Af hverju?

Ótrúlegasta fólk býr yfir gagrýnni hugsun og jafnvel enn ótrúlegra er þegar annað fólk virðist vera gjörsamlega snautt þessum hæfileika. En hvers er verið að fara fram á af fólki þegar ætlast er til að það beiti gagnrýnni hugsun?

Þann 10. september síðastliðinn birtist hér á Deiglunni afskaplega áhugaverð grein þar sem höfundur fjallaði meðal annars um þá mistúlkun og neikvæðni sem að einkennir alla umræðu um áróður í daglegu tali. Eftir að hafa lesið fyrrnefnda grein varð mér ljóst að umfjöllunarefnið á fullt erindi inn á öll heimili landsins enda vinnur það með þann mannkost sem prýðir fólk hvað mest í lífinu, gagnrýna hugsun. Gagnrýn hugsun er hæfileiki sem virðist vera misskipt í þjóðfélaginu, og á stundum vaknar sú tilhugsun hvort að sumir séu bara heppnari en aðrir. Ótrúlegasta fólk býr yfir gagrýnni hugsun og jafnvel enn ótrúlegra er þegar annað fólk virðist vera gjörsamlega snautt af þessum hæfileika. En hvers er verið að fara fram á af fólki þegar ætlast er til að það beiti gagnrýnni hugsun?

Í fyrsta lagi þá tel ég að lykillinn á bakvið gagnrýna hugsun sé ekki að festa sig í fræðilegu nafni hugmyndarinnar. Til dæmis að þá tel ég grein Páls Skúlasonar fyrrverandi rektors HÍ sem fjallar um gagnrýna hugsun og notkun hennar sé alls ekki góður byrjunarpunktur fyrir þá sem vilja aðlaga sig gagnrýnni hugsun, til þess er hún einfaldlega of fræðileg. Gagnrýn hugsun þarf nefninlega að vera aðgengileg fyrir alla þjóðfélagshópa og þá gengur ekki að bjóða fólki upp á háfræðilega ritgerð sem skilgreinir og vinnur með hugtakið á hátt sem að fáir skilja án þess að hafa með sér töluverða fyrri menntun.

Í öðru lagi að þá kemst hugtakið, gagnrýn hugsun, hvað næst því í íslenskri málnotkun að vera þýðing á því sem ensku mælandi kalla common sense. Það liggur í augum uppi að þessi þýðing er ekki bein frá ensku yfir í íslensku en ég tel að gagnrýn hugsun fari töluvert nálægt kjarnahugmyndinni í þessu enska hugtaki. Almenn skynsemi er þó mun víðara hugtak og mun þar af leiðandi ávallt vera hinn “rétta” þýðing. Samkvæmt þessu að þá kemur það í ljós að gagnrýn hugsun er ekki bara eitthvert tæki sem maður notar. Gagnrýn hugsun líkt og common sense er lífstíll, það er lífstíll sem segir eitthvað í námunda við “þetta er áhugavert en ég vil þó heyra allar hliðar málsins áður en ég tek ákvörðun”. Að sjálfsögðu er þetta ekki eitthvað sem að við munum gera á hverjum einasta degi eða við hvert einasta mál sem kemur inn á okkar borð, ef svo væri gerðum við lítið annað. Hinsvegar að þá er þetta nokkuð sem að fólk ætti að hafa á bakvið eyrað og vega og meta hvenær í okkar daglega lífi er skynsamlegt að hrista hina gagnrýnu hugsun fram úr erminni.

Í þriðja og síðasta lagi þá er skynsamlegt að minnast á hvernig er gott að byrja. Allt sem kemur fram í þessum pistli miðast við að fólk geti gengið beint út á götu og byrjað að beita gagnrýnni hugsun. Staðreyndin er að svo einfalt er málið. Eins og áður sagði að þá þarf fólk ekki að kunna grein Páls Skúlasonar utan bókar til þess að notfæra sér kosti og leyndardóma gagnrýnnar hugsunar. Það sem fólk þarf að gera er að spyrja meira. Af hverju? Hvernig? Hvenær? Eru til dæmis þrjár hugmyndir um hvernig má byrja að nota gagnrýna hugsun. Í stað þess að samþykkja allt sem maður heyrir sem heilagann sannleika, hvers vegna ekki að spyrja sjálfan sig eða sögumanninn einhverra þessara þriggja spurninga og hverjar heimildirnar séu. Þetta hljómar kannski nokkuð heimskulega og margir sem spyrja sig hvort að ég eigi við að það ætti að efast um hvert einasta orð sem að fellur frá vörum vina þeirra, fjölskyldu og annarra. Svarið er líklega, já! Aftur á móti verður hver og einn að vega og meta hvort að efnið þurfi frekari krufningu og oft er betra að spyrja sjálfan sig að þessum spurningum áður en maður spyr sögumanninn.

Hvort ætli það sé betra að fljóta um innihaldslaus og án spurninga eða virkilega standa undir því fræðiheiti sem að við berum, hinn vitiborni maður sem veit að hann veit (homo sapien sapien). Staðreyndin er sú að það er mjög kjánalegt að þora ekki að spyrja um hluti, ástæður eða uppsprettur í ótta við að hljóma vitlaus, því að án þess að spyrja verður maður alltaf skrefi á eftir.

„The test of a first-rate intelligence is the ability two hold two opposed ideas in the mind at the same time, and still retain the ability to function.“ F. Scott Fitzgerald