Þú ert númer 504 í röðinni…

Mun einkavæðing Símans verða til bættrar þjónustu eða heldur stofnanabragurinn áfram að ríða húsum?

Í gær var greint frá ráðstöfun ríkisstjórnarinnar á fénu sem fékkst fyrir Símann. Hörðustu vinstrimenn gráta enn slátrun mjólkurkúnnar þrátt fyrir augljósan ábata. Aftur á móti gleðjast þeir sem síður aðhyllast afskipti ríkisins af rekstri fyrirtækja og bíða eftir bættri þjónustu í kjölfar frelsunarinnar. Ekki veitir af.

Ögmundur Jónasson og félagar í Vinstri-Grænum hafa oft viðhaft ummæli um að til séu tvenns konar fyrirtæki. Annars vegar þjónustufyrirtæki sem séu þá í eigu ríkisins til heilla fyrir almenning. Hins vegar séu það gróðafyrirtækin. Gróðafyrirtæki eru í eigu einstaklinga og markmið þeirra virðist fyrst og fremst vera að arðræna almúgann.

Þessir sömu aðilar virðast ekki sjá þversögnina sem felst í því að kalla Símann mjólkurkýr. Einhvernvegin virðist þeim einnig hulið að stofnanir sem einmitt eiga að þjónusta almenning virðast oft vera þær sem fólk þolir verst að skipta við. Sem dæmi má nefna Tollstjóra og Tryggingastofnun.

Síminn er einmitt ein þeirra stofnana sem hvað mest hafa farið í taugarnar á viðskiptavinum sínum. Oft hefur verið rætt um ógegnsæjar verðskrár símafyrirtækja en þrátt fyrir að vera í ríkiseigu hefur Síminn ekki látið sitt eftir liggja þar.

Margir fögnuðu þegar þjónustuver Símans var opnað. Þeir sem svo hafa þurft að hringja í 800-7000 ættu helst að fá áfallahjálp eftir reynsluna. Undirritaður hafði á dögunum beðið í 38 mínútur og var orðinn fimmti í röðinni þegar klukkan sló 22:00 og þjónustuverið lokaði. Daginn eftir slitnaði símtalið af sjálfsdáðum eftir 13 mínútur. Síðar sama dag náðist samband við þjónustufulltrúa eftir 34 mínútur. Var þar tilkynnt að bíða þyrfti aðra viku eftir að nettenging yrði virkjuð.

Ég flutti semsagt á dögunum og óskaði eftir að nettengingin yrði flutt á nýja staðinn. Eftir viku bið (sem átti ekki að vera lengri en þrír dagar) hringdi ég og fékk að vita að ég þyrfti að bíða aðra viku. Athugið að ég þarf ekki að fá mann heim til mín – það þarf bara að breyta einhverjum tengingum á símstöðinni sjálfri!

Ég er þó ekki í hópi þeirra allra pirruðustu. Ég er ekki í hópi þeirra 504 í sveitarfélagi einu nálægt Reykjavík sem biðu fyrir helgina eftir að fá mann heim til sín til að tengja stafrænt sjónvarp. Þessir 500 (næstum 5% bæjarbúa) og þeirra nánustu hafa verið fremur pirraðir að sjá ekki enska boltann um helgina.

Ég ætla ekki að minnast á þá ótrúlegu staðreynd að þrátt fyrir einkavæðinguna geti Síminn áfram haldið stöðu sinni með að neyða viðskiptavini OgVodafone til að skipta um þjónustuaðila til að sjá enska boltann!

Það hlýtur líka að vera ótrúlegt álag á símvirkja og þjónustufulltrúa að kljást við pirraða viðskiptavini sem bölva ástandinu. Stjórnendur fyrirtækisins hafa alltént ekki staðið sig sem skyldi gagnvart viðskiptavinum sínum.

Það er vonandi að nýir eigendur símans fylgi lögmálinu um að einkavæðingu fylgi bætt kjör og þjónusta. Að öðrum kosti verðum við sem höldum í vonina að kjósa með fótunum og veskinu.

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)