan fjallar um nýju lögin og vafasöm áhrif þeirra á réttarstöðu einstaklinga.

Í gær var samþykkt á Alþingi frumvarp til breytinga á lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000. Frumvarpið er samið af dómsmálaráðuneytinu að frumkvæði Persónuverndar. Það mun hafa í för með sér miklar breytingar til hins verra á réttastöðu einstaklinga gagnvart hvers konar rafrænni vöktun.

Rafræn vöktun er yfirleitt framkvæmd með notkun sjónvarpsmyndavéla, myndbandsbúnaðar, vefmyndavéla eða annars samsvarandi myndatökubúnaðar. Rafræn vöktun felur í sér mikla hættu fyrir friðhelgi einkalífs þar sem hægt er að fylgjast nákvæmlega og kerfisbundið með hegðun og venjum einstaklinga, sérstaklega ef myndefnið er tekið upp og geymt.

Rafræn vöktun hefur þróast ört á síðustu árum og hafa stjórnvöld sífellt fært sig meira upp á skaftið og sett lög og reglur sem veita heimildir sem ganga sífellt lengra í rafrænni vöktun. Þetta byrjaði fyrir nokkrum árum þegar samþykktar voru heimildir til að setja upp hraðamyndavélar lögreglu sem tóku eingöngu myndir af borgurunum þegar þeir gerðust brotlegir við umferðarlögin. Í kjölfarið voru samþykktar heimildir fyrir uppsetningu eftirlitsmyndavéla lögreglu sem taka myndir af öllum sem kjósa að vera niður í miðbæ, hvort sem þeir eru að brjóta af sér eður ei. Síðan komu eftirlitsmyndavélar í skóla sem tóku myndir af ósjálfráða börnum sem urðu að sæta eftirlitinu þar sem skólaskylda er í landinu. Heimildir til notkunar myndavéla til eftirlits þróuðust sem sagt frá því að taka eingöngu myndir af þeim sem frömdu afbrot í það að hafa látlaust eftirlit með öllum til að klófesta einstaka brotamenn. Svona þróun heimilda sem fela í sér sífellt meiri hættu á skerðingu á friðhelgi einkalífs borgaranna er mjög varasöm.

Nýja frumvarpið rekur smiðshöggið á þessa varasömu þróun. Réttarstaðan var nefnilega þannig að mjög erfitt var að fá heimild til taka upp og geyma efni sem varð til við rafræna vöktun. Samkvæmt nýja frumvarpinu verður heimilt að safna hljóð- og myndefni sem verður til við rafræna vöktun að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Í fyrsta lagi þarf vöktunin að vera nauðsynleg og fara fram í öryggis- og eignavörsluskyni, í öðru lagi má ekki afhenda efni sem verður til við vöktunina án samþykkis þess sem upptaka er af nema lögreglu og í þriðja lagi er skylt að eyða því efni sem verður til við vöktunina innan ákveðinna tímamarka.

Þessi skilyrði frumvarpsins eru almenn og tiltölulega auðvelt að uppfylla þau. Til dæmis er gert ráð fyrir að áskilnaður þess um nauðsyn felist í því að þeim sem vaktar beri að meta kosti og galla þess að hafa slíka vöktun og falla frá vöktun verði niðurstaða slíks mats að vinnslan sé ekki nauðsynleg. Með öðrum orðum þá meta menn það sjálfir hvort vinnslan sé nauðsynleg. Á sama hátt er auðvelt að sýna fram á einhver öryggis- og eignavörslurök fyrir vöktuninni. Hin tvö skilyrðin lúta síðan bæði að vinnslu gagnanna eftir að þeirra hefur verið aflað. Ef menn uppfylla þessi einföldu skilyrði öðlast þeir hins vegar umfangsmikla almenna heimild til að taka upp og geyma viðkvæmar persónuupplýsingar um einstaklinga s.s. myndskeið sem sýna t.d. stjórnmálaskoðanir, trúar og aðrar lífsskoðanir, kynhneigð, kynlíf og heilsuhagi þ.á.m. lyfja-, áfengis- og vímuefnanotkun. Það vekur furðu hversu auðveldlega löggjafinn er tilbúinn að veita mönnum heimild til að njósna um jafnvel viðkvæmustu persónulegu þætti í lífi borgaranna.

En það er fleira sem vekur furðu í frumvarpinu. Í lögskýringargögnum kemur fram að vöktun í kirkjum, kapellum eða öðrum húsum sem ætluð eru til bænahalds og trúariðkunar felur í sér sérstaka hættu fyrir friðhelgi einkalífs. Sama á t.d. við um vöktun í mátunarklefum, á salernum, í hótelherbergjum, í káetum, á vínveitingarhúsum o.s.frv. Það vekur athygli að löggjafinn sér ekki ástæðu til að banna með afgerandi hætti rafræna vöktun og upptöku á slíkum stöðum heldur tekur einungis fram að slík vöktun feli í sér sérstaka hættu fyrir friðhelgi einkalífs. Löggjafinn telur því það vera möguleika að koma upp eftirlitsmyndavélum í mátunarklefum og salernum!

Það er ekki nema von að sumum finnist sem löggjafanum og stjórnvöldum standi á sama um réttindi borgaranna til friðhelgis einkalífs.

Þetta frumvarp fór athugasemdarlítið í gegnum þingið og var samþykkt í gær. Það felur í sér alltof viðamiklar heimildir til rafrænnar vöktunar borgaranna og er enn eitt dæmið um óábyrga lagasetningu.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.