Líkamar til sýnis og sölu

Pistlahöfundur segir hér frá upplifun sinni af Body Worlds sýningu þýska vísindamannsins Günther von Hagen sem er ein vinsælasta farandsýning allra tíma. Sýningin samanstendur af uppstillingu plastaðra líkama, líkamshluta og líffæra.

Á dögunum var ég stödd í borginni Fíladelfíu í Pennsylvaníufylki í Bandaríkjunum og kynnti mér að sjálfsögðu, eins og sönnum ferðamanni sæmir, þær lystisemdir sem borgin hafði uppá að bjóða á meðan á dvöl minni stóð. Eitt af því sem stóð til boða í borginni var sýningin Body Worlds í The Franklin Institute Science Museum. Ég reyndar heimsótti ekki þá sýningu þar sem ég hafði séð hana fyrir nokkrum árum í München, en datt þó í hug að þessi merkilega sýning og upplifun mín af henni væri ágætis pistlaefni.

Fyrsta Body Worlds sýningin var haldin í Mannheim árið 1997. Síðan þá hafa meira en 17 milljónir séð hana og er því óhætt að segja að Body Worlds og Body Worlds 2, sem fylgdi í kjölfarið, séu meðal vinsælustu farandssýninga heims.

Hvað er Body Worlds?

Sýningin er hugmynd þýska prófessorsins Günther von Hagens og samanstendur af 25 raunverulegum líkömum og um 200 öðrum líkamshlutum sem hafa verið „plastaðir“ með ákveðinni aðferð, þ.a. líkamsvökvum er skipt út fyrir plast og líkaminn þannig varðveittur í sinni upprunalegu mynd. Líkamarnir hafa verið húðflettir þ.a. innviði þeirra sjást og er þannig hægt að sjá og virða fyrir sér æða- og taugakerfi líkamans, beina- og vöðvauppbyggingu o.s.fv. Líkömunum er gjarnan stillt upp í stellingum og við athafnir sem við þekkjum úr okkar daglega lífi, svo sem á reiðhjóli, gangandi eða sitjandi við skrifborð. Þannig geta þeir sem heimsækja sýninguna virt fyrir sér hvernig þeirra eigin líkami hegðar sér við algengar athafnir og aðstæður. Sýningunni er þó ekki einungis ætlað að vera áhugaverð og fræðandi heldur einnig listræn, og bera ýmsar uppstillingarnar þess merki að þeim sé ætlað að hafa listrænt gildi.

Markmið sýningarinnar

Samkvæmt von Hagen er frummarkmið sýningarinnar að upplýsa fólk um mannslíkamann og veita fólki tækifæri til að öðlast betri skilning á virkni hans og stórfengleika með því að virða fyrir sér raunverulega líkama, í stað þess að fletta myndabókum. Margir hafa tekið undir að því markmiði sé náð með sýningunni. Samanburður á sýktum og heilbrigðum líffærum hvetji til heilbrigðs lífernis og aukinn skilningur á virkni líkamsstarfseminnar leiði til meiri virðingar fyrir eigin líkama. Þá hefur von Hagen haldið fram að plöstunaraðferð hans, og slík vitundarvakning um mannslíkamann, leiði til framfara á sviði læknisfræði. Líkamar sem plastaðir hafa verið af von Hagen hafa einnig verið seldir til háskóla og á rannsóknarstofur til notkunar við kennslu og rannsóknir.

Sýningin er umdeild

Það kemur ekki á óvart að sýning von Hagen á raunverulegum líkömum og líkamshlutum er jafn umdeild og hún er athyglisverð. Gagnrýniraddirnar hafa komið úr ýmsum áttum en hafa þó átt það sameiginlegt að efast um siðferðið í því sem von Hagen er að gera. Sumir vilja undantekningarlaust að líkamar séu jarðaðir eftir andlát, aðrir hafa átt í erfiðleikum með að sættast á að von Hagen skuli stunda plöstunina í gróðaskyni og enn öðrum finnst sýningin einfaldlega ógeðfelld.

Þegar ég fór á sýninguna í München á sínum tíma hafði ég ekki enn heyrt gagnrýni sem ég gat tekið undir. Alla vega ekki án þess að hafa séð hana. Mér fannst ekkert ógeðfellt við líkamana, það er ekkert í minni trú sem kemur í veg fyrir að hægt sé að nýta líkamann í þágu vísinda eftir andlát og mér fannst ekkert athugavert við að von Hagen hefði tekjur af þessari hugmynd sinni og starfsemi. Í raun var ég bara spennt og í ljósi yfirlýsts tilgangs sýningarinnar bjóst ég við engu öðru en fróðlegri og áhugaverðri upplifun. Fólkið hafði jú sjálft samþykkt þetta!!

Ónauðsynlegar uppstillingar líkama

Eftir sýninguna var ég ekki eins jákvæð. Þar sem ég gekk um sýningarsalina og virti fyrir mér hinar ýmsu uppstillingar líkama, sem eitt sinn voru jafnlifandi og ég og þú, sá ég mann á hesti með mannsheila í hendinni. Ég sá líkama sem hafði verið stillt upp á mjög skoplegan hátt og jafnvel klæddir í fatnað eins og hatt eða skó. Ég sá plöstuð fóstur á hinum ýmsu þroskastigum. Ég sá ólétta konu liggjandi í einhvers konar fyrirsætustellingu þar sem ristur hafði verið upp á henni kviðurinn svo við blasti nánast fullvaxið barn. Ég fékk þannig ekki á tilfinninguna að það sem ég var að sjá væri nauðsynlegt til að þjóna yfirlýstu markmiði von Hagens með starfsemi sinni.

Líkamagjöf eða líkamaverslun? Er upplýst samþykki til staðar?

Við eftirgrennslan mína eftir sýninguna komst ég að því að fólkið hafði ekki samþykkt þetta! Það að gefa líkama sinn til starfsemi von Hagens felur ekki í sér neina lýsingu á því hvernig honum mun verða stillt upp eða hvað verður gert úr honum. Eyðublaðið sem líkamagjafar fylla út minnast ekki á nokkurn annan tilgang en þann sem lýst er hér að ofan. Þær spurningar sem fjalla um sýningu líkamana á almannafæri víkja ekki í neinu frá læknisfræðilega tilgangnum og gefa hvergi til kynna með hvaða hætti líkamanum verður stillt upp. Þá hefur einnig komið í ljós að stærstan hluta þeirra líkamshluta eða líffæra sem eru til sýnins á Body World sýningunni hefur von Hagens keypt, m.a. frá Kína, Rússlandi eða öðrum löndum austur Evrópu. Ekki er í öllum tilvikum gengið úr skugga um upplýst samþykki þeirra einstaklinga í lifanda lífi og grunur, sem sumir telja sig geta rökstutt, leikur á að um sé að ræða látna fanga, heimilislausa, geðsjúklinga eða aðra sem látist hafa en ekki verið vitjað um líkama þeirra.

Body Worlds sýningin er á sigurför um heiminn og hver veit nema hún dúkki upp hér á landi einhvern daginn. Fólk borgar dágóða summu til að virða fyrir sér líkama og líffæri fólks sem, a.m.k. að hluta, hafði ekki hugmynd um það á meðan það var enn á lífi að svo myndi vera komið fyrir jarðneskum leifum þess eftir andlátið. Sýningin virðist hafa það að undirliggjandi markmiði að ganga fram af fólki með ónauðsynlega grófum og jafnvel niðurlægjandi uppstillingum þessa mikla meistaraverks sem mannslíkaminn er og markmiðið um vitundarvakningu meðal almennings um heilsusamlegt líferni og stórfengleika musteris sálarinnar missir sig á leiðinni, a.m.k. í mínu tilviki.

Latest posts by Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir (see all)