Baugsmálið

Svo virðist sem meginuppistaðan í Baugsmálinu hafi endanlega gufað upp í Hæstarétti í gær. Aðeins standa eftir átta atriði af fjörtíu og miðað við sögusagnirnar á síðustu árum þá hlýtur afrakstur ákæruvaldsins að teljast helst til rýr.

Svo virðist sem meginuppistaðan í Baugsmálinu hafi endanlega gufað upp í Hæstarétti í gær. Aðeins standa eftir átta atriði af fjörtíu og miðað við sögusagnirnar á síðustu árum þá hlýtur afrakstur ákæruvaldsins að teljast helst til rýr.

Hvort sem það er sanngjarnt eða ekki er líklegt að Baugsmálið muni í framtíðinni fyrst og fremst teljast vera pólitískt mál. Engum heilvita manni dettur í hug að þræta fyrir að pólitískir valdamenn á Íslandi hafi haft horn í síðu Baugs og ekki er heldur neinum blöðum um það að fletta að Baugsmenn hafa látið hart mæta hörðu á þeim vettvangi. Allir þátttakendur í hildarleik síðustu ára standa smærri eftir orrustuna og vafalaust er þjóðin öll orðin hundleið á þeim miklu átökum og flokkadráttum sem málið hefur haft í för með sér.

Baugsmálið hefur haft margháttuð neikvæð áhrif á íslenskt samfélag á síðustu árum og sumpart má segja að gríðarlegur árangur undanfarinna áratuga í efnahagsmálum hafi beðið hnekki vegna þeirrar tortryggni, flokkadráttar og heiftar sem fylgt hefur málinu frá upphafi. Langflestar valdastofnanir samfélagsins hafa verið dregnar inn í deilurnar um Baug og á meðan hefur viðskiptalífið þurft að búa við þrúgandi óvissu um hverjar lyktir málsins yrðu – og hvort yfirhöfuð hægt væri að treysta stofnunum samfélagsins til þess að halda sjálfstæði sínu í máli sem þessu.

Biturðin sem einkennt hefur Baugsmálið hefur valdið samfélaginu miklu tjóni. Í stað þess að frjáls markaður hafi fengið að blómstra hér – eins og til stóð – hefur hin pólitíska umræða hverfst um afstöðu manna til tiltekinna kaupsýslumanna og fyrirtækja. Hugsjónapólitíkin um bætt mannlíf í krafti frelsis hefur að stórum hluta vikið fyrir valdapólitík og tortryggni.

Í Baugsmálinu eru engir aðalleikendurnir algóðir eða alvondir. Allir hafa þeir vafalaust sitthvað til síns máls og eitthvað á samviskunni. Það er hins vegar stóralvarlegt að eftir allt þetta japl, jamm og fuður standi það eftir að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að setja saman boðlegri málflutning en svo að stærstum hluta kærunnar sé vísað til föðurhúsana. Hljóta forsvarsmenn ákæruvaldsins að íhuga alvarlega stöðu sína í kjölfar úrskurðarins í gær.

En stærstur skaðinn er sú tortryggni sem málið hefur valdið. Frjálst markaðssamfélag er andlag þessarar tortryggni hjá sumum, margir efast um réttarríkið og lögregluna, enn aðrir tortryggja símafyrirtækin og netþjónustur, fjölmiðlar og blaðamenn hafa tekið þungan skell og stjórnmálin hafa heldur ekki komist vel frá þessum hildarleik.

Offorsið sem einkennt hefur Baugsmálið er engum til sóma eða góðs og líklegt er að töluverður tími líði áður en sárin á þjóðarsálinni grói um heilt.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)