Kosið um flugvöllinn

Eitt af stóru málunum í sveitarstjórnarkosningunum í vor verður án ef framtíðarskipulag Vatnsmýrarinnar.

Eftir því sem nær dregur sveitarstjórnarkosningum magnast spennan um úrslitin í borginni. R-listinn virðist hafa gefið upp öndina enda komust menn að því að forsendur samstarfsins, sem var upphaflega að koma Sjálfstæðismönnum frá völdum, voru brostnar. Því hafa flokkarnir sem stóðu að R-listanum ákveðið að koma til dyranna eins og þeir eru klæddir, ræða borgarmálin út frá sínum raunverulegu forsendum og bjóða fram hver fyrir sig.

Sjálfstæðismenn hafa verið gagnrýndir fyrir að horfa of mikið til vandamála borgarinnar, þá sérstaklega í fjármálum, og fyrir að bjóða ekki nógu skýra framtíðarstefnu.

Vissulega á sú gagnrýni að einhverju leyti rétt á sér því þangað til nú hefur minnihlutinn í borginni lagt höfuðáherslu á að benda á hækkun skulda og vanhugsaðar fjárfestingar sem líklega hefur bitnað á umræðu um það sem margir kalla framtíðarsýn.

En áhersla Sjálfstæðismanna á fjárhagstöðu borgarinnar er skiljanleg og á rökum reist. Gott dæmi sem vakti furðulega lítil viðbrögð almennings var nýleg hækkun útsvars Reykjavíkur. Borgin hefur alla burði til að vera með lægstu útsvarsprósentuna og er óþolandi að hækkunin hafi komið kjölfar lækkunar tekjuskatts. Eins fer ekki fram hjá neinum að skuldir borgarinnar hafa hækkað og þó að því sé borið við að eignir hafa einnig aukist verður ekki fram hjá því litið að framtíðarkynslóðir munu bera mikinn kostnað af þessari þróun.

En eins og fyrr segir virðist umræða um fjármál borgarinnar ekki ætla að skila atkvæðum í kassann í vor heldur virðast kjósendur bregðast betur við framtíðarmúsík í skipulagsmálum sem virðast vera fólki ofarlega í huga um þessar mundir (sjá eldri pistil)

Undanfarin ár hefur R-listinn verið áberandi í umræðu um skipulagsmál, ekki síst vegna hlutverk síns í meirihluta borgarinnar. Því liggur beinast við að gera ráð fyrir að flokkarnir sem að honum stóðu hefðu forskot þegar kemur að umræðu um skipulagsmál.

En svo virðist ekki vera því á undanförnum mánuðum hefur Sjálfstæðismönnum tekist að taka algjört forskot í þessum mikilvæga málaflokki m.a. með hugmyndum um uppbyggingu við sundin og gjaldfrjáls bílastæði í miðborginni.

Heitasta málið í borgarpólitíkinni hlýtur þó að vera framtíðarstaðsetning Reykjavíkurflugvallar og framtíð Vatnsmýrarinnar. Vil ég ganga svo langt og halda því fram að þónokkur stór hluti kjósenda láti þetta mál ráða atkvæði sínu í haust. Fram að þessu virtist R-listinn vera vænlegasti kosturinn fyrir þennan hóp þar sem margir töldu alls óvíst hvaða stefnu Sjálfstæðisflokkurinn hefði. Eftir fjölmörg tækifæri til að bera fram skýra stefnu og koma henni í framkvæmd er ljóst að núverandi meirihluta hefur ekki tekist að svara því hvort völlurinn verði eða fari.

Hins vegar virðast báðir frambjóðendurnir í fyrsta sæti á lista Sjálfstæðismanna í borginni vera fullkomlega sammála og bjóða kjósendum upp á raunverulegan valkost þ.e. að flugvöllurinn fari á næsta kjörtímabili.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.