Borgaraleg fréttamennska

Í árdaga bloggins var mikið talað um hugtakið borgaraleg fréttamennska. Jafnvel var gengið svo langt að segja að bloggið myndi gera hefðbundna fjölmiðla óþarfa. Bloggarar myndu bjóða upp á fréttir beint frá viðburðum, sem væru óháðar valdi ritstjórna, eiganda eða annarra hugsanlegra áhrifavalda.

Í upphafi bloggsins var mikið rætt um borgaralega fréttamennsku (þýðing undirritaðs á Citizen Journalism). Margar greinar hafa verið skrifaðar um þetta fyrirbæri en í grunninn er þetta fréttamennska þar sem almenningur kemur á einn eða annan hátt beint að fréttamennskunni.

Jafnvel hafa menn gengið svo langt að skipta þessu niður í 11 mismunandi flokka, þar sem einfaldasta formið eru athugasemdir í athugasemdakerfi á fréttasíðum, líkt og er í boði á heimasíðu Egils Helgasonar og upp í síður þar sem lesendu geta með einföldum hætti bætt við og breytt efni hennar sjálfir (líkt wikipedia.org.

Í árdaga bloggsins voru margar raddir sem spáðu fyrir um endalok hefðbundinnar fjölmiðlunar vegna grasrótarfréttamennsku, þar sem fólk óháð auglýsendum, ritstjórnum, eða öðrum hugsanlegum hagsmunaaðilum myndi skrifa “raunverulegar fréttir” af betri þekkingu og meiri natni en þeir fjölmiðlamenn sem þurfa að skrifa undir því álagi og tímaleysi sem er á hefðbundnum fjölmiðlum.

Bloggið hefur hins vegar aldrei náð þessu og margir hafa rætt um endalok borgarlegu fréttamenskunnar eða öllu heldur að hún hefði aldrei orðið til. Bloggið hefur helst orðið til að skapa uppfyllingarefni fyrir hefðbundna fjölmiðla. Fréttamiðlar og spjallþættir sækja ódýrt efni beint af bloggsíðum og vefmiðlum en hins vegar hefur ekki það ekki orðið til neinnar byltingar.

Undanfarið hefur þetta hugtak rifjast upp fyrir mörgum, en ástæður þess eru myndavélasímar, en í dag eru ódýrustu farsímar komnir með eitthvað form af myndavél. Með þessu hefur blaðamennskan aftur færst nær fólkinu, en um leið og eitthvað gerist getur almenningur tekið myndir með símanum sínum og sent annað hvort á eigin síðu eða beint til fjölmiðla. Þannig geta lesendur þessa miðla nánast fylgst beint með viðburðum og fengið mun fyrr skýra mynd af atburðarrásinni. Sem dæmi fékk bbc hundruð mynda fljótlega eftir sprengingarnar í London, og sama hefur verið að gerast nú þegar fellibylurinn Katrín gekk yfir hluta Bandaríkjanna.

Á Íslandi hefur heldur lítið farið fyrir svona fréttamennsku, hvort sem er í gegnum blogg eða myndasendingar. Líklega myndu fáir vita hvert ætti að senda myndir ef senda ætti á fjölmiðil líkt og mbl.is eða vísir.is, sem eru í keppni um að vera fyrstir með fréttirnar. Skyldi mbl@mbl.is eða visir@visir.is virka til að koma myndum til þeirra ef vitni næði mynd ársins með símanum sínum? Þótt þetta muni ekki valda neinni byltingu, mun þetta veita lesendum upplýsingar beint af vettvangi, eins og almenningur upplifir atburðinn hverju sinni.

Latest posts by Tómas Hafliðason (see all)

Tómas Hafliðason skrifar

Höfundur hefur skrifað á Deigluna frá árinu 2002. Höfundur er verkfræðingur frá Háskóla Íslands og rekur eigið fyrirtæki.